Það sem þú mátt ekki týna

Hver þekkir ekki að vera með eitthvað í höndunum, eitthvað mikilvægt sem maður má alls ekki týna, þannig að maður leggur það frá sér á einhvern rosalega góðan stað og svo reynist þessi staður hafa verið svo góður að þessi mikilvægi hlutur er endanlega týndur? Eru ekki allir með upprétta hendi?

Jæja, ég ákvað að búa til þennan rosalega góða stað, og það eina sem ég þurfti var lítil karfa og skurðarbretti.

Ég byrjaði á því að spreyja körfuna. Ég klippti handfangið af henni og svo málaði skurðarbrettið. Ég byrjaði á að mála brettið grátt en svo þurrburstaði ég yfir það með „beige“. Svo skrifaði ég með uppáhalds aðferðinni minni og uppáhalds paint pen pennanum mínum „Það sem ekki má týnast“ á skiltið. Mér fannst eitthvað vanta þannig að ég bætti við línum til að láta skiltið líta út eins og það væri úr mörgum spýtum. Og svo þegar ég var búin að bæta við smá grárri málingu þá var ég ánægð. Svo var það elsku borvélin, sem hjálpaði mér að setja 2 opna króka neðan á skiltið og 2 lokaða króka (eins og hringir) ofan á skiltið.

Ok, skiltið tilbúið, kominn tími til að klára köfuna. Ég vildi bæta einhverju smá við, þannig að ég náði mér í smá blúndu sem ég festi á körfuna mína (ég veit, það eru ekki margir dagar þar sem ég og límbyssan mín tölum ekki saman), ég bjó líka til slaufu og setti perlu í miðjuna.

Svo var karfan og skiltið sameinuð (ég smeygði körfunni einfaldlega upp á krókana), setti spotta í krókana ofan á skiltinu og ég var komin með þennan flotta stað til að geyma allt það sem ekki má týnast. Núna er bara að muna eftir að nota hann.

SHARE