Laugardaginn 28.júní breyttist líf Ragnars Egilssonar svo um munaði, en hann er 31 árs gamall og faðir rúmlega árs gamalla tvíbura.
Seinni part þess dags lenti hann í mótorhjólslysi rétt fyrir utan Akranes og er hann í dag lamaður fyrir neðan háls. Hann var á gjörgæslu í rúmar fjórar vikur þar sem bakslögin komu hver á fætur öðru, fyrst lungnabólga og síðan ítrekuð hjartastopp þar til hann fékk gangráð. Lungabólgan lét svo loks undan og eftir að Ragnar fékk gangráðinn var hann fluttur yfir á lungnadeild landspítalans sem tók á strákinn því allar breytingar í svona aðstæðum eru erfiðar. Svokallaður miðlægur hiti sem er afleiðing af slysinu hefur verið að leika hann grátt og leit ástandið verulega illa út um tíma en vonandi er það versta búið núna. Hann hefur þurft að fá blóðgjafir og er enn í öndunarvél, er þó farin að reyna að kyngja sem er gott, best væri þó að hann færi að geta andað með vélinni til að fá talventil því eins og er erum við að lesa af vörum og notum líka stafrófið sem er búið að raða upp á stórt spjald. Vonandi styttist í að hann fari að fara á Grensás og hefst þá hans vinna fyrir alvöru, ekki það að hann sé ekki búin að þurfa að hafa aðeins fyrir lífinu síðustu vikur, þar verður ströng og löng endurhæfing til að gera hann aftur að hæfum þáttakanda í lífinu.
Við í fjölskyldu Ragnars höfum staðið þétt við bakið á honum og er hann ekki mikið einn því honum líkar það illa eins og er, skiljanlega þar sem hann er enn að læra að nota hljóð og annað til að gera vart við sig, okkur í fjölskyldunni hefur verið það líka dýrmætt að vera hjá honum og höfum við lært heilmikið á því. Það hefur verið og er mikill kostnaður í kringum Ragnar eftir slysið og því tók ein frænka Ragnars, Inga Lára Gylfadóttir, uppá því að óska eftir að fá að stofna félag í kringum hann til að styrkja hann og hans nánasta fólk í því sem koma skal, sjóðurinn verður m.a. notaður til að kaupa tæki sem gangast Ragnari en Tryggingastofnun greiðir ekki.
Föstudaginn 8.ágúst 2014 var stofnað félag sem heitir Styrktarsjóður Ragnars Egilssonar. Söfnuninni verður formlega startað í Reykjarvíkurmaraþoninu þann 23.ágúst næstkomandi þar sem Inga Lára mun hlaupa 21km fyrir frænda sinn og einhverjir fleiri ætla að fylgja henni í því. Síðan er að sjálfsögðu öllum frjálst að leggja beint inná reikninginn þegar þeim hentar.
Við vonum að viðbrögðin verði góð við söfnunni og að sjálfsögðu verður farið vel með allt sem í sjóðinn kemur.
F.h sjóðsins, Anna, Egill, Örn, Ragnar, Margrét, amma, afi, frænkur, frændar, makar og börn.
Reikningur: 0186-26-10224
Kt: 480814-0370