Já, hvað myndi gerast ef við myndum segja samfélagsmiðlum upp? Gefa þá alveg upp á bátinn? Hvernig væri það ef síminn þinn væri ekki lengur besti vinur þinn, facebook myndi springa og allir aðrir miðlar sem við þekkjum og notum myndu ekki hafa tök á okkur lengur?

looking-bad-feature-540x264-social-media

Sjá einnig: Samfélagsmiðlar geta verið stórhættulegir: Pössum upp á börnin okkar!

Kæmi í ljós að við erum ekki eins mikils virði eða ekki eins sterkar manneskjur og við héldum? Þar sem við öðlumst virðingu og aðdáun frá öðrum í gegnum skjái. Við viljum auðvitað viðhalda þeirri ímynd sem við erum búin að gefa heiminum af okkur sjálfum og yrðum væntanlega skelfingu lostin ef það birtust myndir af okkur eins og við í raun og veru erum á einhverjum þessara miðla. Þar sem þú liggur í rúminu í “ljótu fötunum” þínum, með undirhöku og hálfgerða skeifu þar sem höfuð þitt beinist niður í áttina að skjánum. Þú ert kannski með mylsnu á þér og fötin þín liggja í haug á gólfinu. Þú ert með bólu og varst að kreista hana og allar hinar sem gætu mögulega verið bólur þar í kring og þinn stærsti ótti er að einhver komi í óboðna og óundirbúna heimsókn, svo þau sjái hvernig ástatt er hjá þér og fari að dæma þig og þar með raska ímyndinni sem þú ert búin/n að skapa þér.

Við þurfum ekki að fara út, því við getum notað skjáinn til að skemmta okkur og veita okkur alla þá afþreyingu sem við teljum okkur þurfa. Við hugsum stundum með okkur “já.. hvernig var það nú aftur þegar við fórum í heimsókn og eyddum þar nokkrum klukkustundum af degi okkar…?” en svo um leið kemur upp sú hugsun “nei… ég má ekkert vera að því að fara í heimsókn og hanga þar, því ég hef svo mikið annað mikilvægt að gera í frítíma mínum”. En hvað er það sem er svona mikilvægt?

Jú, það er nú lífernið sem við lifum þarna úti í kosmósunni! Þetta þarna þar sem við þurfum ekki að gera neitt nema sitja heima og mála okkur eða dressa okkur upp, svo allir haldi að við séum að fara út að skemmta okkur í V.I.P. stíl eða í veislu eða að við lifum bara alveg hreint æðislegu lífi. Við sendum myndina með Snapchat til vina okkar, en svo um leið hundleiðist okkur, en ákveðum samt að hanga inni í okkar heilaga ríki, þar sem enginn sér okkur, nema okkar innsti hringur.

Hefur einhver ykkar hugleitt að þrátt fyrir að við vitum meira um það hvað liggi á yfirborði fjölda fólks, þá vitum við mun minna en áður hvar grunnur okkar er eða um það hvernig öðrum virkilega líður? Hvað erum við að gera annað en að eyða dýrmætum tíma með þeim sem við elskum, þegar við sitjum og dáumst að einhverju sem við getum hvort eð er aldrei snert? Það er nefnilega þannig að við verðum að átta okkur á því að raunveruleikinn stendur á brauðfótum! Viðmiðin okkar eru svo oft óheilbrigð og við erum mötuð af formum sem segja okkur hvað og hvernig er best að vera. Við látum segja okkur hvað við þurfum út frá tilbúnum staðli frá öðrum.

Nú að viðmiðum okkar um það hvað við viljum sjá í því fólki sem okkur langar til að deita:

Hvernig á samband að vera? Nú, við þurfum auðvitað þessa þætti: manneskjuna sem myndast vel, manneskjuna sem brosir í gegnum allt og ekki væri verra ef hún væri dálítið óaðfinnanleg, með háskólagráðu og nýbúin að kaupa sér íbúð, hefði helst ekki nein ör eftir lífsgöngu sína og þessa sem er alltaf æðislega vel vaxin/nn. Manneskjan verður bara að hylma yfir alla galla þína, því annars gengur þetta ekki upp!

Gleymdi ég að minnast á manneskjan þarf að elska mig fyrir mig, því þá gengur dæmið ekki upp? Hún þarf að standa með mér þegar ég á mína slæmu daga og vera það mikill vinur að hún hjálpar mér að komast þangað sem ég þarf að komast í lífinu ef ég þarf á þeirri hjálp að halda. En það var ástæða fyrir því að að ég minntist ekki á það fyrr, því það verkefni gæti bara verið of leiðinlegt og of erfitt fyrir suma, þar sem við gætum fengið eitthvað annað, með því eina að strjúka til hliðar á símaskjánum.

Ég er ekki saklaus, því ég vinn við að glápa á samfélagsmiðla meira og minna allan daginn. Kannski fer ég á Tinder einn daginn eða kynnist mörgum nýjum einstaklingum fyrir framan skjáinn, sem getur nýst mér að mörgu leyti, hvort sem um vinnu eða einhverns konar sambönd eru að ræða. Um leið og ég hugsa um það sem ég er sek um, fæ ég óþægilega tilfinningu fyrir því að vera partur af samfélagsmiðlum. Ég hendi út forritum og set þau svo aftur inn, því annars finnst mér ég ekki vera gildur meðlimur samfélagsins. Ég er með nagandi samviskubit yfir því að vinna það mikið að ég hef ekki tíma til að hitta vini og fjölskyldu eins mikið og ég vildi, en um leið þarf ég að sjá til þess að við lifum ekki á fátækramörkum. Ég segi það svona, vegna þess að það á við marga hér, en um leið erum við að vinna til að viðhalda ímyndinni sem við viljum kasta fram í þetta ósnertanlega raunveruleikafirrta dæmi, sem líf okkar margra er.

Samfélagsmiðlarnir taka ekki einmanaleika okkar frá okkur eða fylla upp í tómarúmið sem bergmálar inn í okkur. Þeir geta svo sannarlega verið dásamleg afþreying, en um leið villa þeir fyrir um okkur og setja inn í huga okkar hvað okkur á að finnast um lífið okkar og hefur það reynst gríðarlega mörgum ofviða. Stundum vildi ég óska að allir gætu stigið eitt skref aftur og horft í kringum sig, vegið og metið hvað þeim þykir fallegt, og hvers vegna þau myndu ekki vilja sitja eftir með nagandi samviskubit vegna þess að ekki náðist að segja vinum eða fjölskyldu hversu heitt þau voru elskuð. Eftisjáin ristir mann dýpra en gleðin og spennan sem fylgir aðdáun, “like” og “comment”.

Fyrir hvað ætlum við að lifa og hvernig viljum við sjá okkur í framtíðinni? Ég skoða inn á við og er meðvitað að lækna mig og þjálfa mig í því að vera stolt af mínum eign skoðunum og fegurðuarmati, algjörlega án mötunar frá öðrum. Ég vil ekki að samband mitt sé eftir uppskrift, því ég tel að ekkert mikilvægt í lífinu komi í Betty Crocker umbúðum. Kannski kemur tími í lífi okkar þar sem við áttum okkur á því að við höfðum rangt fyrir okkur, að það sem við héldum að við þörfnuðumst, var ekki það sem okkur vantaði.

SHARE