6 alvarlegar aukaverkanir pillunnar

Þyngdaraukning, ógleði, viðkvæmni í brjóstum og breyttur tíðahringur eru allt vel þekktar aukaverkanir sem fylgja því að taka getnaðarvarnarpilluna. Sumar aukaverkanir eru bara tímabundnar en aðrar geta orðið mjög þrálátar og hættulegar heilsunni.

Rætt var við sérfræðinga í kvenlækningum og þær sögðu frá því hvaða aukaverkanir eru mjög algengar án þess að talað sé um það.

1. Sveppasýkingar

„Konur sem eru á pillunni og neyta mikils sykurs eða áfengis, eða eru með veikt ónæmiskerfi eru líklegri til að fá oftar sveppasýkingu,“segir Alyssa Dweck sem er fæðinga – og kvensjúkdómalæknir í New York. „Það er hægt að meðhöndla sveppasýkingu með kremum og lyfjum en ef vandamálið er þrálátt þá er gott að prófa einhverja aðra getnaðarvörn,“ segir Alyssa.

2. Sjóntruflanir

„Hormónar í pillunni geta valdið þurrk í augum sem getur haft áhrif á sjónina,“ segir Beth Kneib, sérfræðingur í augnlækningum. „Farðu strax til augnlæknis ef þurrkurinn er farinn að hafa áhrif á sjónina en það getur verið mjög alvarlegt og valdið mun stærri vandamálum.“

 

Sjá einnig: Hefurðu íhugað að nota hettuna?

3. Blóðtappar

Blóðtappar eru ekki mjög algeng en mjög alvarleg aukaverkun getnaðarvarnarpillunnar. Á hverju ári fær lítill fjöldi kvenna blóðtappa sem tengist getnaðarvarnarpillunni (3-10 af hverjum 10.0000), en á þetta benda samtök fæðinga- og kvensjúkdómalækna í Bandaríkjunum. Konur sem reykja, eru of þungar, eru yfir 35 ára, eða hafa nýlega alið barn teljast í meiri hættu.

Merki um blóðtappa sem þú skalt hafa auga með:

  • Öndunarerfiðleikar og verkur fyrir brjósti getur verið merki um tappa í hjarta eða lungum.
  • Sársauki, hitatilfinning og bólga í fótleggjum getur verið merki um blóðtappa í fæti.

„Ef þú finnur fyrir einhverju af þessu farðu þá strax til læknis,“ segir Kyoko Peña-Robles, sérfræðingur í fæðingar- og kvenlækningum í San Francisco.

4. Mígreni

Samkvæmt fyrrnefndri Kyoko finna sumar konur, sem voru með mígreni áður, að köstin versna þegar þær eru á pillunni. Frá rannsókn frá árinu 2014 kemur í ljós að þegar estrógen framleiðslan fer niður getur það valdið mígreniskasti, þ.e. rétt fyrir blæðingar eða seint í tíðahringnum. Talaðu um það við lækninn þinn að skipta um pillu með minna magni af estrógeni til að minnka hormónasveiflurnar sem geta valdið mígreni.

Sjá einnig: Viltu laga mígreni á nokkrum mínútum?

5. Þunglyndi

„Konur sem eiga sögu um skapsveiflur eru líklegri til að upplifa þunglyndi á getnaðarvarnarpillunni, vegna þess að hin tilbúnu hormón sem eru í pillunni geta haft áhrif á jafnvægi ákveðinna taugaboðefna,“ segir Kyoko. „Það er samt mjög mikilvægt að finna út hver orsökin er fyrir þunglyndinu er og ef þú tengir þunglyndið pillunni ættir þú að ræða það við lækninn þinn að fara á hormónalausa getnaðarvörn.“

6. Sársauki við samfarir

„Sumar getnaðarvarnarpillur eru taldar tengjast mjaðmagrindarverkjum og óþægindum í kynlífi,“ segir Kyoko. „Það getur stafað af lækkun estrógens, sem getur leitt til minni kynhvatar, þurrks í leggöngum og sársauka í kynlífi. Ef þú ert með verki í mjöðmum talaðu við lækninn þinn til að útiloka sjúkdóma eins og legslímuflakk. Ef þú finnur fyrir sársauka í kynlífi talaðu við lækninn um að fá aðra getnaðarvörn“

Heimildir: Everyday Health

SHARE