ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

14 vikur og 3 dagar. 
„Aðeins“ rúmar 26 vikur eftir af þessari eintómu gleði sem allir segja mér að njóta. Ég veit reyndar ekki hvað allir meina með að njóta. Ég nýt þess náttúrulega fullkomlega að eiga í nánu sambandi við klósettskálina og ekki sé nú minnst á hvað ég ljóma nú eftir að hafa ælt lungum og lifrum og ekki farið úr húsi nema til þess að skríða inní litlu sjoppuna í kjallaranum til að kaupa jógúrt.

Já, óléttan hefur svo sannarlega margt í för með sér til að njóta, ég er alveg viss um að kærasti minn nýtur þess í botn þegar ég öskra á hann að það kallast ekki að vaska upp, þegar ég rek augun í eitt spaghetti sem hefur klístrast aftan á diskinn, eða þegar ég fer að hágrenja og hann skilur ekki að sjampó auglýsingin var bara svona ótrúlega falleg.

Æj já, ég nýt óléttunar.

Það var nú sérstaklega yndislegt „móment“ í síðustu viku þegar ég var nýbúin hjá heimilislækninum, sem sagði mér að það væri bara ekkert að gera við þessum magakrömpum sem ég fæ dagsdaglega, jú því hver kona upplifir þungunina á mismunandi hátt. Svo með þessi orð í huganum, að ég ætlaði nú ekki að vera aumingi sem léti svona aukakvilla óléttunnar stoppa mig í að lifa, reif ég mig á fætur á þriðjudagsmorgni. Nú var það bara harkan sex, ég komst út og inní næsta strætó: „já þetta er ekki svo slæmt“.

Lestarstöðin var næsta stopp þar sem ég ákvað að fá mér bláberjaboozt til að fá smá orku í kroppinn. Ég lifði af lestarferðina og arkaði af stað uppí skóla, komst meira að segja í tíma á réttum tíma! Þetta stefndi allt í góðan dag þrátt fyrir smá óþægindi í maganum en það var ekkert til að hugsa um. Og þarna sat ég í tíma með bullandi magaverk að skrifa niður glósur til að reyna beina huganum annað. Nei, ekki gekk það, ég ákvað að fara inná bað og fá mér vatnssopa, „já það ætti að lækna þetta“. Stend upp, kemst fram á gang… já bláberjabooztið og öll vítamínin voru greinilega ekki velkomin.
Eftir að hafa litað skólann fjólubláann þessa vikuna hef ég mestmegnis haldið mig heima, æj þið vitið fólk lítur svo undarlega á mann þegar maður er grænn í framann og ælandi um allar trissur…

En ég held áfram að njóta, þetta er jú sem betur fer ekki tímabil sem varir til eilífðar? Er það nokkuð?

SHARE