Ótrúlega fallegt – úr ömmuhorni

Nú langar mig að deila með ykkur bæn sem ég fer oft með. Kunningi minn, séra Ingólfur Guðmundsson þýddi  bænina og gaf mér hana. Þó að þið séuð sennilega flest ung sem eruð að skoða þetta vona ég, að þið eigið öll eftir að verða gömul og njóta ellinnar. En þetta er bænin mín

Drottinn. Þú veist betur en ég að ég er að verða gömul.

Forða mér frá þeim leiða vana að verða að tjá mig um hvert einasta umræðuefni við hvert tilefni sem gefst.

Veit mér að standa gegn tilhneigingunni til að ráðskast með mál annarra.

Gjör mig vakandi en ekki kvartandi, hjálpsama en ekki ráðríka.

Þar sem ég hef öðlast mjög mikla visku með aldrinum er það eiginlega skaði að ég fæ  ekki að miðla henni  fyllilega.

En þú veist, Drottinn að ég vil halda friðinn við vini mína til ævilolka.

Hjálpa mér að stilla mig um að segja í smáatriðum frá öllu.

Gef mér að komast fljótt að aðalatriðunum.

Innsigla varir mínar þegar kemur að því að tala um eigin þjáningar og veikindi.

Þetta eykst með aldrinum og ánægjan af að segja frá þessu vex með árunum.

Ég áræði ekki að biðja um náðargáfu til að njóta frásagna annarra af sínum veikindum en hjálpa mér að sýna þolimæði og hlusta.

Ég þori ekki að biðja um betra minni en aukna auðmýkt þegar minni mitt virðist í ósamræmi við minni annarra.

Kenn mér þá miklu visku að mér getur stundum skjátlast.

Varðveit mig nokkurn veginn elskulega.

Eg ætla ekki að verða neinn dýrðlingur- þeir geta sumir verið svo erfiðir í samskiptum.

En geðvont gamalmenni er eitt af meistaraverkum óvinarins.

Gef mér að sjá gleðiefni á óvæntum stöðum og gott í fari fólks sem ég vænti slíks ekki hjá.

Gef mér Drottinn náðargáfu til að segja þeim það.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here