M&M klessukökur (Subwaykökur)

Þessar slá alltaf í gegn hjá mér og eru sjúklega góðar. Þetta eru í raun amerískar súkkulaðibitakökur en með örlitlum breytingum sem bæta þær og gera mun betri. Prófið bara sjálf.

 

Klessukökur

125 g smjör (við stofuhita)
125 g púðursykur
50 g sykur
1 egg
1-2 tappar vanilludropar
175 g hveiti
½ tsk salt
1 tsk matarsódi
185 g M&M
20-40 g smátt saxað súkkulaði

 

Smjörinu, púðursykrinum og sykrinum er blandað saman í skál og unnið vel. Vanilludropunum og egginu er svo bætt útí. Þurrefnin bætast svo við eitt að öðru og deigið er hnoðað þar til það er vel blandað saman. Loks má bæta M&M-inu út í deigið ásamt súkkulaðinu.

Mér finnst best að leggja bökunarpappír á plötuna og nota teskeið til þess að raða deiginu á plötuna. Það þarf að hafa langt á milli því þessar elskur breiða vel úr sér. Það er gott að setja 3×3 á hverja plötu því fær hver klessa nægt pláss til að breiða úr sér.

Herlegheitin eru svo bökuð við 200°c í 8-9 mínútur.

Leyfið kökunum að kólna þegar þær koma úr ofninum. Þær eru svakalega mjúkar svona nýbakaðar og þurfa smá tíma til þess að verða stökkar.

Í mörgum uppskriftum eins og þessari er talað um að nota ljósan púðursykur. Ég geri það ekki þegar ég baka þessar heldur nota ég alltaf brúnan. Sá brúni gerir kökurnar bragðbetri en sumir sverja að ljósi púðursykurinn bjargi uppskriftinni. Ég er bara ekki sammála því.

Hinsvegar geta allir verið sammála um að þessar kökur eru bestar volgar með ískaldri mjólk

 

SHARE