Ég er einleyp og þess utan búsett í fjölmenningarsamfélagi. Var sannfærð um að útlenskir karlmenn kynnu tökin á þessu allt þar til fyrir skömmu og var agalega spennt að hleypa heimdraganum í einkalífinu þegar ég tók saman föggur mínar og flutti að heiman.

Mér var jú sagt að stefnumótamenningin væri svo virk erlendis. Þessu trúði ég alveg eins og nýju neti áður en ég flaug yfir hafið. Sannfærð um ágæti erlendrar stefnumótamenningar og fullviss um að mín hlytu að bíða ógurlega rómantískar kvöldstundir. Spennt fyrir fyrsta blómvendinum og vongóð um að brátt yrði mér boðið á ógleymanlegt stefnumót undir stjörnubjörtum himni. Þar sem einhver erlendur söngfuglinn myndi verma mér um hjartarætur og allt yrði svo fallegt og skemmtilegt.

Og viti menn og konur. Það er sem mig renndi í grun; ég veð upp að hnjám í tilboðum. En birtingarmyndinrar er þó aðrar en ég ætlaði, þó hólyrðin láti ekki á sér standa. Ég nýt gífurlegra vinsælda og svo öflugar hafa undirtekirnar við tilvist minni verið að undanförnu að ég þarf í sífellu að hlaða örmagna farsímann milli þess sem ég fel mig undir borði í vinnunni og hlæ.

Í upphafi er orðið; samskipti hér ytra fara nefnilega að mestu fram gegnum netmiðla og sú hugmynd að “hittast bara á einhverjum stað” er orðin svo úrelt að þeir sem trítla í bæinn og ákveða að láta slag standa eru oft álitnir skrýtnir.

Nú get ég ekki með neinni vissu fullyrt um eðli stefnumóta í stórborgum, það er aldrei að vita nema fólk fari enn í tilviljanakenndan sleik og að kortér í þrjú taktíkin margrómaða eigi enn fyllilega við. En það þykir ægilega smart að nota netið í dag og allir hér í borg eiga smartsíma. Enginn þykir maður með mönnum (ef einhleypur er) nema hafa sett upp stefnumótaprófíl í erlendu borginni og þá helst einhverja viðbót í ofanálag sem hringir í sífellu.

Það sem ég ekki reiknaði með er að þeir erlendu karlmenn, sem ég áður taldi sérfróða um rómantísk stefnumót, koma frá nær öllum heimshornum. Hafa ólíkan menningarlegan bakgrunn, litrík viðhorf til kvenna og afar misjafnar hugmyndir um eðli og inntak stefnumóta. Þetta skapar ákveðna “kontrasta” og íslensk konan ég er orðin hálf forviða; gott ef ekki agndofa á svip.

Ég, sem lifði rólyndislegu lífi hinnar einhleypu konu í úthverfi borgarinnar fyrir einhverjum sólarhringum síðan – kastaði mér út í iðu fjölmenningarsamfélagins með einfaldri handarsveiflu fyrir 72 klukkustundum; þrýsti letilega á farsímaskjáinn, hlóð niður sáraeinfaldri viðbót og sogaðist ofan í ævintýralega hringiðu nafnlausra netstefnumóta án þess einu sinni að þurfa að bregða mér í skó og hvað þá út um dyrnar.

“Have you ever been with a black man before” (hello Mr. 12 inches). Þessa spurningu rak á fjörur mínar meðan ég sat með jógúrtskálina í hádeginu og gæddi mér á brauðsneið með salati. Mér svelgdist á. Annar trúði mér fyrir því í einlægni að hann væri “seeking a frameless relatioship” (hvað sem það nú þýðir) – og svo var það maðurinn með grunlausu kærustuna en hann fór rakleiðis á bannlista.

Á 72 klukkustundum hef ég stúderað heiminn gegnum ranghala netheima sem afmarkast við mitt eigið póstnúmer, hleypt í brúnirnar yfir nærgöngulum heimboðum – afþakkað kaffiboð hjá afrískum (og einkar hrífandi) trúboða, skeggrætt miklvægi sálrænnar nándar við lostafullan Grikkja, hlegið að dónaskap norrænna samheita við ágengan sjúkraflutningamann af sænskum uppruna, afhjúpað þörf Bandaríkjamanns fyrir kynlífi utan hjónabands, hughreyst niðurbrotinn Dana sem stendur í illskeyttum skilnaði og rætt fjölbreytta atvinnumöguleika innan Oslóar við iðjulausan Brasilíumann.

Allt án þess einu sinni að yfirgefa mitt eigið póstnúmer, hvað þá að ég hafi stigið út um dyrnar.

Meðan á öllu þessu hefur staðið hef ég lokið heilum þremur vinnudögum, eldað jafnmargar kvöldmáltíðir, fagnað 200 ára sjálfstæði Noregs í mínu heimahverfi, setið foreldrafund á leikskólanum með farsímann í höndum, skrifað nokkrar greinar, samið um skuldir mínar, lesið heila bók fyrir barnið mitt, skúrað eldhúsgólfið og hlegið dátt.

Ég ætlaði aldrei að “hlaða niður þessu appi” – ég er skríbent og fjalla um viðbætur fyrir farsíma af og til í greinum mínum. Þetta gerðist einhvern veginn bara óvart og ég hef enga hugmynd um hvernig viðbótin hafnaði í símanum mínum.

Eitt hef ég lært á skammvinnu ferðalagi mínu um ranghala stefnumótaviðbóta; og það er að enginn skyldi nokkru sinni gefa upp viðkvæmar upplýsingar á borð við fullt nafn, símanúmer og hvað þá heimahverfi þegar tilviljanakennt spjall gegnum farsímaviðbót er uppi á teningnum. Hefði ég til að mynda ekki verið varkár undanfarna daga stæði nú röðin út á bílaplan; bláókunnir og örvinglaðir karlmenn með erlenda farsíma í höndum færu ráfandi um kyrrlátt raðhúsahverfið – hvíslandi nafn mitt á laun.

Enn hef ég ekki ákveðið hvaða örlög hin illræmda stefnumótaviðbót hlýtur í símanum mínum, en grunar þó af fenginni reynslu að hún fjúki bráðlega. Undir öllu flissinu og fáránleikanum er ég nefnilega enn bara lítil stúlka sem hefur gaman að rómantískum göngutúrum, gítarslætti og blómvöndum og er sannfærð um að ástina og sannleikann sé að finna í hjörtum þeirra sem sannir eru og ekki í flóði orða sem birtast á farsímaskjá.

En fyndin er hún, litla syndin. Því verður ekki neitað.

 

SHARE