„Skemmti mér konunglega við það sem ég er að gera“

Katrín Ýr er á leið til Íslands til að fylgja eftir smáskífunni sinni og starfa með íslensku tónlistarfólki. Lifir á tónlistinni í London en er lítið þekkt hér heima.

„Ég er bara að gera þetta sjálf, en með mikilli hjálp frá vinum. Þeir hafa verið að spila fyrir mig og syngja með mér. Ég get sagt þeim hvað á að spila þó ég geti ekki spilað það sjálf,“ segir Katrín Ýr Óskarsdóttir söngkona sem gaf út smáskífuna „Heard It All Before“ í vor. Nú er annað lagið af plötunni „Take Control“ komið í spilun í íslensku útvarpi og Katrín, sem er búsett í London, er á leið til landsins að fylgja smáskífunni eftir.

Blaðmaður náði tali af henni þar sem hún sat í lest í London. „Ég er að skrifa tónlist og á leið í smá stúdíó„session“ með tónlistarfólki heima. Mig langar líka að koma tónlistinni minni á fleiri útvarpsstöðvar heima. Ég hef eiginlega bara unnið við tónlist úti, en hef einhverja þörf fyrir að koma mér aðeins meira á kortið heima. Tónlistarlífið heima hefur verið svo mikið að blómstra.“

Vill kynna sig heima

Katrín hefur búið í London í tíu ár og tónlistin er hennar lifibrauð. Hún segir fólk á Íslandi oft verða hissa þegar hún segist vera tónlistarkona í London. „Fólki finnst oft merkilegt að ég sé tónlistarkona í útlöndum, en það viti samt ekki hver ég er. Þess vegna væri gaman að stimpla sig inn á markaðinn heima,“ segir Katrín sem upphaflega ætlaði sér aðeins að vera ár í London, klára þar diplómanám, og koma heim. En plönin breyttust aðeins. Hún endaði í þriggja ára söngnámi við The Institute of Contemporary Music Performance.

Fór að semja eigin tónlist

„Ég byrjaði aðeins að starfa við tónlist á meðan ég var í skólanum en hef unnið við þetta í fullu starfi síðan ég lauk námi. Þegar ég bjó heima þá datt mér aldrei í hug að ég gæti unnið bara við tónlist, en þá var ég oft að syngja á skemmtistöðum um helgar,“ segir Katrín sem er búin að fá mörg skemmtileg tækifæri í tónlistinni úti ásamt því að hafa ferðast mikið. Þá kennir hún einn til tvo daga í viku við skólann sem hún lærði í.

Hún hafði ekki mikið verið að fást við sína tónlist fyrr en síðasta haust. Þá ákvað hún að láta slag standa. „Það kostar auðvitað peninga að gera sína eigin tónlist, þannig það getur verið erfitt. En fyrir um ári síðan fannst mér tími til kominn að gera það sem ég væri búin að vera á leiðinni að gera í mörg ár.“

Er að upplifa drauminn

Verkefnin hingað til hafa verið mjög fjölbreytt, en Katrín hefur til dæmis verið að syngja í brúðkaupum og á fyrirtækjaskemmtunum. „Ég er rosa léleg í að gera alltaf það sama og rútína hentar mér ekkert sérstaklega vel. Þetta er bara draumurinn og ég skemmti mér konunglega við það sem ég er að gera,“ segir Katrín hlæjandi.

Hún viðurkennir þó að sumir mánuðir geti verið erfiðari en aðrir, enda er mismikið að gera eftir árstíðum. „Það getur verið lítið að gera í janúar og febrúar, en ég lifi alveg með því. Það er bara eins og í mörgum öðrum störfum. Fólk fær stundum mikla yfirvinnu og stundum ekki. Þegar ég útskrifaðist þá beit ég í mig að ég ætlaði bara að vinna við þetta og ég hef staðið við það.“

 

Fylgstu með Katrínu:

Instagram: @IntroducingKat
Facebook: Katrín – IntroducingKat
Youtube.com/IntroducingKat
Soundcloud.com/IntroducingKat
Snapchat: IntroducingKat

Hægt að hlusta á og ná í smáskífuna „I Have Heard It All Before“ á iTunes, Spotify, Soundcloud og Tónlist.is.

 

Mynd/Al Stuart – Red Cap photography

SHARE