Pabbi er búinn að skemma svo margt fyrir mér

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

———————— 

Foreldrar mínir skildu þegar ég var lítil, ég að verða 15 ára og ég hef búið hjá mömmu síðan. Ég var alveg í semí góðu sambandi við pabba eftir að þau skildu. Ég og alsystir mín fórum stundum til hans en fengum sjaldan að gista hjá honum og það var mjög fúlt, þar sem það var rosa mikið sport að fá að gista hjá pabba.

Pabbi eignaðist kærustu og hún átti tvær stelpur. Ég og litla systir mín heimsóttum pabba aðeins oftar og það var allt í góðu þangað til einn daginn.

Það var mjög gott veður úti og ég var svona 8 ára gömul, við vorum úti á palli og pabbi og kærastan hans voru að reykja og pabbi býður mér en ég segji nei, en hann spyr alltaf aftur og aftur en ég neita alltaf! Þetta endaði þannig að hann neyddi mig til þess að reykja. Hann og kærastan hans hættu saman eftir einhvern tíma. Ég og systir mín hittum pabba alveg semí oft og fengum oftar að gista hjá honum, hann breyttist mjög mikið eftir að þau hættu saman.

Mamma eignaðist mann sem er rosa góður við mig og systur mína en pabbi eignaðist líka konu sem átti annað barn. Stjúpmamma mín var alveg fín til að byrja með en svo versnaði hún pínu með tímanum.

Eftir að hann byrjaði með þessari konu, fór hann að banna okkur að segja mömmu ef eitthvað gerðist. Hann sagði konunni sinni ekki ef það eitthvað gerðist sem leit illa út fyrir hann, hann hótaði okkur að ef við myndum segja þá myndi hann berja okkur eða eitthvað svoleiðis.

Pabbi flutti suður með konunni sinni, ég og litla systir mín fórum mjög sjaldan til hans, en hann kom  stundum til okkar. 2012 fórum við að fara oftar til hans og það var alveg fínt og allt gekk ágætlega þangað til um áramótin. Við vorum hjá systur pabba um áramótin og það gekk rosalega vel og var mjög gaman. Nokkrum dögum síðar vorum við pabbi eitthvað að rífast og hann beitti mig líkamlegu ofbeldi þannig að ég varð hrædd og faldi mig fyrir honum inn í þvottahúsi og hringdi hágrátandi í besta vin minn. Nokkrum dögum seinna fórum við systir mín heim.

Árið 2013 versnaði allt! Í hvert skiptið sem við fórum til pabba sagði hann við mig að ég væri feit og ljót, það braut mig pínu í fyrsta skiptið en þegar hann gerði þetta í hvert skiptið sem við fórum til hans og oft á meðan við vorum hjá honum fór mér alltaf að líða verr. Um sumarið fórum við til útlanda, ég, pabbi og stjúpmamma mín, bróðir minn og systir mín, afi og amma, systkini pabba, makar og börn. Okkur pabba lenti oft saman og við rifumst mikið. Það voru allir að fara saman út en við pabbi vorum að rífast og stjúpmamma mín blandaði sér inn í það og sagði að ég myndi bara byrja í ruglinu, eignast barn eftir tvö ár ef ég færi ekki að haga mér almennilega og pabbi sagði að ég væri geðveik og það þyrfti að leggja mig inn. Ég varð mjög pirruð og var lengi að jafna mig svo að það fóru allir og ég var skilin eftir á hótelinu. Ég var alls ekki sátt því mig langaði að fara með þeim og versla.

Síðasta daginn kallaði amma mín á mig og öskraði á mig að ég væri búin að eyðileggja ferðina fyrir öllum, það var fullt af fólki í kringum okkur sem skildu ekkert og störðu bara á okkur. Tveimur dögum eftir að við komum heim þá fór ég með rútu heim til mömmu en systir mín var eftir hjá pabba.

Rétt fyrir jól fór ég til pabba og það endaði alls ekki vel. Laugardagskvöldið fór ég að ná í dót til vinkonu minnar og pabbi keyrði mig en stoppaði og fékk sér að reykja og bauð mér en ég sagði nei en hann bara „jú plís“ en ég neitaði bara þannig að hann hætti og varð pirraður. Svo komum við heim og ég talaði við vin minn í símann og kom svo fram þegar ég var búin að tala við hann og pabbi sagði að síminn væri að eyðileggja líf mitt og stjúpmamma mín sagði að það þyrfti að leggja mig inn á BUGL/Barna og Unglinga Geðdeild Landspítalans útaf símanum mínum. Ég hringdi grátandi í mömmu og hún sagði mér bara að fara að sofa sem er skiljanlegt því klukkan var hálf 2 að nóttu en svo ætlaði eg að fara að sofa en þau héldu áfram að drulla yfir mig þannig að ég hringdi í bróðir mömmu og hann kom og sótti mig og ég var í 2 daga hjá honum og fór svo heim.

Milli jóla og nýárs lenti okkur pabba saman á Facebook og ég sagði við hann að mér finndist að við ættum bara að hætta að tala saman í einhvern tíma, hafa bara engin samskipti og ég tala bara við hann þegar ég treysti mér til þess.

Og ég hef ekki talað við hann síðan.

En auðvitað elska ég pabba minn og langar mjög að vera í samskiptum við hann, en ég bara treysti mér ekki til þess þannig að ég þarf að taka mér smá pásu. Ég sakna hans og vildi að hann myndi breytast, það er mjög erfitt að tala við hann um allt þetta því hann tekur þessu bara sem einhverju djóki svo ég eiginlega þurfti að hætta að tala við hann svo að ég gæti haldið lífinu áfram og þurfa ekki að hugsa um eitthvað sem ég á ekki að þurfa að hugsa um.

SHARE