Útfjólubláir geislar sólarinnar fara í gegnum húðina og skemma frumurnar. Við finnum ekki fyrir því þegar það gerist og það getur gerst þó okkur finnist sólin ekkert sérstaklega heit.

Þessar skemmdir eiga sér stað bæði í ljósabekkjum og undir berum himni.

Þegar skemmdir verða á húðfrumunum með þessum hætti eykst hættan á húðkrabbameini og flýtir fyrir öldrun húðarinar. Útfjólubláir geislar geta einnig leitt til skemmda á sjón.

Sólin er okkur samt sem áður nauðsynleg til að viðhalda heilsu en of mikið af henni getur sem sagt leitt til  sólbruna, ótímabærrar hrörnunar á húð og húðkrabbameins. Þess vegna er mikilvægt að verja húðina og forðast það að hún brenni. Gott ráð er að fara í skugga þegar sólin er hvað sterkust, hylja húðina með fötum, nota sólgleraugu og hatt og síðast en ekki síst nota sólvörn.

Mikilvægt er að fylgjast vel með fæðingarblettum og láta lækni skoða ef þeir stækka, breyta lit eða breytast á annan hátt með tilliti til mögulegra frumubreytinga í húð.

Ekki spara sólarvörnina.Rannsóknir hafa sýnt fram á fólk noti ekki eins mikið af sólvörn og það þurfi. Ef þú sparar hana fæst ekki fram sú vörn sem ætlast var til.

Ekki gleyma svæðum eins og ristum, eyrum og aftan á hálsi.

Mælt er með að:

 • Nota sólvörn með stuðlinum 15 eða meira (SPF 15).
 • Veldu sólvörn sem verndar bæði fyrir UVB og UVA geislum.
 • Veldu sólvörn sem er merkt sem fjögurra eða fimm stjörnu.
 • Berðu sólvörnina á þurra og hreina húð.
 • Það þarf að minnsta kosti 2 teskeiðar af sólvörn til að hylja höfuð, háls og handleggi.
 • Það þarf að minnsta kosti 2 matskeiðar af sólvörn til að hylja afganginn af líkamanum.
 • Það þarf að bera sólvörnina aftur á líkamann á um það bil tveggja tíma fresti.
 • Það þarf að bera sólvörn aftur á eftir að búið er að bleyta húðina (sund/sturta o.þh.) jafnvel þó hún sé merkt sem vatnsheld.
 • Það er æskilegt að bera á sig sólvörn þrátt fyrir að viðkomandi dvelji að mestu í skugga eða klæddur.
 • Ekki lengja þann tíma sem þú getur annars verið úti þó þú sért með sólvörn.

Gæta þarf vel að því að sólvörn rennur út. Skoðaðu þess vegna dagsetninguna og hentu því sem er útrunnið.

Sjá einnig: 7 leiðir til að lækna sólbruna – Gott að hafa bak við eyrað á fallegum sólardögum

Þarf ég að hafa einhverjar áhyggjur ef ég er með dökka húð/brenn ekki?
Allir geta fengið húðkrabbamein en þeir sem eru dökkir á hörund eru í minni áhættu þar sem þeir hafa betri náttúrulega vörn gegn útfjólubláum geislum.

Fólk með:

 • Ljósa húð sem brennur auðveldlega
 • Rautt eða ljóst hár
 • Mikið af fæðingarblettum eða freknum
 • Hefur sólbrunnið áður
 • Hefur ættarsögu um húðkrabbamein

…er í aukinni hættu á að fá húðkrabbamein. Ef þetta á við um þig þarftu að gæta sérstaklega vel að húðinni.

Að vernda augun:

Þeir sem eru mikið úti í sól án þess að hlífa augunum geta aukið hættu á skýmyndun í auga (cataract). Of mikið af útfjólubláum geislum getur jafnvel valdið bruna á yfirborði augans líkt og sólbruna á húð og er það mjög sársaukafullt.

Endurkast sólarljóss af vatni eða snjó og tilbúin birta úr ljósalömpum er sérstaklega hættuleg augunum. Það á alltaf að forðast að horfa beint í sólina því það getur valdið varanlegum skaða á sjónhimnunni (retina)

Önnur hætta er húðkrabbamein sem getur komið fram kringum augað eða á augnlokunum. Þeir sem eru útsettir fyrir mikilli sól eru í aukinni hættu.

Með því að nota baraðstóran hatt er hægt að draga úr magni útfjólublárra geisla sem ná til andlitsins og augnanna.

Hvers ber að gæta við val á sólgleraugum:

Gættu að því að sólgleraugu sem þú kaupir hafi a.m.k. eitt af eftirtöldu:

 • ‘CE merki’
 •  UV 400 merki
 • Fullyrðing um að sólgleraugun veiti  100% vörn gegn útfjólubláum geislum (UV protection)

Mundu eftir hliðunum og veldu frekar sólgleraugu með breiðum örmum  sem hylja vel.

 Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo
SHARE