“Vorum við ekki búin að ræða ÞETTA!?” – Reynslusaga

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað uppá síðkastið varðandi umgengnismál þá get ég varla orða bundist, ég nefnilega hef reynslu af því að vera barn sem upplifir höfnun af hálfu föður og líka af því að vera faðir sem fær ekki að hitta barnið sitt eins mikið og hann vill og það sem er sorglegra,  ekki jafn mikið og sonur minn vill.

Það sem ég ætla að rita um er mín reynsla sem barn, en tilvist mín er upprunnin í framhjáhaldi.

Faðir minn var giftur maður, 10 árum eldri en móðir mín sem varð ólétt eftir hann. Ég ætla ekki að fara djúpt í þá atburðarás öðruvísi en svo að faðir minn og konan hans héldu áfram að vera saman þrátt fyrir framhjáhaldið og trúnaðarbrestinn.

Ég man ekki lífið öðruvísi en svo að ég var alveg ótrúlega spenntur að sjá pabba, þegar hann sagðist ætla að sækja mig þá var það eins og spenningur fyrir jólin. Ég sá hann sjaldan og hann var fyrir mér svalasti maður á jarðríki. Hann vann mikið og tók mig oftast með í vinnuna þar sem voru oft bílar, tól og tæki sem var hægt að skoða og  litlum strák fannst sko alls ekki leiðinlegt. Þegar ég lít til baka sem fullorðinn maður þá man ég ekki eftir því að hafa átt samræður við föður minn eða lært nokkuð af honum, hann var lokaður töffari sem ég, sonur hans komst ekki einu sinni að.

Sú versta tilfinning sem ég upplifði var þegar hann sveik mig, það gerðist nefnilega stundum að hann sveik það að sækja mig og það voru með erfiðari stundum æsku minnar, ég man hvað eftirvæntingin var mikil, ég beið oft svo lengi og hélt í vonina að hann myndi láta sjá sig, oft klukkustundum saman. En á endanum áttaði ég mig á því að hann kæmi ekki og ég klökkna enn þegar ég hugsa til þess hvað það var erfitt.

Ég man sérstaklega eftir einu skipti, en þá átti ég afmæli og í stað þess að pabbi kæmi að sækja mig þá kom afi minn, pabbi pabba að sækja mig og sagði mér að pabbi hefði skellt sér í ferðalag með konunni. Ég fór með afa og eyddi afmælisdeginum með honum en ég þekkti hann ekki mikið, hafði örsjaldan hitt hann því að í ætt föður míns var ég ekki vel liðinn. Það er nefnilega svo skrítið að það var ekki hann faðir minn sem var illa liðinn fyrir hliðarsporin í ættinni sinni heldur ég og móðir mín sem fékk illt umtal þess fólks sem hafði sig mest í frammi.

Amma mín föðurmegin og frændi, bróðir pabba reyndust hins vegar betur, kannski vegna þess að það var fólk sem skildi höfnun og það var mér dýrmætt.

Ég upplifði aldrei að faðir minn hefði sérstakan áhuga á því að sækja mig eða verja með mér tíma, mér fannst alltaf eins og hann væri að gera mér stórkostlegan greiða með því að sækja mig eða eyða tíma með mér. Enda lærði ég það fljótt að vera hljóður, sitja kyrr og helst ekki snerta neitt.

Faðir minn var engin fyrirmynd þegar kemur að því að tala um umgengnisforeldra og án þess að dæma neitt um þá þætti sem ollu því að ég átti varla samband við föður minn þá held ég að konan hans hafi átt þátt í því að samskiptin voru ekki meiri en þau voru, ég held nefnilega að hún hafi aldrei fyrirgefið honum trúnaðarbrestinn, hvað þá mér eða móður minni sem hún líklega kenndi um allt sem gerðist.

Vorum við ekki búin að tala um þetta!?

Stóra áfallið kom þegar ég var líklega átta ára gamall, þá sat ég í bílnum hjá pabba og ég man það svo vel hvað ég var lítill og sá varla yfir sætin eða út um gluggann. Við stoppum fyrir utan eitthvað hús en ég sá konuna hans koma út og vorum við þá að sækja hana í vinnuna. Þegar hún settist í bílinn heilsaði hún mér stutt í spuna, en ég man hvað ég var logandi hræddur við hana því ég fann það svo vel að henni var ekki vel við mig. Þegar hún er búin að spenna á sig beltið snýr hún sér að pabba og hreytir í hann; “Vorum við ekki búin að tala um þetta!?” og bendir með þumalfingri í aftursætið þar sem ég sat… ég var smá stund að melta þetta líklega, þegar ég var búinn að átta mig þá náði ég að halda í mér. Ég sagði ekki mikið á meðan við keyrðum hana heim og svo keyrði pabbi mig heim, þegar ég kom inn heima brotnaði ég algjörlega niður, átta ára gamall áttaði ég mig á því að nærveru minnar var ekki óskað.

Í gegnum barnæsku mína glímdi ég við lága sjálfsmynd, höfnunartilfinningu sem svo breyttist í mikla reiði á unglingsárunum og uppúr tvítugu. Vegna þess hvað ég var andlega tættur eftir pabba sáu krakkarnir í skólanum veikleika hjá mér og ég varð fyrir einelti í skólanum, bæði af hálfu krakkanna og kennara sem var ekki til að bæta úr vanlíðaninni. Ég hefði getað orðið undir í samfélaginu en ég er í góðum málum í dag, er hamingjusamur með minni fjölskyldu og er sáttur við það hlutskipti í lífinu sem ég hef skapað mér.

Þegar ég var kominn á unglingsárin skellti pabbi á mig símanum og ég sleppti því að hringja til baka, það endaði með því að við töluðum ekki saman í tæpan áratug. Eftir þann tíma sem við töluðum ekki saman var ég kominn á þann stað í lífinu að ég þurfti ekki á honum að halda lengur og var löngu búinn að venjast því að hafa ekki föður til að reiða mig á. Hann hafði samband þegar ég hafði eignast barn, mögulega orðinn meirari og vonaðist eftir því að kynnast barnabarni sínu, það hjálpaði mér mikið við að komast yfir reiðina sem hafði varað í mörg ár.

Kannski er niðurstaðan í þessum skrifum mínum meðal annars þessi; sama hvaða erjur eiga sér stað, ef þú átt mann eða konu sem eignast barn utan hjónabands og þú ákveður að halda áfram að vera með maka þínum mundu þá; barnið verður alltaf til að minna þig á það sem gerðist en ef þú getur ekki þolað það og sýnt saklausu barni hlýju, væntumþykju og látið því finnast það vera velkomið skaltu gera öllum þann greiða og fara frá maka þínum strax.

Það eru svo sannarlega ekki allir feður sem vilja umgangast börn sín, þessi reynsla mín hefur held ég  gert mig að betri föður og ég mun sjá til þess að börnin mín muni aldrei skorta það frá sínum föður sem mig skorti frá mínum, en þá kemur að hinum vinklinum sem er sá að nú berst ég fyrir umgengni við son minn, kannski mun ég skrifa um það síðar.

Ástæðan fyrir því að ég brotnaði ekki undan þessari lífsreynslu var móðir mín sem er sannkölluð ljónynja sem eyrði engu ef barninu hennar var ógnað. Hún talaði við mig, huggaði mig og stóð eins og klettur við hlið mér þótt ég kynni ekki að meta það þá.

Pabbi var í guðatölu, en mamma var “bara mamma” þegar ég var ungur og vitlaus. Þau hafa svo sannarlega skipt um hlutverk og það sem mamma lagði á sig fyrir mig og okkur myndi ég ekki kalla annað en þrekvirki. Af henni lærði ég að vera sterkur, standa í lappirnar, standa fyrir mínu sama hvað aðrir segja eða reyna að brjóta mig niður og að hlúa að börnunum mínum.

Takk mamma! Þér á ég allt að þakka!

 

Þessi grein er aðsend til hún.is en skoðanir eða fullyrðingar sem fram koma í henni endurspegla ekki skoðanir hún.is og eru fullyrðingar á ábyrgð þess sem greinina sendir inn

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here