Staldraðu aðeins við

Það er svo ótrúlega stutt í jólin…

Ég spái mikið í því hvernig þessi árstími legst í fólk. Hver er munurinn á milli þeirra sem hafa nóg á milli handanna og þeirra sem hafa ekki nóg til að gefa þær gjafir sem þeim langar til að gefa, hvað þá til að kaupa allt sem til þarf til að halda jólin? Hvernig líður þeim sem hafa aldrei nóg á mánuði til þess að borga nauðsynlegustu reikningana sína til að framleyta sér og fjölskyldu sinni og hvað þá um jólin?

Sjá einnig: Náungakærleikurinn er allt sem þarf

christmas_heart_by_pretence

Þú getur ekki sagt við manneskju sem hefur aldrei nóg á milli handanna “hvah… þú átt bara að byrja að kaupa jólagjafirnar í júní og þá er þetta ekkert mál…” eða segja þeim hetjusögur af því hvernig best er að haga tilverunni svo að jólin geti virkað snuðrulaust. “Þú lætur bara skipta niður vísareikningnum og þá geturðu spreðað að vild eftir að nýtt kortatímabil er komið í desember”. Óteljandi dæmi sem hægt er að telja um hvað varðar þær raunir sem margir í okkar samfélagi þurfa að lifa í þessum agalega fjárútlátsmánuði.

Þegar raunin er sú að við erum samfélagsverur í eðli okkar, sem þýðir það að við viljum geta gert það sem aðrir gera. Við erum hönnuð til þess að hafa í okkur keppnisskap, í að vera ekki síðri en hinir, ekki lakar en aðrir, sem getur orðið til þess að innra með okkur kviknar vanlíðan þegar okkur líður eins og við erum ekki jafnstíga þeim bestu. “Survival of the fittest” kenningin kemur hér sterk inn, sem verður síðan til þess að við finnum til vanmáttar og gefumst upp á okkur sjálfum og setjum okkur sjálf í lakari flokk en þeir “bestu”.

Sjá einnig: „Nú geta jólin komið í alvöru“

Vitum við hvers vegna okkur hlakkar til jólanna eða hvers vegna börnum okkar hlakkar til jólanna? Hlakkar okkur til að gefa okkur leyfi til að borða á okkur gat eða til að horfa á börnin okkar opna dýru jólagjafirnar frá okkur? Hlakkar okkur til að fá skilyrta hegðun frá þeim sem okkur eru næstir eða langar þig að sofa í 12 klukkustundir með nóakonfektkassa við hliðina á þér í rúminu?

Okkur til mikillar lukku er mikil samkennd í samfélaginu okkar og þá sérstaklega meðal fullorðinna einstaklinga. Þökk sé samfélagsmiðlum hefur orðið mikil hvatning til fólks um að hjálpa þeim sem minna mega sín, þar sem samfélagið og velferðarkerfið okkar hefur ekki bolmagn í að takast á við öll þau átök. Við skulum endilega hjálpast að við að nota þær stundir sem við eyðum með börnunum okkar í að fræða þau um verðmætagildi, hvort sem það er veraldlegt í hlutum eða andlegt gagnvart náunganum, til þess eins að búa til ennþá meiri samkennd til annarra í næstu kynslóð.

Okkar gjörðir og okkar líðan gera jólin okkar. Jólin geta verið súrsæt og eru iðulega stútfull af tilfinningum, en við getum samt farið vel með samvisku okkar með því að vanda okkur gagnvart náunganum og börnunum okkar. Fyrir marga eru jólin versti tími ársins og fullur af kvíða og trega, en þess vegna einmitt er mikilvægt að við víkkum aðeins sjóndeildarhringinn okkar og gerum bæði okkur sjálfum og öðrum þann greiða að staldra aðeins við og horfa í kringum okkur. Gjafirnar eru hlutir sem gleymast, en góðmennska kemur frá sönnum sigurvegurum sem gleymist seint.

Sjá einnig: Eru fyrstu jólin eftir skilnað?

SHARE