Óþægilegast við allt var að vera saumuð – Fæðingasaga

Morguninn 23. Nóvember

16 dögum fyrir áætlaðan fæðingardag, átti ég tíma hjá sérfræðingi uppá FSA til að skoða hvað þessir endalausu óreglulegu samdrættir sem ég var að fá væru að gera.
Ég hefði farið uppá sjúkrahús tæpri viku áður og hitti þar ljósu sem sagði mér að ég væri með einn í útvíkkun en ég lét það ekki mikið á mig fá því ég vissi að ég gæti verið þannig í langan tíma áður en strákurinn kæmi í heiminn.
Ég svaf lítið nóttina fyrir læknistímann útaf samdráttum en samt sem áður voru þeir ekkert reglulegir eða neitt sérstaklega sárir.
Eins og gengur og gerist uppá fæðingardeild þá var læknirinn ekki beint að bíða eftir mér þannig ég var sett í mónitor til að skrá niður þess samdrætti og þegar ég var búin að sitja þar í góðan hálftíma heyrði ég smell og allt blotnaði!
Ég sagði hjúkkunni að annaðhvort hefði ég verið að pissa á mig eða vatnið hefði verið að fara, svo sagði ég henni frá smellnum sem ég heyrði og hún staðfesti að þetta hefði verið vatnið.
Þar sem ég var ennþá ekki með neina verki þá var ég bara send heim og átti að koma aftur þegar verkirnir færu að ágerast.
Þetta var rétt fyrir klukkan 11 um morguninn. Ég fór heim og tilkynnti kallinum mínum að vatnið væri farið og hann kom strax heim úr vinnunni þó svo að ég reyndi að róa hann með því að segja að það væri ekkert að gerast strax, honum var alveg sama og kom heim á núlleinni!

Mamma fór strax í að sauma buxurnar við heimferðarsettið því enginn bjóst við litla stráknum næstum því strax og ég rölti fram og til baka um húsið til að reyna að koma einhverju af stað.
Ég, mamma og Jói enduðum á því að fara niðrí bæ á smá búðarrölt og þau tvö voru dugleg að segja öllum sem vildi heyra að ég hafi verið að missa vatnið og prinsinn væri á leiðinni! 😉
Ég valhoppaði niður tröppur í miðbænum og rölti eins mikið og grindin leyfði.
Um 3 leitið var ég orðin frekar þreytt og langaði heim í heitt bað þar sem að seyðingurinn í leginu var farinn að ágerast en ég nennti ekki að fara niðrá sjúkrahús strax.
Eftir hálftíma baðferð þá var verkurinn orðinn verri svo ég skutlaði mér uppúr (eða brölti uppúr með aðstoð Jóa!) og fór niður á sjúkrahús þar sem ég var skoðuð og var komin með 3 í útvíkkun. Ljósurnar vildu sjá hvort að ég væri ekki bara að malla í gang þannig ég slappaði af uppá sjúkrahúsi í mónitor og var það ekki fyrr en um 5 leitið sem að ég var spurð hvort ég vildi ekki bara fara heim að græja mig, fara í Brynju og fá mér ís eða taka smá búðarrölt þar sem þetta gæti verið löng bið – þeim fannst þetta vera að gerast svo hægt hjá mér og þær bjuggust ekki við stráknum fyrr en í fyrsta lagi í nótt eða að ég yrði sett af stað í fyrramálið.

Mér leið ekkert alltof vel, enda gubbaði ég um leið og ég stóð upp svo ég vildi bara ná að hvíla mig þarna, og fékk þá einhverja róandi töflu svo ég gæti sofnað. Mamma og litla systir mín ákváðu að fara á Subway þar sem ég væri hvort sem er bara að fara að sofa, þær buðu Jóa með en honum fannst hann ekki geta skilið mig eftir.
Betur fer segi ég nú bara þar sem klukkan 7 vaknaði ég upp úr mjög slitnum og óþægilegum svefni og sagðist þurfa á klósettið og sko EKKI að pissa!!
Andlitið á ljósunni fraus og hún sagðist þurfa að skoða mig áður en hún leyfði mer að fara nokkuð.
Í þeirri skoðun kom í ljós að hausinn á stráknum var kominn hálfur niður og allt var farið af stað!
Jói hringdi í mömmu þar sem hún stóð í röð á Subway, svo vildi svo skemmtilega til að systir hans Jóa var líka á Subway svo mamma lét hana vita að allt væri farið af stað og hún lét mömmu þeirra vita.
Mamma dreif sig uppá sjúkrahús þar sem hún ætlaði að vera viðstödd og kom hún þegar ljósan var að sprauta mig í lærið með mótefni við róandi töflunni sem ég fékk til að sofna.
Ég man hversu gott mér fannst að rembast og ég var ennþá svo þreytt að ég sofnaði á milli hríða og þurfti að láta mig vita þegar ég ætti að rembast.
Það heyrðist ekki múkk í mér fyrr en hausinn kom út og þá heyrðist smá rembingshljóð en ég veit að það var þá sem ég rifnaði. Strákurinn kom eftir 5 rembinga og var hann nánast líflaus, en kölluðu ljósurnar á barnalækni til að aðstoða hann við að hressa sig við. Allir í kringum mig grenjandi en ég sveif um á bleiku skýi og vissi að það væri sko allt í lagi með litla strákinn minn 🙂
Hann var byrjaður að rumska áður en barnalæknirinn kom svo hann var óþarfur en óskaði mér til hamingju með myndarlega strákinn.
Það þurfti að sauma nokkur spor en ég fékk tveggja gráðu spangarrifu og það var líklegast það sem mér fannst einna óþægilegast við þetta – að láta sauma.
Strákurinn var 4115g og 52cm, með mikinn svartan lubba og bara yndislegur í alla staði!

Missti vatnið klukkan 11 um morguninn.
Fyrsti alvöru verkurinn kom um 4 leitið. Strákurinn var fæddur klukkan 19.45 🙂

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here