ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

Góða kvöldið

Ég er kona á þrítugsaldri og bý með manni sem beitir mig miklu andlegu ofbeldi. Ég hef leitað leiða í meira en ár til þess að fara frá honum en ég hef ekki komið því í verk. Á yfirborðinu erum við flott par. Við eigum sitthvort barnið frá fyrri samböndum sem eru hjá okkur aðra hvora viku og mér þykir ofboðslega vænt um hans barn.

Málið er að hann er alkóhólisti að ég held. Hann verður reiður og illur þegar hann er fullur. Ég er hætt að fara út með honum um barnlausu helgarnar því hann verður yfirleitt alveg ruglaður. Hann kemur reyndar heim af djamminu alveg kolruglaður. Ég vakna um leið og hann setur lykilinn í skráargatið og bíð eftir því að hann komi inn í herbergi. Undanfarna mánuði hefur hann alltaf komið reiður heim. Hann kemur og kveikir ljósið í herberginu og segir hátt „Ertu vakandi?“ og ég svara ekki því mig langar svo að fá bara að vera í friði. Stundum kemur hann og ýtir í mig og hefur stundum rifið sængina af mér til þess að vekja mig.

Hann er alltaf brjálæðislega reiður út í mig þegar hann er drukkinn. Hann fer og ætlar að elda handa „okkur“ og ef ég vill ekki borða þá er ég vanþakklát drus** og fleira ljótt sem hann vill segja við mig.

Hann hefur sofnað út frá pottum og pönnum sem eru í gangi. Hann kýldi gat á hurðina inn á bað þegar ég læsti mig þar inni þegar hann var brjálaður út í mig fyrir að vilja ekki borða steikt beikon um miðja nótt. Daginn eftir hjálpaði ég honum að skipta um hurð, áður en stelpurnar kæmu heim daginn eftir. Hvað er að mér? Af hverju geri ég þetta? Af hverju kem ég mér ekki í burtu?

Ég þori því ekki…..

SHARE