Flott sólgleraugu setja oft punktinn yfir i-ið þegar kemur að því að fullkomna sumarlúkkið. Sólgleraugu eru nefnilega alls ekki bara til að hlífa augunum við sólinni, þó vissulega gegni þau líka því mikilvæga hlutverki. Hér er um að ræða margbreytilegt tískufyrirbæri sem getur dregið fram eða undirstrikað karakter notandans. Sólgleraugnatískan er jafn breytileg og fatatískan – margir fylgja straumum og stefnum og skipta reglulega út gleraugum, eru jafnvel með nokkur í takinu, á meðan aðrir halda tryggð við ein klassísk. En lykilatriðið er að það þykir einstaklega töff að vera með flott sólgleraugu.

tinnabra
Blátt gler það heitasta

Tinna Brá Baldvinsdóttir, eigandi Hrím hönnunarhúss, er með puttann á púlsinum þegar kemur að sólgleraugnatískunni. Á nefinu þessa dagana er hún með gleraugu frá merkinu Spitfire, módel sem kallast Post Punk. „Þau eru bara svo fáránlega töff. Mér finnst ég verða algjör töffari þegar ég set þau upp,“ segir Tinna aðspurð hvers vegna umrædd gleraugu urðu fyrir valinu. Þau eru ársgömul og voru að sjálfsögðu keypt í Hrím. En Tinna hyggst fá sér ný gleraugu á næstunni. „Það voru að koma svo flott ný gleraugu og það með bláu gleri. Það er það heitasta núna. Ætla að fá mér Cyber blá fyrir sumarið.“

sigrunskafta

Týnir alltaf sólgleraugum

Sigrún Skaftadóttir, plötusnúður og veitingastýra, er týpan sem skiptir oft um sólgleraugu, en ein gleraugu hafa þó fylgt henni um tíma og eru þau í miklu uppáhaldi. „Uppáhaldsgleraugun mín eru bleik John Lennon sólgleraugu sem ég og dj-félagi minn Lovísa, í Kanilsnældum, keyptum okkur eins þegar við vorum að spila í Kanada fyrir nokkrum árum. Ég hef átt rosalega mörg sólgleraugu og tekst alltaf að týna þeim en þessi virðast ætla að fylgja mér hvert sem ég fer. Þau eru kannski ekki þau allra flottustu en mér þykir vænt um þessa ferð okkar Lovísu og því eru þau uppáhalds.“
Mest notar Sigrún þó Ray Ban, New Wayfarer sólgleraugun sín þó henni þyki þau rosalega venjuleg og þreytt. Hún stefnir á að fjárfesta í nýjum gleraugum fyrir sumarið, enda sannfærð um að það verði sólríkt og gott. „Ég er einstaklega hrifin af gleraugunum frá Oliver Peoples og Persol en ég er með ótrúlegan valkvíða það eru svo mörg falleg.“

 

linabirgitta

Fann hin fullkomnu gleraugu

 

Lína Birgitta Camilla Sigurðardóttir, samfélagsmiðladrottning og einkaþjálfari, fylgist vel með tískunni og sólgleraugnatískan er þar ekki undanskilin. Hún fjárfesti í nýjum hátísku gleraugum í Top Shop fyrir nokkrum dögum og þau eru strax orðin uppáhalds. „Þau eru með hálfgerðu „cat eye“ útliti og lituðu gleri,“ útskýrir Lína sem er vel búin fyrir sumarsólina.

„Þessi gleraugu eru í uppáhaldi því ég er búin að leita lengi að nákvæmlega eins gleraugum og fann þau loksins. Litað gler í sólgleraugum er það vinsælasta í dag og „cat eye“ gleraugu eru búin að vera lengi í tísku, þannig að þessi eru fullkomin.“

 

snorribj
Var að rokka þriggja evru Ray Kwan

Snorri Björnsson ljósmyndari átti í raun engin almennileg sólgleraugu þegar blaðamaður bað hann um að vera með í léttri úttekt á sólgleraugnatískunni. „Ég var bara að rokka prúttuð þriggja evru Ray-Kwan gleraugu, keypt á Magaluf, Mallorca,“ segir Snorri léttur og á þar að sjálfsögðu við eftirlíkingu af hinum klassísku Ray Ban gleraugum. Honum fannst þetta hins vegar tilvalið tækifæri til að splæsa í alvöru gleraugu og títaníumblönduð gleraugu frá Han Kjøbenhavn urðu fyrir valinu. „Ég mynda mikið fyrir Húrra Reykjavík og leigi með Ólafi Alexander, lykilstarfsmanni þar á bæ. Ég labbaði bara inn á Hverfisgötunni og Óli lét þessi gleraugu á hausinn á mér með því loforði að þau myndu rústa þessa sólgleraugnakeppni.“

Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans

SHARE