Snæfríður vildi gera eitthvað annað en foreldrarnir og ætlaði því aldrei að verða leikkona. Hún fann þó fljótt að dansinn og söngurinn dugði henni ekki og skráði sig í leiklistarnám. Hún var mjög feimin sem barn og unglingur en hefur þroskast mikið frá þeim tíma.

 

Snæfríður Ingvarsdóttir lauk námi frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands nú í vor og er strax komin með nokkur verkefni. „Ég er að æfa Djöflaeyjuna í Þjóðleikhúsinu. Þetta er reyndar síðasta vikan hjá okkur núna, svo kemur sumarfrí og við tökum aftur upp þráðinn í september,“ segir Snæfríður, sem er nýkomin af æfingu þegar við hittumst.

Hún mun leika í tveimur öðrum verkum í Þjóðleikhúsinu á næsta leikári, barnaleikriti sem heitir Fjarskaland og Tímaþjófnum. Þá fer hún með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Ölmu eftir Kristínu Jóhannesdóttur sem væntanlega verður frumsýnd á næsta ári. Hún hefur því nóg að gera.

Forðaðist leikhúsið

Foreldrar Snæfríðar eru Ingvar E. Sigurðsson og Edda Arnljótsdóttir sem bæði eru leikarar þannig hún á ekki langt að sækja leiklistargenin. Hún ætlaði þó aldrei að feta í fótspor þeirra. „Ég alin upp í þessu leikhúsumhverfi en reyndi að forðast það eins og ég gat. Ég ætlaði aldrei að verða leikkona. Ég vildi frekar vera öðruvísi. Ég held ég hafi forðast það út af foreldrum mínum, ekki af því mér líkaði illa við leikhúsið. Ég var bara ekkert að velta því fyrir mér.“ Snæfríður vildi frekar skapa sér feril í öðrum geira. Gera eitthvað á sínum forsendum. En leiklistin togaði hana að lokum til sín. „Það er stundum eins og maður ráði því ekki sjálfur hvað maður gerir. Eins og það séu fyrirfram ákveðin örlög sem stýra manni.“

Var mjög feimin

Snæfríður hefur þó alltaf verið listhneigð. Hún lærði dans og söng áður en hún hóf leiklistarnám og ætlaði sér frekar að verða dansari og söngkona. „Ég vissi alltaf að ég vildi verða listamaður og koma fram. Ég var reyndar mjög feimin þegar ég var yngri, en í dansinum fann ég svo vel að það væri eitthvað líf í mér. Dansinn og söngurinn tvinnast svo auðvitað saman við leiklistina og það sem mig langar að gera. Djöflaeyjan er einmitt söngleikur, minn karakter segir ekki mikið en tjáir sig í staðinn með söng.“

Aðspurð segist hún þó ekki vera mjög feimin í dag. Hún hafi vaxið og þroskast frá feimnu stúlkunni sem hún var. „Sem barn og unglingur þorði ég oft ekkert að segja hvað ég vildi þetta hefur breyst með tímanum, á sama tíma og ég hef mótast sem einstaklingur. Þó maður viti í raun ekkert hver maður er, þá þykist maður vita það. Mér finnst svo mikilvægt að prófa hluti sem maður hefur ekki gert áður því maður veit annars ekki hvers maður er megnugur. Maður þarf alltaf að vera að stækka sjálfa sig og auka möguleikana.“

Fjölskyldan mjög náin

Þrátt fyrir að Snæfríður væri í dansnámi og væri að syngja meðfram því þá fannst henni eitthvað vanta. „Mér fannst það takmarka mig of mikið. Listin er líka að verða meira óskilgreind og tekur sér ýmiskonar form,“ segir Snæfríður sem ákvað því að láta slag standa og bæta leiklistinni við. Stækka sviðið sitt.

Hún fékk þó nasaþefinn af leiklistinni þegar hún var barn og unglingur, enda lék hún í kvikmyndinni Kaldaljós og fór með hlutverk í nokkrum leiksýningum. „Ég var aldrei að sækjast eftir því að leika. En þegar áhuginn kviknaði og ég byrjaði í náminu þá áttaði ég mig á því hvað það er mikil vinna að vera leikari. Maður þarf virkilega að hafa ástríðu fyrir því sem maður er að gera og leggja sig fram til að ná árangri. Hæfileikarnir einir og sér fleyta manni ekki áfram ef viljinn og metnaðurinn eru ekki til staðar.“

Snæfríður segir að það geti verið mikill kostur að starfa í sömu listgrein og foreldrarnir þó að það sé stundum erfitt að vera borin saman við þau í svona litlu samfélagi. „Fjölskyldan mín er mjög náin. Við erum öll mjög tilfinningalega tengd og ég get leitað til þeirra með allt, hvort sem það tengist leiklist eða einhverju allt öðru.”

Hamingjusöm með Högna

Snæfríður, sem er 24 ára, er alin upp í miðbænum og Vesturbænum og er nýflutt aftur í miðbæinn ásamt kærastanum sínum, Högna Egilssyni tónlistarmanni. Aðspurð hvernig það sé að vera í sambandi með öðrum listamanni segir Snæfríður það virka mjög vel. „Ég hef aldrei getað hugsað mér að vera með öðrum en listamanni. Það er kannski algjör klisja. Sumir segja að tveir listamenn geti ekki verið saman en ég held að sé alrangt. Við náum allavega mjög vel saman og erum mjög hamingjusöm. Ég veit ekki hvort þetta hafi verið ást við fyrstu sýn, því ég veit ekki hvort það er hægt,“ segir Snæfríður hálf feimnislega, en blaðamann grunar að það hafi ekki liðið mörg augnablik áður en ástin kviknaði á milli þeirra.

Langar að starfa í útlöndum

En hvaða framtíðardrauma hefur ung og upprennandi leikkona? „Þegar maður er svona ungur þá finnst manni svolítið erfitt að binda sig. Maður vill svo mikið halda öllum möguleikum opnum. Ég hef drauma um að gera mjög fjölbreytta hluti. Fyrir utan leikhúsið langar mig að vinna meira í tónlist,“ segir Snæfríður sem heillaðist líka mjög mikið af kvikmyndaforminu þegar hún lék í Ölmu og langar að leika fleiri kvikmyndum í framtíðinni.
„Einnig væri draumur að fá tækifæri til að starfa í útlöndum, að búa annars staðar og þjálfa mig í öðru tungumáli, en auðvitað finnst mér mikilvægast að skapa eitthvað fallegt sem skiptir máli.“

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE