Nokkur orð um ótta og traust

Ég var barn sem ólst upp í umhverfi þar sem fjölskyldusjúkdómurinn alkóhólismi var við völd. Eins og flest önnur börn sem alast upp við þær aðstæður var óttinn alltaf með í för.

Lengi lét ég óttann stýra lífi mínu. Ég sleppti því að fara og gera ýmislegt af því óttinn bankaði uppá. Ég var með meltingatruflanir og önnur óþægindi af því óttinn var við völd.

Óttinn kom við sögu á hverjum degi og við flestallar aðstæður í lífi mínu hér áður fyrr, ég hitti hann sem barn og hann varð órjúfanlegur partur af mér fram á fullorðinsár.

Ég óttaðist allt mögulegt t.d fólk, ofbeldi, álit annara, myrkrið, pöddur, áfengi, eiturlyf, ég gat fundið óttann í nánast öllu. Ég óttaðist mjög mikið að eiga ekki nóg og skorta peninga.

Óttinn skerti lífsgæði mín verulega, lengi vel óttaðist ég nýjar aðstæður, nýtt fólk og af þeim sökum einangraði ég mig mikið með því að búa til ástæður fyrir því að geta ekki tekið þátt í því sem mér var boðið að taka þátt í. Ég óttaðist lengi vel að ferðast til útlanda því ég var flughrædd og hrædd við fólk. Ég hætti að keyra í mörg ár eftir árekstur svo einhver dæmi séu nefnd.

Óttinn olli því að ég var alltaf slæm í maga( þróaði með mér ristilkrampa sem barn) ég upplifði streitueinkenni og svaf illa enda svo hrædd við myrkrið.

Ég treysti engum og traust var ekki til á nokkurn hátt því þegar óttinn er alsráðandi er ekki pláss fyrir traust.

Í dag er traustið allsráðandi og óttinn víðsfjarri, hann kíkir stundum á mig en einungis í mjög stutta stund. Í dag kann ég að reka óttann á brott og dvelja í trausti. Þvílík lífsgæði.

Ég vann með mig, með hjálp annara, bæði fagaðila og sjálfshjálparsamtaka fyrir aðstandendur.  Í raun hóf ég þessa vinnu 13 ára gömul og hef unnið í mér síðan þá og mun vinna í mér út lífið. Mitt helsta takmark er að verða betri manneskja á morgun en í dag.

Í dag nýt ég lífsins, elska að ferðast, finn ekki fyrir flughræðslu. Ég veit fátt skemmtilegra en góðra vina hópur og finn einungis fyrir forvitni í nýjum aðstæðum. Ég hef tekist á við margar ógnvænlegar aðstæður í lífinu og þar hefur traustið á það góða ávallt hjálpað mér að komast í gegnum þær og nýta þær mér til þroska.

Akkúrat núna veit ég ekkert hvar eða hvort ég eigi heimili eftir 3 mánuði, en ég veit að óttinn hjálpar mér ekki svo ég nýt hvers dags og trúi því að til mín rati rétta leiguhúsnæðið.

Ég skora á alla að segja óttanum upp og fagna traustinu.

Lifum til fulls

Kristín Snorradóttir

Heimasíða Sterk saman og Facebook.

SHARE