46 ára gömul húsmóðir fór í hjartastopp: Prófaði „Salmíak-Ofnatrixið”

46 ára gömul jósk húsmóðir hafnaði í dái og liggur nú þungt haldin í öndunarvél á dönskum spítala eftir að hafa prófað feykivinsælt húsráð sem gengur út á að hreinsa bökunarofna, sem hefur gengið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla undanfarna daga.

Það var hin norska Elisabeth Jensen, sem sagði frá aðferðinni á Facebook og sló algerlega í gegn á samfélagsmiðlum fyrir vikið, en hin danska húsmóðir sem hafði ætlað sér að prófa bragðið í eigin eldhúsi, sem gengur í grófum dráttum út á að hella salmíaki í eina skál og vatni í hina, andaði að öllum líkindum að sér skaðlegum eiturgufum sem stigu upp frá lútsterkum hreinsileginum og varð fárveik stuttu síðar.

David Mølller, tvítugur sonur konunnar,  segir í viðtali við danska miðilinn Dagens að móðir hans hefði sett löginn í tvær skálar, en að ógerlegt væri að ætla annað en að hún hefði orðið fyrir salmíakeitrun, þar sem mikinn og sterkan ódaun hefði lagt frá blöndunni, sem lagði fljótlega um allt eldhúsið.

Það varð ólíft inni í eldhúsinu þegar hún hafði lagað blönduna og ég er sannfærður um að hún hafi andað salmíakgufunum að sér.

David, sem er búsettur hjá móður sinni og stjúpföður, segir einnig að móðir hans sé hraust að upplagi og hafi almennt ekki kennt sér meins áður. Þá segir hann einnig að móðir hans hafi þá fyrst kvartað undan sárum sviða í öndunarfærum þegar salmíaklögurinn var kominn í skálina og að samstundis hafi fjölskyldunni orðið ljóst að eitthvað hafði farið alvarlega úrskeiðis.

Móðir mín hneig lífvana niður á eldhúsgólfið og fór skömmu síðar í hjartastopp. Til allrar hamingju tókst læknunum að vekja hana til lífs aftur. Nú er hún komin í öndunarvél, en hún er meðvitundarlaus og liggur þungt haldin á gjörgæsludeild. Henni eru ætlaðar ágætar lífslíkur og læknarnir leyfa sér að vera bjartsýnir á bathorfur.

Þó David segi einnig að læknarnir vilji ekki fullyrða að salmíakeitrun hafi verið um að kenna, er staðan grafalvarleg og segir danski miðillinn Dagens að starfsfólk gjörgæslu segi salmíakeitrun ekki óþekkta; að fleiri keimlík tilfelli hafi komið upp. Þó hafi engin tilfelli verið jafn alvarleg og í tilfelli hinnar 46 ára gömlu jósku húsmóður sem hneig lífvana niður í eldhúsinu eftir að hafa hellt salmíaki í skál til að láta reyna á hið vinsæla húsráð.

David segir þá ákvörðun að deila áfallinu sem dundi á fjölskydunni með dönsku pressunni byggja á þeirri von að hægt verði að fyrirbyggja fleiri slys, en að afar mikilvægt sé að brýna fyrir almenning að salmíakgufur geti reynst banvænar.

Læknarnir hyggjast vekja móður mína úr dáinu úr morgun. Þeir segja batalíkur ágætar og við getum ekkert annað gert en að vona hið besta.

SHARE