12 ára íslensk stúlka á einhverfurófi svikin illilega um faglega fylgd á flugvellinum í Billund

Tólf ára gömul íslensk stúlka á einhverfurófi varð strandaglópur á flugvellinum í Billund, Danmörku eftir að SAS aflýsti flugi til Stokkhólms þann 19 júlí sl. og mátti dúsa á flugvellinum í heila tvo klukkutíma án eftirlits áður en upp komst.

Faðir stúlkunnar, sem einnig er íslenskur og er búsettur í Danmörku, hafði þó reitt fram 500 krónur danskar sem samsvarar 10.400 íslenskum krónum fyrir fylgd flugvallarstarfsmanns frá brottfararhliði og að landgangi. Sigurrós Yrja, eiginkona föður stúlkunnar, segir skelfilegt að vita til þess að stúlkan hafi verið látin sitja eftir á flugvellinum og að fylgdarmaður skuli hafa fríað sig allri ábyrgð þrátt fyrir að fluginu hafi verið aflýst. Það var móðir stúlkunnar, sem var stödd í Stokkhólmi og ætlaði að taka á móti barninu, sem uppgötvaði að fluginu hafði verið aflýst gegnum netið.

 Fullvissuð um að allt færi vel og beðin um að hafa engar áhyggjur af ferlinu sjálfu

„Við tókum á móti flugvallarstarfsmanni við brottfararhliðið sem fullvissaði okkur um að barnið fengi fylgd fram að landgangi og horfðum á eftir henni allt þar til hún var komin úr augsýn” segir Sigurrós Yrja. „Við héldum að um starfsmann SAS væri að ræða, enda greiddum við flugfélaginu sérstaklega fyrir fylgd, en seinna meir var okkur sagt að fylgdarmaðurinn hefði verið óbreyttur flugvallarstarfsmaður sem er ekki í neinum tengslum við SAS.”

 [new_line]

1382424_10151747110925292_703113323_n

Sigurrós Yrja segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við starfsmenn Billund flugvallar

 [new_line]

Óku róleg af stað frá flugvellinum enda engin skilaboð borist um að fluginu yrði aflýst

Sigurrós og Sigurjón, faðir stúlkunnar voru með tvo drengi sína meðferðis, sem eru 10 mánaða og 2 ára en börnin voru orðin mjög þreytt og viðskotaill eftir langan akstur þann daginn, en 90 mínútur tók að aka öllu börnunum á flugvöllinn. „Við ákváðum því að bíða ekki inni á flugvellinum eftir staðfestingu á því að vélin væri farin, en dokuðum við í bílnum á bílastæðinu þar til að brottfarartíma kom. Fylgdarmaður var með símanúmer okkar beggja og bar skylda til að hringja og tilkynna okkur ef breytingar yrðu, en þar sem við fengum engin skilaboð og var ekki gert viðvart um breytingar á flugi, ókum við einfaldlega af stað heim á leið og töldum barninu borgið um borð í vélinni.”

 

„Fluginu var aflýst! Hvar er barnið?”  

45 mínútum eftir brottför fjölskyldunnar af flugvellinum barst þeim svo loks símtal frá móður stúlkunnar sem spurði hvar barnið væri og kom þá í ljós að vélin hafði aldrei farið í loftið, en að flugvallarstarfsmaður, sem greitt var fyrir fylgd, hafði skilið stúlkuna eftir hjá öðrum starfsmönnum á flugvellinum. Hann vísaði í framhaldinu frá sér allri ábyrgð á barninu, þrátt fyrir að greitt hafi verið fyrir fylgd upp að landgangi. „Við fengum ekkert símtal frá flugvellinum, máttum snúa við á punktinum og aka í loftköstum á flugvöllinn aftur, þar sem barnið beið eftir því að vera sótt og skildi hvorki upp né niður í neinu. Henni var einfaldlega sagt að hún yrði að bjarga sér sjálf og hafa samband við fjölskyldu sína þar sem breytingar hefðu orðið á flugi; það væri ekki á ábyrgð starfsmanna að líta lengur eftir henni. Stúlkan er á einhverfurófi og á erfitt með að bjarga sér upp á eigin spýtur, enda bara 12 ára gömul, en við þökkum Guði fyrir að hún er róleg og yfirveguð, en ekki æst í skapi. Hennar yfirvegun gerði gæfumuninn.”

 

Þurftu að reiða fram 60.000 íslenskar krónur í snarheitum fyrir nýjum flugmiða

Þegar á flugvöllinn var komið og gengið hafði verið úr skugga um að barnið var heilt á húfi, vandaðist mál enn frekar, því skrifstofu SAS hafði verið lokað þann daginn enda um laugardag að ræða og einungis opið til kl. 17.00 fyrir bókanir um helgar. Því var ekki um annað að ræða en að aka barninu heim og festa kaup á öðrum flugmiða frá öðrum áfangastað nokkrum dögum seinna. sem kostaði heilar 3000 danskar krónur, eða um 62.000 íslenskar krónur.

 

Segir ferlið í heild sinni hneykslanlegt 

Sigurrós segist hafa gert ítrekaðar tilraunir til að ná sambandi við skrifstofu SAS án árangurs, en hún ritaði fĺugfélaginu formlegt kvörtunarbréf tveimur dögum eftir að stúlkan sat eftir á flugvellinum án nokkurrar aðstoðar. „Þeir segjast afskaplega lítið geta gert nema endurgreiða okkur flugmiðann sem upprunalega var keyptur og aldrei notaður, en sjálfri finnst mér allt ferlið vera hneykslanlegt. Ég hef verið þolinmóð og kurteis í samskiptum mínum við flugfélagið og hef ítrekað reynt að ná sambandi við gæðaeftirlit SAS sem og þjónustudeild, en ekki borið árangur sem erfiði þrátt fyrir að þrjár vikur séu liðnar frá atvikinu.” 

Vara foreldra og forráðamenn við að treysta á fylgd flugvallarstarfsmanna í blindni 

Segir Sigurrós að þau hjón hafi ákveðið að stíga fram og deila sögu sinni í þeim tilgangi að vara foreldra og forráðamenn við því að treysta í blindni á flugvallarstarfsmenn og fylgdarfólk á alþjóðlegum flugvöllum, þrátt fyrir að greitt hafi verið fyrir fylgd fram að landgangi:

„Ekki treysta flugfélögum og flugvallarstarfsmönnum fyrir barninu þínu ef ætlunin er að senda barnið einsamalt í flug. Gangið úr skugga um að flugið hafi farið í loftið, takið niður símanúmer hjá fylgdarmanneskju og dokið við á flugvellinum þar til fullvíst er að allt hafi farið samkvæmt áætlun. Það fór betur en á horfðist hjá okkur en ekkert foreldri né forráðamaður ætti að þurfa að standa í þessum sporum á alþjóðlegum flugvelli, með ólögráða barn á lokuðu svæði flugvallarins og takmarkaða möguleika á að geta brugðist við ef eitthvað ber út af.”

Á vefsíðu SAS í Danmörku er að finna skýrar upplýsingar um hvernig skal að staðið þegar keypt er fylgd fyrir börn undir 15 ára aldri en þar eru reglur um slíka fylgdarþjónustu og ábyrgð forráðamanna tíunduð: Smellið HÊR

SHARE