Heiðrún var 8 ára þegar hún fékk fyrst að heyra að hún væri feit, þá af krökkunum í skólanum. Ég fékk að spjalla við þessa flottu konu sem sagði mér sögu sína og hvernig hún breytti hugsunarhætti sínum og lifir betra lífi fyrir vikið.

„Mér var mikið strítt og reglulega kölluð öllum illum nöfnum. Ég fékk svo að fara í Gaggó Mos í 8 bekk og þá hætti eineltið í 1 ár eða þangað til ég flutti í Borgarfjörðin og fór í Kleppjárnreykjaskóla. Eineltið hófst þá aftur. Krökkunum fannst ég á stærð við hlöðu og kölluðu mig það reglulega.“

Hafði eineltið slæm áhrif á þig og líkamsímynd þína?
„Þetta hafði rosalega slæm áhrif. Ég var alltaf meðvituð um hvernig ég leit út og þorði varla út nema í víðum fötum. Helst hettupeysu og stússí buxum.

Ég var um 57 kg þarna alls ekki feit hinsvegar var ég með stór brjóst og stórann rass. Ég var ekki grannvaxin eða vaxin eins og módel og ég held að það hafi verið þess vegna sem ég lenti illa í þessu.
15 ára flyt ég aftur í bæinn og losna við eineltið en það sat samt rosalega í mér.“


Klæddi sig í pokaföt
„Ég kláraði 10 bekkinn í Mosó og var alveg laus við eineltið þar og fór svo í MK þar sem ég hreinlega faldi mig í pokafötum.
Ég man eftir því að nokkrar stelpur komu á tal við mig og sögðu að ég klæddi mig eins og ég væri feit og töluðu um að ég þyrfti að velja mér betri föt en ég hrissti bara hausinn og benti þeim á að ég væri sko feit. Enda trúði ég því að ég væri hvalur.“

Reyndi hverja megrunina á fætur annarri og var einungis 13 ára þegar hún byrjaði fyrst á Herbalife
„Ég reyndi hverja megrunina á fætur annari og var 13 ára þegar ég byrjaði fyrst á herbalife. Ég prófaði súpukúr þar sem þú borðar 500 kj á dag allt í súpuformi. Ég svelti mig og loks gafst ég upp. Mér fannst það ekki skipta neinu máli hvernig ég liti út lengur. Ég var bara dæmd til að vera feit allt mitt líf svo hvers vegna að halda aftur af sér ef það skilar sér ekki? Ég fitnaði þá all svakalega og varð rosalega þunglynd.“

Heiðrún segist hafa verið með stöðugar áhyggjur af þyngdinni og náði aldrei því markmiði sem henni þótti einna eftirsóknarverðast, að vera grönn. 

„Ég reyndi allt en samt var ég alltaf „feita“ gellan í vinahópnum. Ég gat ekki fengið lánuð föt af vinkonum mínum nema að teygja þau annaðhvort yfir rassinn eða brjóstin og ég virkilega hataði að versla föt.“

Heiðrún áttaði sig á því, eins og svo margar aðrar konur að það gat verið erfitt að finna föt sem pössuðu fullkomlega. Annaðhvort pössuðu fötin yfir maga og rass og voru þá allt of víð yfir lærin eða voru of þröng yfir rassinn og magan en fullkomin yfir lærin.
„Það sama átti við um alla boli. Ef þeir pössuðu yfir brjóstin pokuðust þeir yfir maganum og ef þeir pössuðu yfir magann þá voru þeir svo þröngir yfir brjóstin að ég gat varla andað.“ Kannist þið ekki við þetta stelpur? Eflaust margar konur sem geta tekið undir þetta!

Fannstu mikla pressu að líta út á ákveðinn hátt?
„Ég fann rosalega pressu og hef alltaf fundið. Fyrst voru það bekkjarfélagarnir í grunnskóla, svo sveitakrakkarnir og þegar ég kom í MK fóru allt í einu allir að skipta sér að því í hverju ég var. Ég varð oft kjaftstopp yfir því hvað fólk leyfði sér að segja við mig. Ein daman tók sig til og spurði mig af hverju ég færi ekki í megrun og nokkra ljósatíma, hún vildi meina að þá yrði ég falleg. Önnur stelpa hélt því fram að víðu pokafötin, sem mér leið best í, væru ógeðslega ljót og spurði hvers vegna ég klæddi mig eins og offitusjúklingur. Málið var að mér fannst ég vera feit og ég vildi bara fá að vera í friði í mínum fitubollufötum.

Fólki fannst hreinlega í lagi að segja við mig að ég ætti að borða minna, hreyfa mig meira, klæða mig svona eða hinsegin og fara í ljós. Það sá ekki hvað þetta reif mig mikið niður. Mér fannst ég aldrei nógu góð fyrir neinn. Ég var með svo „feita“ sjálfsímynd að ég var ekki einu sinni nógu góð fyrir sjálfa mig.“

Hvenær ákvaðstu að vera sátt við þig eins og þú ert?
„Það var svo síðasta haust að ég kynntist konu með svipað vaxtalag og ég. Hún var á fullu í íþróttum, menntaður einkaþjálfari, jóga kennari og súlu fitness kennari. Hún var svo sjálfsörugg og gaf grönnu stelpunum ekkert eftir þegar kom að íþróttunum. Ég horfði á hana kenna súlu fitness og hugsaði með mér að þetta langaði mig að gera, mig langaði að vera ánægð með sjálfa mig.

Svo ég ákvað að hætta að bíða eftir því að verða mjó. Fór út og keypti mér falleg föt sem pössuðu. Ég fór að skoða myndir af Curvy stelpum á netinu og sá hversu flottar þær eru. Því fleiri myndir sem ég sá af curvy stelpum því betur leið mér með sjálfa mig.“

Hefur þér liðið betur eftir ákvörðunina?
Lífið breyttist rosalega. Ég hætti að loka mig inni og fór meira á stjá. Ég naut þess að versla föt á mig og ég hætti hreinlega að pæla í því hvort ég væri feit eða grönn. Aukaverkanirnar af því að vera ánægð með sjálfa mig létu ekki á sér standa. Ég hlæ meira, er brosmildari og öruggari með mig. Ekki bara það heldur fór ég loksins að grennast, bara við það að hætta að velta mér upp úr því hvað ég væri feit og ég yrði að byrja í megrun strax á morgun. Í staðin þá borða ég bara það sem ég vil þegar ég vil borða það en hakka ekki í mig nammi og góðgæti með það í huga að hver dagur sé seinasti dagurinn sem ég ætli að leyfa mér sælgætisát og gosdrykkju.Heiðrún hefur verið dugleg að hvetja aðrar konur sem eiga í erfiðleikum með líkamsímynd sína. Hún hefur verið dugleg að birta myndir á Facebook af sér og fór í myndatöku um daginn hjá Braga Kort, ljósmyndara. Myndirnar birti hún á Facebook og fékk vægast sagt góðar viðtökur. Heiðrún vill hvetja konur til þess að vera sáttar með líkama sinn, hvort sem þær eru þungar eða léttar. 

Hvernig viðbrögð hefur þú fengið eftir að þú birtir myndir úr myndatökum?
„Einhvernvegin vatt þetta upp á sig og ég komst í kynni við ljósmyndara, fyrirsætur og fleira fólk í „fegurðar“ bransanum hér heima. Mér var boðið að koma í myndatökur sem ég svo þáði með þökkum. Í fyrstu var ég rosalega feimin við myndavélina en í síðustu töku leið mér bara nokkuð vel. Viðbrögðin við myndunum eru líka vægast sagt góð en ég fæ mikið hrós frá bæði körlum og konum að þora þessu. Fyrir mér er þetta ekki lengur að þora heldur bara að gera.“

Hvað myndir þú segja við aðrar konur sem hafa áhyggjur af líkamsþyngd?
„Ég var alltaf að bíða eftir því að gera eitthvað svona og ætlaði mér í myndatökur þegar ég yrði grönn. Mig langaði mikið að vera fín, passa í flott föt og vera ánægð með sjálfa mig. Ég var ekki að fatta að það geta allir verið ánægðir með sjálfan sig. Það skiptir ekki máli hvort þú sért feit eða grönn, lítil eða stór. Þú ert nákvæmlega það sem þú hugsar og ef þér finnst þú vera feit og ljót þá ertu það en ef þér finnst þú vera falleg þá ertu það líka.“

 

„Það skiptir ekki máli hvað öðrum finnst um okkur, það sem skiptir máli er hvernig við hugsum um okkur sjálf og við eigum ekki eftir að finna frelsi til að vera við sjálfar fyrr en við leyfum okkur að hugsa fallega til okkar.“


„Við höfum allar áhyggjur af einhverju í fari okkar, hvort sem það eru tennurnar, nefið eða þyngdin. Það vilja allir breyta einhverju og ef við fókusum of mikið á það sem okkur finnst vera gallað í útliti okkar þá missum við alveg að því sem að er fallegt.
Það státa allir af einhverju fallegu, hvort sem það eru augu, rass, handleggir eða flott bros. Hver og einn þarf að finna hvað það er sem þeim finnst huggulegt við sjálfan sig og horfa á það en ekki slitinn maga eða stórt nef. Horfðu frekar á fallegu augun og flottu lærin.“ – Segir Heiðrún að lokum, þetta er nefninlega alveg rétt. Sama hvort við erum feitar, grannar, horaðar eða í yfirþyngd þá eru flestir sem hafa áhyggjur af einhverju í fari sínu. Við erum okkar mesti gagnrýnandi sjálf og við sjáum oft galla í fari okkar sem aðrir sjá ekki. 

Við þökkum Heiðrúnu fyrir spjallið og óskum henni góðs gengis í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Áfram fjölbreytileiki og fegurð í öllum stærðum og gerðum!

Ljósmyndirnar tók Bragi Kort, ljósmyndari.

 

SHARE