Munið þið eftir laginu „Mjólk er góð, fyrir káta krakka, kynjaþjóð, bæði álfa og tröll. Mjólk er góð, girnileg að smakka, glöð og rjóð þá við verðum öll.“ ?  Allir krakkar sönglandi þetta hér um árið og Dreitill var hetjan þeirra.  En núna heyri ég nýjan texta frá mínum drengjum og varð pínu forvitin hvaða fígura væri þar á bakvið.  En fann ekkert nema þessa flottu krítarauglýsingu frá MS

 

1. erindi

Hraustur kroppur geymir heilbrigða sál. Hugsandi anda með vitsmuni og mál. Með stoðirnar rammar sem stuðlaberg, sterkbyggða vöðva og traustan merg.

Viðlag

Þú fyllir glas af mjólk sem er hressand´ og hrein. Hleður inn kalki í tennur og bein. Tennur og vöðva og bein og blóð. Það er bersýnilegt hvað mjólkin er góð.

2. erindi

Í æsku fékkstu mat sem matur var í. Magnað að allt lífið býrðu að því. Ef ofurfæða er þínar ær og kýr opnaðu fernu einn tveir og þrír.

Viðlag endurtekið

Þú fyllir glas af mjólk sem er hressand’ og hrein. Hleður inn kalki í tennur og bein. Tennur og vöðva og bein og blóð. Það er bersýnilegt hvað mjólkin er góð.

Þetta er ótrúlega grípandi lag og svo er ég farin að söngla þetta með þeim í tíma og ótíma.  Það liggur greinilega gríðarleg vinna á bakvið þessa stuttu og flottu auglýsingu eins og sést hér undir, enda gerir maður sér sjaldan grein fyrir vinnunni á bakvið svona auglýsingar.  Mjólkursamsalan hefur þetta að segja um herferðina:  „Mjólk er góð”.   Sú nýstárlega leið var valin að draga fram jákvæð áhrif mjólkur með krítarteikningum. Dana Tanamachi, leturhönnuður og krítarlistamaður, lagði okkur lið við hönnun herferðarinnar, en hún er orðin heimsþekkt fyrir krítarverk sín og hefur unnið fyrir mörg af stærstu vörumerkjum heims. Sjónvarpsauglýsingar voru gerðar í sama stíl af framleiðslufyrirtækinu Sítrusi en þær sýna hvernig mjólkin kemur við sögu í daglegu lífi okkar alla ævi. Sjónvarpsauglýsingarnar skarta lagi sem samið er af Medialux með texta eftir Þórdísi Helgadóttur, textasmið hjá ENNEMM og Jóhann Sigurðarson, leikari, syngur.

Og við höldum áfram að söngla með á mínu heimili.

 

 

SHARE