Reynsla rauðhærðu stúlkukindarinnar af átröskun

Ég var með átröskun í nokkur ár en ég fór þó aldrei úr kjörþyngd. Ég leit bara nokkuð venjulega út eða það var allavega ekki neitt holdafarslega sem benti til þess að ég ætti við þetta vandamál að stríða.

Þó að ég hafi aldrei verið það grönn að ég hafi verið við það að deyja úr hor líkt og stelpurnar sem prýða átröskunarbæklinga og annað forvarnarefni gegn átröskunum þá leið mér ótrúlega illa.
Það að þvinga mig til þess að kasta upp nokkrum sinnum á dag gerði mig það þunglynda að ég sá eiginlega bara eina leið út úr þessu.

Ég stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands á þeim árum sem mér leið sem verst, en það gekk brösulega fyrir sig þar sem það var erfitt að einbeita sér að lærdóm þegar mig langaði mest til að liggja yfir klósettskálinni. Einhvern veginn komst ég í gegnum 4 ár af þessum skóla, með þó nokkur föll á bakinu en náði samt að útskrifaðist á réttum tíma.

Það tók á fyrir mig að mæta í skólann og vera umkringd stelpum sem ég taldi vera mun grennri en ég. Sama hversu fínt ég klæddi og málaði mig mér fannst ég alltaf vera að minnsta kosti 30 kílóum þyngri og skessulegri heldur en allir í kringum mig.

Það sem huggaði mig mest var að geta kastað upp um leið og ég kom heim úr skólanum. Þá tók við hreinsunarferli til að losa mig við allan þann mat sem ég hafði borðað á meðan ég var í skólanum.
Ég reyndi yfirleitt að kasta ekki upp þegar foreldrar mínir voru heima svo ef ég sá ekki fram á að vera ein heima eftir kvöldmat þá fór ég í ræktina og kastaði upp kvöldmatnum þar.
Það var mismunandi eftir dögum hversu mikið ég kastaði upp, stundum var það ekki nema einu sinni en það gat alveg farið upp í fleiri skipti.

Þunglyndi fylgir oft búlimíu en eftir hvert skipti sem ég kastaði upp sökk ég ennþá neðar andlega. Á meðan ég kastaði upp upplifði ég alltaf mikla vellíðunar tilfinningu og ennþá í dag langar mig alltaf til að kasta upp ef mér líður illa. Um leið og ég var búin að kasta upp leið mér hins vegar ömurlega.

Stundum líður mér eins og ég hafi aldrei verið með neitt vandamál því ef maður flettir upp á netinu upplýsingum um átraskanir birtast einungis myndir af grindhoruðum stelpum sem er vart hugað líf. Ég var aldrei svoleiðis.

Flesta daga geri ég mér þó grein fyrir því að það sem ég gerði líkamanum mínum er afar óheilbrigt enda líður mér mun betur andlega og líkamlega í dag heldur en þegar ég þvingaði uppköst reglulega.

Það jákvæða við þetta allt saman er að það er alltaf einhver sem er tilbúinn að hjálpa manni upp úr svona veikindum.

SHARE