Skógarmítill á Íslandi – Vaxandi vandamál

Bakterían Borrelia burgdorferi veldur sjúkdóminum borrelíósu eða Lyme-sjúkdómi í mönnum. Bakterían berst í menn eftir bit skógarmítils (Ixodes ricinus í Evrópu, Ixodes scapularis og pacificus í Bandaríkjunum) þegar hann nærist á blóði.

Kjöraðstæður skógarmítils eru skógi vaxin svæði og dýralífið þar, sem sér mítlinum fyrir blóði. Á undanförnum þrjátíu árum hefur þessi sjúkdómur breiðst talsvert út og tengist það aukinni útbreiðslu skóglendis og villtra spendýra þar ásamt loftslagsbreytingum og aukinni útivist fólks með meiri frítíma.

Í Bandaríkjunum er Lyme-sjúkdómurinn hvað algengastur á Nýja-Englandi, í mið-vesturríkjunum, Kaliforníu og í Oregon. Í Evrópu er sjúkdómurinn algengastur í Þýskalandi, Austurríki, Slóveníu, Svíþjóð, Finnlandi og Eystrasaltslöndunum. Sjúkdóminn er einnig að finna staðbundið í Rússlandi, Kína og Japan. Í seinni tíð hefur borið á sjúkdómnum í vaxandi mæli á Bretlandseyjum.

 

Skógarmítill (Ixodes ricinus)
Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands fannst skógarmítill fyrst hér á landi á farfugli 1967. Á síðari árum hefur hann fundist af og til, einkum hin síðari ár, og telur stofnunin að hann sé að öllum líkindum orðinn landlægur, enda hefur útbreiðslusvæði hans færst norður á bóginn með hlýnandi loftslagi.

Þar sem skógarmítill berst með farfuglum er ekki ólíklegt að hann hafi borist til landsins af og til í aldir en ekki fest rætur hér. Ekki er þó kunnugt um að neinn hafi sýkst af Lyme-sjúkdómi á Íslandi.

Lífshættir skógarmítils á Íslandi eru lítt kannaðir, en líkur hafa verið leiddar að því að óstöðug veðrátta og takmarkað skóglendi minnki líkur á því að hann festi rætur hér á landi. Þetta kann að breytast ef veðurfar fer hlýnandi og skóglendi vex hér á landi.

Skógarmítill, sem er liðfætla, er svokölluð smitferja (vector) sem ber smit milli spendýra og fugla. Hann getur verið varasamur mönnum því að hann getur borið bakteríur (Borrelia burgdorferi) og veirur sem valda heilabólgu (sjá umfjöllun um mítilborna heilabólgu (tick-borne encephalitis, TBE)). Hann heldur sig í gróðri, einkum á skógarbotni og krækir sig fastan í blóðgjafann.

 

4334Æviskeið mítilsins eru þrjú. Eftir að hann klekst úr eggi verður hann sexfætt lirfa sem liggur í dvala yfir vetur. Að vori skríður lirfan upp eftir gróðri og sætir færis á að ná til hýsils til að sjúga blóð. Ef allt tekst vel til er skipt um ham síðsumars og verður mítillinn þá áttfætt ungviði sem aftur leggst í dvala yfir veturinn.

 

4335Að vori tekur hann upp sama háttarlag og breytist í fullorðinn mítil eftir heppnaða blóðmáltíð, leggst í dvala enn einn veturinn og endurtekur leikinn að vori. Karlinn drepst svo en kvendýrið verpir eggjum áður en það fylgir maka sínum. Fullorðnir mítlar eru 0,5-1,1 cm að lengd en ungviðið er miklu smærra.

 

4336Fullorðinn mítill er mjög þaninn eftir blóðmáltíð og nær því að vera eins og kaffibaun að stærð.

 

 

Sjúkdómseinkenni

6361_31_previewEftir bit sem leiðir til sýkingar getur myndast húðroði (erythema migrans) sem dreifir sér í hring út frá bitinu (sjá mynd til vinstri). Tekið getur 3-30 daga fyrir húðroðann að dreifa sér.

Fljótlega getur farið að bera á þreytu, hita, hrolli og höfuðverk ásamt vöðva- og liðverkjum sem varað geta vikum saman. Útbreidd sýki verður þegar bakterían dreifir sér um líkamann og sest að í húð, miðtaugakerfi, hjarta eða liðum. Þetta getur gerst vikurnar eftir sýkingu ef ekki er gefin meðferð. Venjulega gengur þó sýkingin yfir eftir einhverjar vikur eða mánuði þótt engin meðferð sé veitt. Fyrir kemur að sýkingin valdi viðvarandi liðbólgum. Sjaldgæfir fylgikvillar eru minnisleysi, síþreyta og hjartsláttartruflanir sem haldast þótt bakterían hafi verið upprætt.

 

Greining 

Greining er venjulega gerð með mótefnamælingu í blóði, stundum í mænuvökva. Mótefnin finnast oft ekki fyrr en nokkrum vikum eftir sýkingu. Stundum er þó hægt að finna bakteríuna sjálfa í húðsýni frá húðroða. Þá hefur líkum verið að því leitt að vegna óljósra einkenna, sem átt geta við aðra sjúkdóma, kunni sjúkdómurinn að vera ofgreindur í mörgum tilvikum.

Borrelíósa eða Lyme-sjúkdómur er skráningarskyldur sjúkdómur á Íslandi og hefur verið það undanfarin tíu ár. Skráningarskyldan þjónar þeim tilgangi að finna sjúkdóminn og kortleggja hugsanlega útbreiðslu hans hér á landi.

 

Meðferð 
Sýklalyf eru gefin við Lyme-sjúkdómi. Venjulega er gefið doxýcýklín, penicillín, amoxicíllín eða cefalósporín í 2-4 vikur eftir alvarleika sjúkdómsins. Ef sýkingin svarar ekki vel sýklalyfjameðferð þarf stundum að gefa bólgueyðandi lyfjameðferð.

 

Fyrirbyggjandi aðgerðir

  • Skynsamlegt er að afla upplýsinga um hvort skógarmítla sé að finna á því svæði sem dvalist er á.
  • Kynna sér hvernig skógarmítill lítur út.
  • Reynist skógarmítlar á svæðinu er rétt að vera útbúinn oddmjórri pinsettu.
  • Klæðast fatnaði sem hylur líkamann vel, s.s. síðbuxum og langerma bol eða skyrtu, einkum ef farið er um skóg eða kjarrlendi. Nota ljós föt svo að mítlarnir sjáist betur.
  • Nota mýflugnafælandi áburð.
  • Þegar komið er af varasömu svæði þarf að skoða líkamann vel til að kanna hvort mítill hafi bitið sig fast í húðina.
  • Ef mítill hefur sogið sig fast til að nærast á blóði er rétt að fara að öllu með gát þegar mítillinn er fjarlægður. Það er best gert með því að klemma pinsettuodda um munnhluta mítilsins og lyfta honum beint upp frá húðinni (mynd 5). Forðast skal að snúa honum í sárinu. Þetta kemur í veg fyrir að innihald úr mítlinum geti spýst í sárið eða hluti hans verði eftir.

4333Almennt er talið að ekki sé hætta á sýkingu fyrr en eftir að mítillinn hefur dvalið í sólarhring í húðinni.

 

 

Lundalús

Þekkt er önnur tegund mítla, svokölluð lundalús (Ixodes uriae). Lundalúsin finnst í sjófuglum hér á landi. Hefur verið sýnt fram á að í þeim finnast bakteríur af ættinni Borrelia. Ekki hefur verið sýnt fram á að lundaveiðimenn hafi sýkst af völdum Borrelia þótt þeir hafi verið bitnir af lundalús.

 

Heimildir: 

Heimasíða Landlæknisembættisins 
Náttúrufræðistofnun Íslands.
Sigurður Richter, Dýralæknaritið 1981; 2:14-17.
Kári Sigurbergsson, Lyme gikt. Tímarit gigtarfélags Íslands. 1984; 2: 5.
Ólafur Steingrímsson Ó &, Kolbeinsson A. Lyme sjúkdómur. Læknablaðið. 1989; 75: 71-74.
Svenungsson B & Lindh G. Infection 1997; 25:140-3.
Wilson ER & Smith KJ. Scottish Forestry, 2009; 63: 3-11.
Sýklafræðideild Landspítalans. Upplýsingar frá Ólafi Steingrímssyni 28.10.2009.

SHARE