Þetta er lagið sem allir veðbankar eru að missa vatnið yfir – Siggi Gunnars um Eurovision

Gleðilega hátíð. Stóra stundin er í kvöld, sjálf aðal keppnin og Eurovison fiðringurinn farinn að færast yfir landann. Í dag ætla ég að renna yfir nokkur lög sem ég tel að munu gera góða hluti í keppninni í kvöld og vert er að fylgjast með! Keppnin í ár er einstaklega spennandi, það er ekkert eitt lag sem stendur upp úr sem sigurvegari, heldur verður þetta barátta. Það er ómögulegt að spá í þetta fyrirfram, maður finnur þetta þegar maður sér flutninginn í kvöld.

 

Holland: The Common Linnets – Calm after the storm.

Þau Ilse og Wylon bjuggu til The Common Linnets sérstaklega fyrir Eurovision, bæði eru þau þekkt tónlistarfólk í sínu heimalandi, sérstaklega Ilse sem á nokkrar gullplötur þar í landi. Ég segi að þetta sé lagið sem verður vinsælt á Íslandi eftir keppnina og mun fá útvarpsspilun, þetta er íslenska lagið í ár, en við veljum okkur yfirleitt alltaf eitt lag. Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta fær 8, 10 eða 12 stig frá okkur í kvöld. Lagið fannst mér ekkert spes fyrst en þegar ég sá þau á sviðinu varð ég alveg “húkkt” enda atriðið, sviðið og myndvinnslan virkilega vel útfært! Þetta lag verður klárlega á topp 10 í kvöld og gæti jafnvel blandað sér í toppbaráttunna, þrátt fyrir að ég hafi sagt fyrr í vikunni að kántrýið eigi erfitt uppdráttar í Eurovision.

 

Svíþjóð: Sanna Nilsen – Undo

Þetta er lagið sem allir veðbankar eru að missa vatnið yfir. Jú, lagið er virkilega vel samið og vel flutt en ég er persónulega ekkert að missa neina vessa yfir því. Lagið er greinilega samið með eitt vinsælasta lag síðasta árs Wrecking Ball í huga, sem meikar alveg sens þar sem það er líklegt til vinsælda að bjóða upp á kunnuglegan og vinsælan hljóm í Eurovision. Ég er ekki að segja að lagið sé stolið eða líkt Wrecking Ball, framleiðslan og tónsmíðin er bara eins. Sanna á eftir að gera góða hluti í kvöld, við gefum henni örugglega 12 stig og það kæmi mér ekki á óvart ef við værum öll á leið til Svíþjóðar næsta ár.

 

Ungverjaland: András Kállay-Saunders – Running

Vinland okkar í Eurovision mætir með mjög sterkt lag í ár og flottan söngvara sem er upp alinn í New York en fór til heimalandsins í leit að frægð og frama sem hann hefur svo sannarlega fengið. Þetta lag er mjög flott og eftir frammistöðuna á þriðjudaginn og á æfingum verður þetta að teljast verður keppandi um titilinn. Virkilega vel samið og kröftugt lag sem mér kæmi ekki á óvart að við gæfum nokkur stig í kvöld.

 

Austurríki: Conchita Wurst – Rise Like a Phoenix

Ég elska ahana Conchitu og þetta er mitt uppáhalds lag í keppninni ár. Þvílíkt frábær flytjandi sem hún er!  Hún heitir í raun Thomas en þegar Thomas er í hlutverki Conchitu vill hann vera ávarpaður í kvenkyni. Hún er ekki bara frábær flytjandi heldur er hún að koma á framfæri ákveðnum boðskap, svona “Ég er mætt hingað á sviðið, ég er glæsileg, syng vel og lagið mitt er flott… en ég er með skegg og af hverju fer það svona mikið í taugarnar á þér?” Hún er í raun að sýna fram á að við eigum öll að geta verið það sem við viljum vera án þess að mæta fordómum frá fólki. Mér finnst ömurlegt hvað margir festast í þeirri staðreynd að hún skuli vera með skegg og noti niðrandi orð eins og “fyrirbæri” um hana. Conchita er glæsilegur flytjandi og fulltrúi þeirra sem vilja fordómalaust samfélag og meira umburðarlindi. Ég vona svo innilega að hún vinni keppnina í kvöld, og ég hef trú á því að hún nái a.m.k. í topp 5!

Önnur lög sem ég hef trú á að eigi eftir að gera ágætis hluti í kvöld er Armenía með Amram MP3, en mér finnst hann hinsvegar ekki nógu góður flytjandi né atriðið nógu gott til þess að verða líklegur sigurvegari. Af þeim löndum sem fóru beint í úrslitin er verðugt að fylgjast með Danmörku sem hefur komið mjög vel út á æfingum og svo Bretlandi, lagið er svo sem ekkert mjög sterkt en það er síðast á svið og í keppni fullri af lögum sem eru svona, jah, jafn góð, enginn stór sigurvegari, gæti það lætt sér inn í toppbaráttuna vegna staðsetningar.

Pollapönkararnir eiga eftir að vera flottir í kvöld, en svona fyrirfram spái ég þeim 15-19. sæti.  Eins verða Rúmenía, Azerbajan, Grikkland og Úkraína ofarlega í kvöld. Ekkert endilega vegna gæði laga þeirra.

 

Góða skemmtun í kvöld og áfram Ísland!

 

 

SHARE