Sigraði Skúla Mogensen í upphífingakeppni

Tryggvi Rafnsson ætlaði að prófa að starfa sem flugþjónn eitt sumar en heillaðist af WOW lífinu. Hann er nú orðinn fyrsta freyja og sér um vaktstjórn í loftinu.

 

„Við erum þó nokkrir strákar sem erum flugþjónar hjá WOW air, þetta er mjög góð blanda hjá okkur,“ segir Tryggvi Rafnsson, flugþjónn og leikari. Hann hefur starfað sem flugþjónn frá árinu 2013 og fékk nýlega stöðuhækkun upp í að vera fyrsta freyja eða senior, sem felur í raun í sér að hafa umsjón með flugfreyju og -þjónavaktinni um borð hverju sinni.

678 kaffibollar

Fyrsta flugið hans í nýju starfi var ekki að verri endanum en flogið var með glænýrri 350 sæta Airbus breiðþotu til Parísar, en Tryggva reiknast til að í fluginu hafi verið afgreiddir 678 kaffbollar.

En hvernig verður maður fyrsta freyja? „Maður þarf að vera búinn að vinna í ákveðinn tíma, þá getur maður sótt um og fer í sérstaka þjálfun. Svo er manni bara hent út í djúpu laugina. En það getur auðvitað ekkert hvaða labbakútur sem er farið í þetta,“ segir Tryggvi kíminn.

Unnu veðmál

Það er annars ansi skemmtileg saga á bak við það hvernig Tryggvi endaði í þessu starfi, þar sem kemur fyrir veðmál við forstjórann sjálfan, Skúla Mogensen.

„Ég og félagi minn vorum að setja upp leikrit saman og einn daginn kem ég á æfingu og segist vera búinn að sækja um sumarvinnu og að hann geti örugglega aldrei giskað á hvað það er. Þá var hann alveg með það á hreinu að ég ætlaði að verða flugþjónn, því hann ætlaði að gera það líka. Nokkrum vikum síðar var okkur svo boðið að taka grín þjónagigg á jólahlaðborði hjá WOW air, sem við stukkum að sjálfsögðu á. Þar skelltum við upp veðmáli við Skúla Mogensen, sem við unnum. Svo bara sóttum við um flugþjónastarfið eins og allir aðrir og komumst í gegn,“ segir Tryggvi sem er ekki alveg á þeim buxunum að gefa upp um hvað veðmálið snérist.

Heltekinn af WOW lífinu

„Ég veit ekki hvort forstjórinn verður ánægður með mig ef ég segi frá því. Þetta var upphífingakeppni í Viðeyjarstofu. Sem við sigruðum í, að sjálfsögðu. Og Skúli stendur við allt sem hann segir,“ segir Tryggvi og hlær. „Ef Skúli hefði unnið þá hefðum við þurft að þrífa skrifstofuna hans í mánuð.“

Þeir félagar ætluðu að prófa að vinna sem flugþjónar eitt sumar, en starfið heillaði þá svo upp úr skónum að þeir eru enn að. Og báðir orðnir fyrstu freyjur. „WOW lífið heltók mig og ég gæti ekki verið glaðari.“

„Living the dream“

Aðspurður hvort leiklistarnámið nýtist í fljugþjónastarfinu segir Tryggvi það ekki spurningu. „Leiklistin nýtist í öllu sem maður gerir. Þetta er mikið um mannleg samskipti og að taka frumkvæði og þá er leikaranámið góður undirbúningur,“ segir Tryggvi sem er þó langt frá því að vera hættur að leika. Þessa dagana má til dæmis sjá hann í Olís auglýsingu og þá er hann mikið í að veislustýra. „Það er regla í mínu lífi að gera bara það sem er gaman, og það að vera flugþjónn hjá WOW og leikari meðfram því, er gríðarlega skemmtilegt. „I am living the dream, sky is the limit.““

 

SHARE