Ég skrapp í dekurferð til Hollands í síðustu viku, bara svona stelpuferð.

Það var allt gert út á að þetta yrði dekur og slökun.

Flugið var mjög gott bara 2,5 klukkutími út og ekkert mál að finna rétta lest til að fara í lítin fallegan bæ sem heitir Leiden og er í hálftíma fjarðlægð frá Amsterdam.

Við stöllur tvær á ferð svona líka tilbúnar í dekrið, lendum í Leiden og tökum upp síman og setjum google maps í gang.

Heimilisfangið af lúxusíbúðinni komið í græjuna og græjan segir að við séum 23 mínútur að ganga þetta. Auðvitað röltum við af stað enda dásamlegt veður og margt að skoða.

Við röltum þetta í rólegheitunum, stoppuðum og fengum okkur að borða og kaffibolla ( við erum jú í dekurferð) Höldum svo áfram eins og vel tamdir hundar að elta forritið í símanum, afar stoltar af okkar eigin færni til að nýta tæknina og fylgja henni svona líka vel.

Það segir sko engin að tvær miðaldra konur séu ekki tæknivæddar!

Við fundum götuna og við gengum og gengum og gengum, gatan var endalaust löng. Þegar við höfðum gengið í ca 4 klukkustundir fer okkur að gruna að ekki sé nú mikið vit í þessu forriti, svo við kíkjum betur á skilaboðin með heimilisfanginu og sjáum það að jú þetta er rétt gata en rosalega löng en við áttum að sækja lyklana á eitthvað hótel fyrst. Við stimplum hótelið inn og sem betur fer var það rétt hjá bara 13 mínútur.

Við eltum forritið í símanum sem enn átti batterí eftir og gengum og gengum og gengum og gengum loks inní líkamsræktarstöð til að láta hringja á taxa, þarna voru komnir 5 klukkustundir af göngu og við búnar að hitta önd, sjá svakalega flott strá en gátum ekki tekið mynd fyrir Dag borgarstjóra af því batteríið var alveg að deyja á seinni símanum.

Flotti strákurinn á líkamsræktarstöðinni sagði nei þið labbið þetta það eru 10 mín í þessa átt og benti.

Áfram héldum við að ganga, ég orðin skökk eins og gamalmenni, verkjuð í mjöðmum og ökklum, næstum farin að grenja af uppgjöf, það er nefnilega ekki best að vera með vefjagigt og taka strunsið í margar klukkustundir í sömu skónum. Vinkona mín pebbaði mig og við fundum loks þetta hótel, hraktar og þreyttar.

Konan á hótelinu útskýrði hvar lúxusíbúðin var og við þangað, jú jú það var við þessa löngu götu sem við höfðum gengið í 4 klukkutíma en bara rétt hjá lestastöðinni svona 15 mín. Já glatað og ógeðslega fyndið eftir á!

Við opnuðum hvítu hurðina sem var leiðin að lúxusíbúðinni, sárfættar og aðframkomnar en hvað birtist okkur endalausar tröppur upp og það hálfgerður hanabjálki, upp fórum við og þegar allar tröppur voru taldar upp á salernið í lúxusíbúðinni voru þær 53 alls. Sem betur fer höfðum við pissað á hótelinu, ímyndið ykkur að vera mál að pissa upp allar þessar tröppur.

Þegar þarna var komið var klukkan orðin meira en sex og búið að loka búðum svo það var ekkert að gera annað en að taka tröppurnar niður skrölta og finna matsölustað og svo aftur upp allar tröppurnar og eiga ekkert til nema kranavatn og þreyttan kropp.

Í ljós kom svo þegar við skoðuðum svona gamaldags bréfkort að við höfðum gengið hringin í kringum bæinn og kláruðum því Leiden á fyrsta degi með töskurnar í eftirdragi.

Ferðin var æði og mikið hlegið ekki síst yfir því að við skyldum bara elta þetta forrit í símanum og ekki gera neina athugasemd við alla þessa klukkutíma fyrr en við vorum orðnar bugaðar.

Við elskum samt Leiden sem er ótrúlega fallegur og notalegur bær.

Kveðja miðaldra konur sem kunna betur á pappírskort en forritið í snjalla símanum.

SHARE