Það var fallegt sumarkvöld, börnin sofnuð og Manni litli úti á landi að vinna. Húsmóðirin sparsama (lygi) hafði legið á facebookskrolli nokkrum dögum áður og séð til sölu þennan líka fína vaxpott og baunir  ,,eins og fagmennirnir nota!”.

Að sjálfsögðu verslaði frúin pottinn, verandi búin að fara margsinnis að láta reyta á sér skrudduna hjá faglærðum feldsnyrtum og því nánast orðin fagmaður í því sjálf, já og fyrir utan peninginn sem hún sá fyrir sér að hún sparaði sér við kaupin.

Potturinn kom einmitt fyrir þetta fallega sumarkvöld og hafði mamman litla svolítið ,,kósýkvöld” í huga. Tilvalið að smella smá mússík á, fá sér jafnvel ogguponsu hvítvín og fínpússa slappann mömmukroppinn.

Hún hellti hvítvíni í glas, kveikti á kerti og stakk nýja vaxpottinum í samband spennt að prófa þetta nýja apparat.

Vaxið var farið að malla í pottinum og sniðuga, sparsama skruddan slengdi ,,löngu”, loðnu leggjunum upp á stofuborðið, sitthvoru megin við ljómandi volgann pottinn. Hún var ekkert vitlaus, svo hún prófaði vaxið fyrst á loðnum legg sínum.
Eftir að sú athöfn var búin var kominn tími til að demba sér í djúpu laugina, svo að kella vippaði sér úr nærbuxunum og byrjaði að reyta.

Allt gekk nokkuð vel, þetta reyndist örlítið sársaukafyllra en þegar að fagreytararnir voru að störfum og tók þetta líka töluvert lengri tíma en það gerði hjá þeim. Eftir að hafa tekið nokkrar ræmur af annars myndarlegum og flottum brúsk á þeim tíma sem það tók, var því styrður mömmukroppurinn orðinn ansi aumur.

Sitjandi á hörðum stól, í asnalegri stellingu, verkjuð og nærri því búin með þolinmæðina hugsaði kella með sér að það hlyti að vera hægt að vera fljótari að þessu. Þá datt henni það snilldar ráð í hug að þekja bara mun stærra svæði með vaxinu og áður en hún vissi af var hún búin að þekja allt klofið, frá nára í nára og alveg niður að gyllinægð.

Það var því að sjálfsögðu á þeirri stundu, þar sem hún sat í vaxbrókinni sinni að yngra barnið ákvað að vakna. Hún gekk eins glennt og hún gat að herberginu til að róa barnið og endaði á því að þurfa að liggja hjá því í nokkrar mínútur.

Það var ekki fyrr en að hún reyndi að staulast fram til að klára hafið verk að hún áttaði sig á því hversu afspyrnu slæm hugmynd vaxbrókin hafði verið.
Vaxið togaði í brúskinn við hverja hreyfingu og klofsvæðið var allt á vitlausum stað, togað niður á mið læri og vaxið þar að auki búið að festa sig við halastjörnuna og innan á barmana á tveimur stöðum.

Hún hlammaði sér í stólinn og vippaði leggjum á sinn stað og reif þar með vaxið frá halastjörnunni og af lærunum. Það þýddi ekkert fyrir budduna að þykjast vera orðin hársár núna. En raunin var þó sú að hársár var hún orðin og hreinlega of smeik til þess að rífa brókina frá.

Svo þar sat sú sniðuga, að reyna að mana sig í að rífa skrambans vaxið af, íhugandi hvort hún ætti að biðja einhvern um aðstoð, blótandi helv… vaxpottinum og Manna litla fyrir að vera ekki heima, grenjaði og hló eins og vitleysingur á milli þess sem að hún rembdist við að kroppa gúmmíbrókina af sér.

Með þessum skrifum vill því illa reytta, óþolinmóða og hvatvísa húsmóðirin vara aðrar þreyttar loðbrækur við hugdettum eins og þessum.

Því algjörlega ótengdu er líka lítið notaður vaxpottur til sölu.

 

SHARE