Um jafnrétti kynjanna

Umræðan um jafnrétti virðist koma í hviðum. Nú um stundir er heilmikið talað um jafnrétti og heyrist jafnvel að nú eigi að stofna jafnréttisskóla. Ég held ég hafi skilið þetta rétt.  

Hvað ætli börnunum verði kennt í þessum jafnréttisskóla? Ætli þeim verði kennt einhver önnur tegund af jafnrétti en t.d. ég reyndi að kenna nemendum mínum meðan ég var að kenna og ég heyri að kennarar sem nú eru starfandi ræða við nemendur sína? Ætli þeim verði t.d. sagt að börn hafi sama rétt – jafnan rétt til náms í grunnskólanum og þess vegna séu börn með alls konar fatlanir í skólastofu með alheilum börnum? Gleymdi náttúran ef til vill að veita fötluðu börnunum jafnstöðu? Hvað með ófötluðu börnin sem eiga rétt á ótrufluðu  námsumhverfi? Fá þau það þegar mikið fatlaður jafnaldri truflar stöðugt af því hann hefur lítið við að vera í þessu jafnréttisumhverfi  og getur ekki fylgt jafnöldrum sínum? Þetta eru áleitnar og grimmar spurningar en þær sækja á hugann.

Hvernig hef ég horft á jafnréttið og reynt það á eigin skinni?

Þegar ég var barn að alast upp við Laugaveginn í  Reykjavík voru litlar verslanir í nærri hverju húsi. Við börnin vorum send að kaupa í smáskömmtum það sem þurfti til heimilisins. Í sumum búðunum var oft margt um manninn, t.d. í kjötbúðinni Borg. Sumt fullorðið fólk reyndi eins og það gat að ýta okkur sem vorum lítil börn aftur fyrir sig og láta afgreiða sig fyrst. Þessu tók kaupmaðurinn, hann Þorbjörn ekki þátt í. Hann fylgdist alveg með hvenær við komum inn og sá um okkur. Hann skildi jafnrétti, taldi að við hefðum jafnan rétt og fullorðna fólkið til að fá afgreiðslu og sá um að svo yrði.  Svipað var í fleiri verslunum á þessum árum, t.d. voru konur í Alþýðubrauðgerðinni sem pössuðu að ekki væri gengið á rétt okkar, barnanna til að fá afgreiðslu. Hugmyndir þeirra um jafnrétti voru alveg skýrar.

Já, rétt eins og ástin er jafnréttið margslungið fyrirbrigði. Þegar ég fyrir 50 árum vann utan heimilisins frá syni mínum ungum gerðu ólíkustu manneskjur athugasemdir við það og töldu það á allan hátt óábyrgt. En móðir mín sem var þá orðin fullorðin kona studdi þetta athæfi með ráðum og dáð og kom hvern morgun eldsnemma í strætisvagni langa leið svo að ég kæmist til vinnu. Hún taldi að konur ættu að geta unnið við það sem hugur þeirra stóð til fleira en að hugsa um börnin heima- sem hún reyndar taldi merkilegt starf líka. En á þessum tíma voru aðeins til  dagheimili eða aðrir öruggir og góðir staðir fyrir tiltölulega fá börn.  Jafnrétti fólks til að stunda vinnu var ekki komið lengra.  Réttur kvenna til að ráða yfir líkama sínum og örlögum átti enn langt í land og kynntist ég því átakanlega þegar rauðu hunda faraldurinn gekk hér yfir 1964. Mjög mörg hjón vildu láta framkvæma fóstureyðinu en óskir fólksins voru hundsaðar.  Réttur almúgans í samskiptum við  valdhafana – jafnréttið-  var ekki lengra komið þá.

Ég hef minnst á tvo þætti, hvorugan léttvægan og má ég bara segja það sem mér finnst. Þegar maður hugsar um hvað raunverulegt jafnrétti er verða ýmis önnur mál eins og t.d. hvort karlinn og konan elda jafnoft, þvo jafnoft upp, ryksuga jafnoft o.s.frv harla ómerkileg.

Ég fékk boð um að koma til dvalar og náms í fjarlægri álfu. Þegar ég kom heim frá vinnu  daginn sem mér barst boðið og  sagði ég bónda mínum frá því.  Þá höfðum við tvisvar í átján ára hjónabandi okkar tekið okkur upp og farið af stað með börnin í svipuðum erindum.  Hann þurfti í bæði skiptin að fara úr ágætri vinnu. Og nú spurði ég hann hvað honum fyndist um þetta. Og það stóð ekki á svarinu. „Ef þú vilt fara vil ég það líka.

Ertu nú alveg viss?“, spurði ég.

„Já, það sem þig langar að gera langar mig líka að gera og það sem þú þarft að gera þarf ég líka að gera“.

Þarna réði skilyrðislaus væntumþykja og einlægur vilji til að verða við óskunum.  Málið snérist ekki  og aldrei um smávægilega hluti eins og t.d. hvaða lit barnið er sett í ! Við fengum öll að njóta þeirra lita sem við óskuðum (í orðsins fyllstu merkingu ) og þess sem við yfirleitt óskuðum og hægt var að gera.  Svo mjög, að þegar við vorum að undirbúa okkur fyrir að fara aftur heim úr þessari síðustu búsetu okkar erlendis fóru þeir feðgar í verslun til að fá sér ný föt áður en farið væri heim. Drengurinn fékk sér buxur sem voru fjólubláar, rauðar og bleikar og fjólubláan bol skreyttan blómum og pabbinn fékk sér rauðbleikar buxur og bleika skyrtu. Fyrir átti hann fagurgrænar buxur, feikifallegan lit. Rétt er að taka fram að þetta var fyrir 45 árum og voru karlar þá enn yfirleitt mjög dökkklæddir. Ekki var laust við að ýmsir lyftu brúnum þegar þeir feðgar spókuðu sig í þessari litadýrð á götum borgarinnar. Af hverju keypti maðurinn sem var alinn upp í sauðalitunum íslensku sér svona litfögur föt? Honum þóttu þessir litir einfaldlega fallegir. Og átti hann þá ekki að vera í þeim? Eiga börn og fullorðnir ekki að fá að velja sjálfir ef valið meiðir engan annan? Er það ekki ein tegund af jafnrétti?

Af hverju er ég að deila þessum hugsunum með lesendum? Það er af því að ég lít jafnrétti fólks til lífsins og lífsins gæða mjög alvarlegum augum. Mér finnst það ekki snúast um léttvæga hluti eins og fatalit eða hver gerir hvað á heimilinu. Auðvitað tel ég að hver og einn eigi að leggja til allt sem hann getur í samskiptunum og athöfnum hins daglega lífs. Hitt er svo jafnrétt að okkur var ekki öllum gefið jafnt. Sumir fengu ótrúlegt atgervi og atorku og aðrir miklu minna. Þar virðist jafnrétti ekki hafa ráðið. Og stóru trén í skóginum hlífa minni og veikari gróðri. Það er jafnrétti náttúrunnar.

Alla mína ævi hef ég tekið þátt í jafnréttisbaráttu af einhverju tagi. Aldrei hefur vantað verkefnin. Starfið til að stuðla að jafnrétti allra þegna samfélagsins tekur aldrei enda, er aldrei fullunnið. Störf í þágu jafnréttis eru margvísleg og mikilvæg og ætti ekki og aldrei að hafa þau í flimtingum.

Höfundur greinar: Bryndís Víglundsdóttir.
Bryndís var kennari um 50 ára skeið, hún kenndi bæði á Íslandi og í Boston í Bandaríkjunum á Perkins school for the blind.  Hún var skólastjóri Þroskaþjálfaskóla Íslands í rúm tuttugu ár og lætur sig enn mannlífið miklu varða.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here