Sálfræðilegir ávinningar reglulegrar líkamsræktar – Nokkur atriði

Flestir hafa heyrt að regluleg líkamsrækt sé góð líkamlegri heilsu, en það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að líkamsrækt er líka sérlega góð andlegri heilsu.   Bara það að fara í stuttan göngutúr eða taka létt skokk getur haft jákvæð andleg áhrif.  Regluleg æfing – til dæmis það að hreyfa sig þrisvar í viku í hálftíma til klukkustund í senn hefur jákvæð langtímaáhrif á bæði sál og líkama.

Tengsl líkamsræktar og lundernis hafa meðal annars verið skoðuð í rannsóknum á einstaklingum með þunglyndi.
Í rannsókn var fólki sem þjáðist af djúpu þunglyndi deilt í fjóra hópa: í hóp sem stundaði líkamsrækt með leiðbeinanda, hóp  sem æfði heimavið, hóp sem fékk lyfjameðferð við þunglyndi og samanburðarhóp sem fékk lyfleysu (e. placebo).  Eftir fjóra mánuði komust rannsakendur að því að einstaklingar í líkamsræktarhópnum, hópnum sem æfði heimavið og einstaklingar í lyfjameðferðarhópnum mældust lægri á þunglyndiskvörðum en þeir sem fengu lyfleysuna.   Niðurstöðurnar benda því til að líkamsrækt sé að einhverju leyti sambærileg áhrifum þunglyndislyfja á einstaklinga sem þjást af þunglyndi.
Eftirfylgni ári síðar sýndi fram á að þeir einstaklingar sem sögðust stunda reglulega líkamsrækt mældust lægri á þunglyndiskvörðum en þeir sem æfðu ekki.

Sálfræðilegir ávinningar reglulegrar líkamsræktar eru meðal annars:

  • betri líðan
  • minni streita og líkaminn er í betra ástandi til að takast á við streitu
  • minni kvíði
  • aukið sjálfstraust
  • bætt líkamsmynd
  • aukin orka
  • aukin trú á það hvað maður getur afkastað
  • minnkandi einkenni þunglyndis

Það ættu því sem flestir að reyna að finna hjá sér tíma og hvatningu til að hreyfa sig aðeins.  Hálftími á dag þrisvar í viku er örlítið brotabrot af deginum, flestir (eða allir) ættu að geta laumað hálftíma hreyfingu inn í þétta dagskrá.  Og um að gera að hafa í huga að lítil hreyfing er betri en engin hreyfing! Það er betra að ná að skokka í hálftíma en að hætta við af því að maður telur hálftíma of stuttan tíma til að taka almennlega á.

Höfundur greinar er Sveindís Þórhallsdóttir. Sveindís er sálfræðinemi og er á leið að hefja sitt þriðja ár í Háskóla Íslands. Hún er auk þess að læra einkaþjálfun í fjarnámi frá Bandaríkjunum og stefnir á að klára það nám í haust. Sveindís heldur úti heimasíðunni viljastyrkur.net þar sem hún skrifar um heilsu og fleira skemmtilegt. 

SHARE