14 ástæður fyrir sífelldri þreytu

Svefnskortur er ekki það eina sem dregur úr orku. Það eru ýmsir litlir hlutir sem þú gerir (eða gerir ekki) sem geta haft þau áhrif á þig að þú ert úrvinda, bæði á líkama og sál. Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.

1. Þú sleppir æfingunni þegar þú ert þreytt

Að sleppa ræktinni til þess að spara orkuna getur haft öfug áhrif. Háskólinn í Georgia gerði rannsókn á þessu, kyrrsetufólk sem annars var heilbrigt stundaði hóflega líkamsrækt (janfvel bara í 20 mínútur á dag) var orkumeira og minna þreytt eftir sex vikur. Regluleg hreyfing styrkir þig á allan hátt. Næst þegar þú ætlar að henda þér í sófann skaltu prófa að skreppa í göngutúr – þú sérð ekki eftir því.

2. Þú drekkur ekki nógu mikið vatn

Vökvaskortur hefur mikil áhrif á orkuna. Að drekka ekki nógu mikið vatn verður þess valdandi að blóðið verður þykkara (þegar maður fer að gefa blóð er t.d. mjög mikilvægt að hafa drukkið nógu mikið vatn, til þess að rennslið verði betra), hjartað dælir ekki jafn kröftuglega, sem hefur áhrif á hversu hratt súrefni kemst til skila út í blóðið. Drekktu vatn jafnt og þétt yfir daginn.

3. Þig vantar járn

Járnskortur getur haft þau áhrif að þú verður lúin, pirruð, veikluleg og átt erfitt með að einbeita þér. Auktu járninntöku þína með bættu mataræði, járn má finna í kjöti, dökku blaðagrænmeti (t.d. spínat), hnetum og hnetusmjöri, baunum og eggjum.

4. Þú ert með fullkomnunaráráttu

Að eltast við fullkomnun er ómögulegt og mjög þreytandi til lengdar. Þú setur þér markmið sem er ómögulegt að ná og þegar þú nærð þeim ekki finnurðu fyrir óánægju. Settu þér tímamörk fyrir hvert verkefni og gerðu þitt besta á þeim tíma. Að lokum muntu læra að allur sá auka tími sem fór í verkefnin skilaði ekki endilega betra starfi.

5. Þú gerir úlfalda úr mýflugu

Ef þú ert viss um að nú verði þér sagt upp þegar yfirmaður þinn kallar þig skyndilega á fund eða þorir ekki að fara út að hjóla því þú gætir lent í slysi ertu að gera úlfalda úr mýflugu. Að vera sífellt viss um að allt fari á versta veg hefur lamandi áhrif á sálartetrið.

6. Þú sleppir morgunmatnum

Eftir góðan nætursvefn öskrar líkaminn á eldsneyti. Þú þarft að svara því kalli með staðgóðum og vel samsettum morgunmat. Slenið færist yfir þig ef þú sleppir morgunmatnum.

7. Þú lifir á ruslfæði

Matur sem inniheldur sykur og einföld kolvetni ætti ekki að vera valkostur. Einföld kolvetni streyma út í blóðið og valda miklu ójafnvægi á blóðsykrinum, ójafnvægi sem verður til þess að þú þreytist mjög þegar blóðsykurinn fellur. Haltu jafnvægi á hlutunum og borðaðu vandaða fæðu, t.d. bakaðan kjúkling, brún hrísgrjón, lax, sætar kartöflur o.fl.

 8. Þú átt erfitt með að segja nei

Að reyna að gera öllum til geðs bitnar á eigin orku og hamingju. Og til að bæta gráu ofan á svart geturðu orðið bitur og þreytt með tímanum. Æfðu þig að segja nei. Ef þig langar ekki til að baka fyrir saumaklúbbinn eða taka aukavaktina eða skreppa í bíltúr, segðu bara nei.

9. Vinnurýmið er óskipulagt

Ruslaralegt skrifborð getur valdið því að þú átt erfitt með að einbeita þér og meðtaka upplýsingar. Gakktu frá eftir þig í lok dags, skipuleggðu þig og komdu að hreinu borði daginn eftir. Bakkar, möppur, vasar og skúffur gera gæfumuninn.

10. Þú vinnur í fríinu

Ef þú ert að skoða tölvupóstinn þegar þú átt að vera að slappa af við sundlaugarbakkann getur orðið til þess að þú brennur út í starfi. Slökktu á tækjunum, slappaðu af og komdu tvíefld til baka úr fríinu.

 

Nú er Meistaramánuður framundan – hvernig væri að vinna í betri hvíld?

SHARE