Mér finnst alveg frekar dapurlegt að segja frá því, en ég er að verða tvítug og hef verið lögð í einelti síðan ég byrjaði í grunnskóla alveg til dagsins í dag.

Ég var þetta tíbíska veggjabarn sem aldrei lét í sér heyra. Ég sat mjög oft ein úti í horni og sökkti mér í bók. Það var mín björgun frá raunveruleikanum. Ég átti það reyndar til að taka brjálæðisköst þegar ég kom heim en þá hafði ég fengið nóg á öllu og öllum og lét það bitna á mömmu. Er ekkert svakalega stolt af því, en einhvern vegin varð ég að fá mína útrás. Ég var hrikalega feimin og hef barist við kvíðaröskun og félagsfælni allt mitt líf. Eineltið var (og er enn) alls ekki að hjálpa á þeim sviðum.

Ég hef átt marga vini en upplifi það alltaf að mér sé hægt og rólega þrýst út úr vinahópnum. Eineltið sem ég lenti í var ekki þetta ‚bíómyndaeinelti‘ þar sem krökkum er fleygt í ruslatunnur og eitthvað fleira álíka gróft. Ég var talin skrítin og mér mismunað vegna þess að mín áhugamál voru ólík áhugamálum hinna krakkanna. Það má eiginlega segja að ég hafi alltaf verið mjög frábrugðin þessari staðalímynd um ‚venjulega stelpu‘, bæði í útliti og persónuleika.

Ég var mjög mikið hunsuð og hef oft fengið að heyra að það hafi enginn áhuga á því sem ég hef að segja. Þess vegna hef ég lært það með árunum að halda mér saman og sleppa því frekar að tala í kringum fólk, meira að segja mína eigin svokölluðu vini.

Ég lenti í því þegar ég var 11 eða 12 ára að tvær vinkonur mínar gengu upp að stelpu sem í dag er besta vinkona mín og báðu hana hreint út sagt um að taka mig að sér af því þær vildu ekki hafa mig í þeirra hóp. Einnig lenti ég í því í nokkra mánuði að meirihlutinn úr árganginum fyrir ofan mig sögðu mér að fara heim í hvert skipti sem ég gekk fram hjá borðinu þeirra. Á endanum gafst ég upp og labbaði heim úr skólanum. Í eitt skipti fór ég til skólastjórans vegna þess hve mér leið illa og eina ráðið sem ég fékk frá honum væri að fara að klæða mig venjulega og hætta að vera eins og ég var. Hann sagði það ekki beint út en honum fannst greinilega að ég væri að skapa þetta einelti sjálf með því að skera mig út úr hópnum. Hans ráð var að vera venjuleg og falla inn í hópinn. Honum fannst ég vera að biðja um þetta með klæðaburðinum og öðru í fari mínu. Ef ég hefði þolinmæði til að hugsa til baka og skrifa niður hvert einasta atriði sem ég man eftir væri þessi grein nokkuð mikið lengri.

Öll þessi ár hefur mér verið sagt að þetta eigi eftir að lagast. Að ég eigi ekki eftir að vera lögð í einelti af eilífu, en í dag veit ég ekki hvort ég eigi að trúa því þar sem ég er að verða tvítug og er ennþá lögð í einelti. Ég er ennþá hunsuð og tek voða sjaldan þátt í samræðunum í kringum mig og fólk er ekkert að fara leynt með þá staðreynd að það vilji ekki umgangast mig þrátt fyrir að ég hafi aldrei gert þeim nokkurn skapaðan hlut. Vinirnir sem ég hélt ég ætti reynast ekki vera svo góðir vinir eftir allt.

Hvað varð eiginlega um þetta Olweusar verkefni sem átti að vekja athygli fólks á þessu máli og þar af leiðandi stöðva einelti?

Fullorðnir einstaklingar eru ekkert betri en börn og unglingar þegar kemur að einelti. Að mínu mati ættu þeir líka að fá eineltis fræðslu svo þeir geti mögulega áttað sig á því hversu mikið þetta skemmir einstakling. Sjálfsmyndin fer í frumeindir og fylgikvillar eins og kvíðaraskanir, félagsfælni og þunglyndi geta fylgt einstaklingum sem lagðir eru í einelti alla ævi.

Mér finnst mjög dapurlegt að hugsa til þess hvað fólk getur verið grimmt og hugsunarlaust.

Endilega taktu þér tíma til þess að pæla í því hvernig þú kemur fram við fólkið í kringum þig.

SHARE