30 kíló farin frá áramótum á hreinu matarræði

Inga Guðrún Kristjánsdóttir hefur verið á whole30 matarræði í 120 daga og finnur mikinn mun á andlegri og líkamlegri heilsu. Hún er með insúlínháða sykursýki en þarf aðeins brot af því insúlínmagni sem hún þurfti áður.

„Ég hélt að það væri ekki raunhæft að reyna við þetta. Mér fannst svo róttækt að sleppa öllum mjólkurvörum. Ég hafði oft prófað að taka út allan sykur og hveiti en aldrei mjólkina, enda var ég alveg háð því að fá mjólk út í kaffið mitt. Mín umbun í lífinu hefur alltaf verið að fá mér góðan kaffi latté,“ segir Inga Guðrún Kristjánsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur.

Inga ákvað í byrjun árs að ögra sjálfri sér ansi hressilega með því að prófa svokallað whole30 matarræði, sem snýst um borða eingöngu hreinan mat i 30 daga samfellt. Sleppa alveg mjólkurvörum, sykri og mjöli. Whole30 mataræðið er náskylt paleo matarræðinu, bara örlítið strangara.
Ingu gekk svo vel með fyrstu 30 dagana að hún ákvað að framlengja áskorunina og hefur nú verið á hreinu matarræði í 120 daga frá áramótum, en er hvergi nærri hætt.

Erfitt að sleppa Pepsi Max

Inga, sem er með insúlínháða sykursýki, fór að hugsa meira um heilsuna árið 2011, þegar hún gekk með eldri son sinn, til að meðgangan yrði henni auðveldari. Það var því ekki nýtt fyrir henni að passa hvað hún setti ofan í sig. Eitt hafði hún þó alltaf leyft sér, sem hún varð að hætta til að geta tekið whole30 alvarlega. Það var lífselexírinn – Pepsi Max. „Það var bara hluti af sjálfsmynd minni,“ segir Inga og skellir uppúr.
Hún fylgdist með whole30 samfélaginu á samfélagsmiðlinum Instagram í heilt ár áður en hún ákvað sjálf að láta slag standa sjálf.

Notar miklu minna insúlín

Eina markmið Ingu í upphafi var að léttast. Meðgöngukílóin frá því hún gekk með yngri son sinn voru ekki að hverfa jafn hratt og hún hafði vonast til og hún vildi gera eitthvað róttækt, en samt heilbrigt, til að létta sig. Árangurinn af whole30 hefur ekki látið á sér standa, hvorki hvað kílóin varðar né líkamlega og andlega heilsu, en frá því í byrjun þessa árs hefur Inga misst rétt tæp þrjátíu kíló og líður miklu betur á sál og líkama.
„Það er svo mikill ávinningur af þessu. Þó ég gleðjist auðvitað yfir hverju kílói sem fer, og það hættir ekki að vera markmið, þá fer hitt fljótlega að trompa það. Ég finn mikinn mun á heilsunni, sérstaklega hvað varðar sykursýkina, alveg þannig að læknirinn minn er undrandi. Ég þarf ekki að vakta blóðsykurinn eins mikið og áður, hann er svo ótrúlega jafn. Ég er aðeins að nota brot af því insúlíni sem ég gerði áður sem er alveg magnað.“

 26535_Inga_Gudrun_Kristjansdottir-1

Jafnvægi á blóðsykrinum

Þá finnur Inga fyrir aukinni hugarró. Hún hefur verið dugleg að leita inn á við og rækta sálina og það gengur miklu betur með nýju mataræði. „Með svona góðu jafnvægi á blóðsykrinum þá næ ég þessum rólega huga. Það er svo auðvelt að vera í núvitund. Ég þarf varla að hafa fyrir því.“
Inga hefur jafnframt haldið rafræna matardagbók, tekið myndir af matnum sem hún útbýr og borðar og birt þær á Instagram. „Ég byrjaði á því til að draga úr líkunum á því að ég gæfist upp. Og þegar það kemst í vana að setja inn myndir daglega þá hættir maður því ekkert svo glatt. Tilgangurinn er bæði að ögra sjálfri mér og svo er stuðningurinn svo mikill. Sérstaklega frá whole30 samfélaginu.“

Bætir samband fólks við mat

Inga bendir á að tilgangurinn með því að fara á whole30 matarræði þurfi alls ekki að vera að létta sig, enda sé mataræðið vinsælt meðal crossfit- og kraftlyftingafólks og hlaupara.
„Fólk er að gera þetta með alls konar ólík markmið og það er að ná markmiðum sínum. Tilgangurinn er líka að bæta samband sitt við mat og þess vegna er gott að kynna líkamann aftur hægt og rólega fyrir fæðutegundunum sem teknar voru út, að þessum þrjátíu dögum loknum, og finna hvaða áhrif þær hafa á líkamann.“
En líkt og Inga, þá halda margir áfram á mataræðinu eftir nokkurra daga hlé, sérstaklega ef líðanin tekur stakkaskiptum. Sjálf stefnir Inga á að vera á whole30 eða paleo matarræði út árið. „Þetta er alls ekki leiðinlegt. Og það kemur manni rosalega mikið á óvart hvað þetta verður létt,“ segir Inga sannfærandi og blaðamaður getur staðfest það, eftir að hafa skoðað myndirnar hennar á Instagram, að maturinn sem hún er að borða er mjög fjölbreyttur og girnilegur. Hann ætti því ekki að fæla fólk frá því að prófa. Þeir sem hafa áhuga geta fylgst með Ingu á Instagram – whole30inga.

26535 - Inga - Br

Whole30 á netinu

Kynntu þér whole30 mataræðið og hugmyndafræðina á heimasíðunni whole30.com.

Nýlega var stofnað á Facebook samfélag Íslendinga sem hefur áhuga á whole30 mataræðinu og hægt er að finna hópinn undir nafninu Whole30 Iceland.

Hverju á að sleppa?

Viðbættum sykri
Mjólkurvörum
Áfengi
Belgaldin
Korn
Svo er bannað að vigta sig fyrr en að 30 dögum liðnum

 

Mynd/Rut

SHARE