24 tímar í paradís: Bárðarbunga hvað?

Ég er að fara í ferðalag á laugardaginn. Tók mig til og festi kaup á flugmiða; rígfullorðin konan. Sjálfri finnst mér hugmyndin ekki svo galin, en ég er á leið til Spánar. Ætla að heimsækja í sólarhring, einsömul með ævintýraglampa í augum, með litla handtösku á annarri öxlinni og ballerínuskó að vopni.

 Uppruna hugmyndarinnar má rekja til æskudraumar; svipmyndar sem ég hafði af eigin fullorðinsárum sem lítið barn. Ég, sem fullorðin kona, fjarræn á svip í erlendu háhýsi. Yfirveguð, andlega fullnægð og annars hugar. Engum háð ef því væri að skipta. Það var í það minnsta hugmyndin.

Í þá daga dreymdi mig um að læra á kontrabassa, spila frumsaminn spuna á leiksviði og slá í gegn á tónleikum fyrir troðfullu húsi. Ég hef alltaf verið doldið svag fyrir melódíum. Og því að vera fjarræn á svip. Það þótti mér ægilega flott sem krakka.

En það er komið að vitleysunni; ég er á leið til Spánar. Tilefnið er kvöldverður á fjarrænni ströndu, tónleikar með frjóum engisprettum sem suða svo fallega í myrkrinu og tækifærið til að hlýða á dillandi konuhlátur, mega deila nokkrum leyndarmálum út í nóttina og ljúka ævintýrum laugardagsins með fjarrænan svip á andlitinu, draumkennt augnaráð og örlítið meiri fróðleik í höndum en ég bjó yfir áður en ég steig upp í flugvél og bað til Guðs að íslensk eldfjöll tækju ekki til óspilltra málana fyrr en ég hef ratað heim að nýju.

Ég, Klara litla Egilson, einstæð móðir og dugnaðarforkur með meiru er á leið til Spánar. Ferðin stendur yfir í sólarhring og hefst árla laugardags þegar ég kyssi sex ára gamlan drenginn á báðar kinnar, gríp vegabréfið þéttingstaki og flögra á vit örlagana, fyrst í grænum sendiferðabíl og síðar meir á almennu farþegarými.

Eflaust fara um mig örlitlir taugaveiklunarkippir á síðustu metrunum. Eldgos er í vændum á Islandi, þegar þessi orð eru ritð hefur hættustig alþjóðaflugs verið fært upp í appelsinugult og ekki víst að af fluginu verði. Óttinn við að sitja föst á Spáni fer vaxandi, ægilegt yrði að komast ekki til vinnu á mánudag. Ferðin á nefnilega bara að taka sólarhring með öllu og enda síðdegis á sunnudag.

Einhverjir hafa gagnrýnt mig fyrir hvatvísa ákvörðun; að ferðast til Spánar til að njóta laugardags með vinkonu. Spyrja mig hvers vegna ég kasti flugmiða í 24 tíma. Ég á erfitt með að svara þeim gagnrýnisröddum. Þetta var mitt val. Að ganga út á erlendum flugvelli, líta spænskan leigubílstjóra augum og dusta rykið af orðabókinni. Standa barnlaus á tátiljum undir spænskri sól og biðja um svartan kaffi. Meðvituð um að líðandi augnablik kemur aldrei að nýju.

Ganga dreymin á svip út úr flugvallarbyggingunni og ferðast til næsta bæjar. Flissa. Fíra jafnvel í sígarettu og teygja mig í sódavatn. Teyga að mér spænska loftið. Láta eins og lífið muni endast mér að eilífu. Hugsa um Nûið og öll vísdómskornin sem ég hef lesið á Facebook. Allt þvaðrið um hversu illa nýtt augnablikið er. Og hvers við mættum áorka ef við aðeins stöldrum við og tökum inn daginn.

Í dag fékk ég bréf frá kærri vinkonu sem sagði mér að Ebóluviðvörun hefði verið gefin út í Alicante. Um stund velti ég vöngum yfir því hvort ég ætti að kaupa mér grímu til að bera um borð í flugvélinni. En ég hristi hugmyndina af mér skömmu seinna. Ebóla smitast við sleik. Svona í alvöru. Og það er ekkert eldfjall að fara að gjósa. Ég fer í þetta ferðalag og sný heil á höldnu heim að nýju sólarhring seinna.

Ég er að fara í ferðalag á laugardaginn; ég skil drenginn minn eftir í öðru landi og flögra á vit örlagana, vopnuð ballerínuskóm og grænum sendiferðabíl sem lúrir á flugvallarplaninu meðan ég teyga að mér ævintýri í ókunnu landi. Biðjandi á svip og fullviss um að augnablikið sé allt sem mér er gefið að sinni.

Það er komið að því, gott fólk. Ég umfaðma Núið um helgina. Meðvituð um hættur Ebólu, íklædd ballerínuskóm og ægilega upplýst um alþjóðlegar flugleiðir sem íslenskar jarðrhræringar.

24 tímar til sigurs …. Bárðarbunga hvað?

SHARE