Siggi Gunnars er í loftinu alla virka daga á K100.5 milli 15 og 18. Hann verður að sjálfsögðu í miklum Eurovision gír í þættinum sínum. Siggi er einnig tónlistarstjóri Retro 89.5 en sú stöð mun rifja upp Eurovision minningar alla vikuna. Það er því nóg um að vera fyrir þá sem vilja smá Eurovision í lífið sitt!

Aðeins fimmtán lönd munu stíga á svip í seinni undankeppninni í kvöld en eins og kom fram á þriðjudaginn er langt síðan svona fáar þjóðir tóku þátt í keppninni. Tíu lög komast áfram, þannig að líkurnar eru miklar fyrir hvert lag, sem þýðir væntanlega að þau þurfa að vera þeim mun lélegri til þess að sitja eftir. Mér fannst erfitt að spá í þessa keppni, öll lögin eru nokkuð jöfn, ekkert svakalega góð ef ég á að vera hreinskilinn.

 

Áfram!

Noregur: Carl Espen – Silent Storm

Þetta þykir mér eitt besta lagið í keppninni í ár. Carl er með frábæra rödd, lagið er ljúft og fallegt en krafturinn eykst þegar líður á lagið, virkilega snoturt! Þetta lag flýgur upp úr undankeppninni.

 

Malta: Firelight – Coming Home

Held að það séu fá lönd sem þrá það jafn heitt að vinna keppnina og Malta (hafa meir að segja boðist til að halda keppnina fyrir önnur lönd sem óvíst var að treystu sér til að sjá um keppnina). Maltverjar tækla held ég þessa keppni svipað og við, fara “all in”. Þetta lag er bara nokkuð töff. Þarna er sótt í hið vinsæla “farmyard sánd” í tónsmíðinni sem svipar til hljómsveita eins og Mumford and Sons og One Republic eða þess sem Gavin DeGraw hefur verið að gera. Allt hefur þetta notið mikilla vinsælda undanfarið. Take That sjarmörinn Gary Barlow átti einnig mjög vinsælt lag í þessum stíl fyrr á þessu ári sem heitir Let Me Go. Þetta sánd er sem sagt inni! Ég held að þetta fari áfram, sérstaklega eftir að hafa séð hollenska countryinu ganga vel.

 

Finnland: Softengine – Something Better

Bara mjög töff, venjulegt lag, sem hljómar eins og það hafi verið samið af hljómsveit frá Manchester á Englandi. Það er alltaf nóg af rokkurum sem horfa á Eurovision og þeir munu örugglega skella atkvæði á þetta lag. Þetta fer pottþétt áfram og þar með munu öll 5 norðurlöndin vera með á laugardaginn!

 

Grikkland: Freaky Fortune feat. Risky Kidd – Rise up

Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar gaur sem kallar sig Risky Kidd og er með einkennilegan breskan hreim hóf byrjaði að rappa í upphafi lagsins. Ekki mjög grískt. En millikaflarnir eru skemmtilegir, grísk áhrif í þeim og sé þetta fyrir mér á dansgólfinu, er þegar komið í DJ möppuna. Grikkirnir klikka heldur ekki á því að bjóða upp á ágætis útsýni fyrir okkur sem kunnum að meta það… Þeir fara áfram!

Rúmenía: Paula Seling & Ovi – Miracle

Man eftir þessum þegar ég var úti í Osló árið 2010, en þá lentu þau í þriðja sæti. Topp fólk, gáfu viðtöl hægri vinstri og allt í sóma. Þetta lag er ekki eins sterkt. Þau halda sig við píanó sándið og leika sér eitthvað með eld eins og 2010. Þau fara áfram, en þetta er ekki “þriðjasætislag”.

 

Pólland: Donatan & Cleo – My Słowianie – We Are Slavic

Guð minn góður hvað ég vona að ég hafi rangt fyrir mér hér og þetta fari ekki áfram! Hér er allt saman komið sem er rangt í þessum heimi, hvort sem litið sé til boðskapsins, lagasmíðarinnar eða flutningsins. En svona lög eiga það til að hitta í mark og ná ágætis árangri og ég er hræddur um að það gerist í kvöld.

 

Austurríki: Conchita Wurst – Rise Like A Phoenix

Mér finnst hún Conchita æði. Hér er um að ræða kraftmikla James Bond ballöðu sem ég hef trú á að fari áfram í kvöld. Hún hefur mætt einhverjum fordómum, sérstaklega frá austustu löndunum í Evrópu en ég vona svo innilega að það hafi ekki áhrif á gengi hennar í keppninni. Vonandi munum við einhvern tíman geta lifað í heimi þar sem ekki skiptir hvernig fólk er, mér finnst fókusinn hafa verið alltof mikill á að hún skuli vera transkona. Fyrst og fremst er hún bara töff söngkona!

 

Írland: Can-Linn (feat. Kasey Smith) – Heartbeat

Þetta er ok lag, fínt viðlag. Lítið hægt að segja. Ég held að það komist áfram, aðallega vegna þess að það er ekkert annað í þessari undankeppni sem er betra. Lagið mun þó týnast á lokakvöldinu, jafnvel verma síðasta sætið.

 

Makedónía: Tijana Dapčević – To The Sky

Þetta ágæta land á metið í slæmum lögum í Eurovision. Stundum er eins og þeir hreinlega leggi sig fram við að senda vont efni í keppnina. Lagið í ár er alveg ok en ekkert meira en það. Létt dansskotið popplag með ágætis viðlagi sem fleytir því áfram í aðalkeppnina. Ef söngkonan heldur uppteknum hætti í sviðsframkomu og í myndbandinu, sem var vægast sagt sérkennileg, tek enga ábyrgð á þessari spá!

 

Ísrael: Mei Finegold – Same Heart

Mér þykir þetta lag alveg hræðilegt en það hefur fengið góð viðbrögð úti í Danmörku og æfingar hafa gengið vel. Ísrael hefur oft átt erfitt uppdráttar í keppninni vegna þeirra pólitíkur sem landið rekur og það er engin breyting á í ár. Þetta er algjört wild card hjá mér.

 

Ekki áfram

Georgía: The Shin & Mariko – Three Minutes To Earth

Hvað er þetta eiginlega? Georgía slær út alla skala í flippi og mætir hér með mjög svo steikt lag sem á víst að sýna menningu landsins. Þetta eru þrjár mínútur af klósettferð hjá mér.

Litháen: Vilija Matačiūnaitė – Attention

Það koma alveg nokkrar sek í þessu lagi sem eru flottar, en restin er algjör hörmung. Hún hrópar sig í gegnum lagið í svörtu pífupilsi og ég held að það segi allt sem segja þarf!

 

Hvíta-Rússland: Teo – Cheesecake

Kökulag Letta jafnvel toppað í hallærislegheitum. Hræðilegt lag, hræðilegur texti, hræðilegur framburður… já bara hræðilegt. Hvít-Rússar munu sitja eftir með sárt ennið eins og svo oft áður.

 

Óvissa

Slóvenía: Tinkara Kovač – Round And Round

Hér mætir Slóvenía með þjóðlega ballöðu sem ég ætti yfirleitt að fýla enda þjóðlagaperri en mér finnst þetta bara ekki nógu gott. Viðlagið grípur bara alls ekki. Það eru þó einhverjar líkur á því að þetta lag fari áfram og ef það gerist verður það á kostnað Írlands.

 

Sviss: Sebalter – Hunter of Stars

Þetta er virkilega sjarmerandi lag, flautið er alveg að gera það fyrir mig! Held samt að það sé ekki alveg nógu sterkt til þess að fara áfram. Flutningurinn ekki nógu sterkur og hann er með leiðinlegan hreim. En það er séns og ef það fer áfram verður það á kostnað Íra.

 Eins og ég segi, ég var í stökustu vandræðum með þennan riðil, finnst hann einfaldlega ekki nógu góður! En um að gera að horfa, skemmta sér, hita upp fyrir stóra kvöldið og líta á andstæðingana!

 

SHARE