Skammdegisþunglyndi – Þú ert ekki ein/n

Ert þú ein/n af þeim sem átt það til að verða þyngri í skapi á þessum tíma árs? Finnur þú hvernig vanlíðanin & jafnvel vonleysi hellist yfir þig & þú áttar þig ekki á af hverju? Það gæti verið að þú sért með snert af skammdegisþunglyndi.

Skammdegisþunglyndi er mun algengara en margur heldur og það á við þegar geðslag fólks versnar til muna á vissum árstímum, algengast er að það gerist þegar daga tekur að stytta á veturna. Skammdegisþunglyndi getur orðið alvarlegt og hamlað daglegu lífi fólks ef það er ekki meðhöndlað.

Ég ákvað að skrifa aðeins um skammdegisþunglyndi þar sem ég fann þessa miklu vanlíðan hellast yfir mig fyrr í mánuðinum, ég man ekki eftir að hafa sérstaklega fengið skammdegisþunglyndi nema upp úr tvítugu, en það er algengasti aldurinn. Ég áttaði mig fljótlega á  hvað væri í gangi og varð meðvituð um það, talaði um það við mína nánustu & byrjaði að reyna að vinna á móti þunglyndinu, til dæmis með því að vera virk, vinna mikið, hitta fólk, fór og vann sjálfboðaliðastarf, bakaði með stjúpsyninum og allskyns hlutir sem geta hjálpað til að létta lundina. Mér líður mun betur í dag en fyrstu dagana sem það helltist yfir mig var vanlíðanin mikil, og það skrýtnasta við þetta allt saman er að ég er ótrúlega hamingjusöm, nýtrúlofuð yndislegasta manni í heimi, á fallegt heimili, æðislegan stjúpson, nýbúin að rúlla upp lokaprófum & fyrirtækið mitt gengur vel.

Fólk gæti spurt sig “afhverju er henni að líða illa” & mörgum finnst ótrúlegt að trúa því að þetta eigi við um mig þar sem ég er oftast hressa pían. Málið er að þetta getur hellst yfir alla, þú þarft ekki að vera óánægð(ur) með lífið og allt í kringum þig þó að þunglyndi hellist yfir þig, það getur komið fyrir alla og það er engin skömm af því.

Þunglyndi er hætt að vera jafn mikið tabú og það var -sem betur fer- og fólk er mikið til hætt að skammast sín fyrir að ræða það. Mér myndi ekki detta í hug að leyna svona löguðu fyrir fólki og þá sérstaklega mínum nánustu vegna þess að mér finnst mikilvægt að fólkið í lífi manns sé meðvitað um þetta, ég tek bara ekki þátt í því að leyna einhverju svona, til hvers? Desember er oft afar slæmur mánuður fyrir þá sem þjást af þunglyndi eða skammdegisþunglyndi & því er mikilvægt að vera meðvitaður um það. Alltaf er talað um desember sem mánuð gleði & hamingju en því miður er það ekki svoleiðis fyrir alla.  Vanlíðan hellist einmitt yfir suma  í desember. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn & hlakkað mikið til jólanna & það geri ég svo sannarlega þennan mánuðinn & ætla að vera meðvituð um líðan mína og taka í taumana ef ég finn að það gerist aftur að skammdegið segi til sín.

Ef vanlíðan, vonleysi & depurð  hellist yfir þig er mikilvægt að hundsa það ekki og taka mark á líðan þinni. Þunglyndi getur verið afar alvarlegt & ef það er komið á það stig að þú einfaldlega sjáir ekki fram úr deginum er mikilvægt að leita hjálpar hjá sérfræðingum. Það getur vel verið að þú fáir góð ráð til að berjast á móti þunglyndinu eða fáir lyf til notkunar einhvern tíma.   Einnig finnast mér  þessi ráð alltaf standa fyrir sínu:

*Vertu virk(ur), hvort sem það er vinnan eða skólinn eða að vera með börnunum

*Farðu út á meðal fólks – mikilvægt að leyfa sér ekki að vera einn, inni í dimmu herbergi of lengi, veit að það er erfitt að rífa sig upp en ef þú mögulega getur mun það bara gera þér gott

*Það hefur gagnast sumum að nota sérstaka ljósalampa.

Svo er alltaf gott að leita upp á geðdeild Landspítalans. Ef þér líður alveg hræðilega er alltaf opið á bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans & þar getur þú talað við lækni eða hjúkrunarfræðing  & fengið ráð um hver næstu skref gætu verið. Það er mikilvægt að taka á þessum  veikindum.

Trúðu mér, skammdegisþunglyndi  er mun algengara en þú heldur, þú ert EKKI ein(n).

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here