6 frábærir kostir við að vera einbirni

Að vera einbirni á sína kosti og galla. Auðvitað langar flesta í systkini á einhverjum tímapunkti og hættan á ofdekrun er alltaf fyrir hendi, hvort sem það telst sem kostur eða galli. Það eru ekki bara grunnhyggnar ástæður fyrir því að vilja bara eignast eitt barn eða vera ánægður með að vera einbirni – það að þurfa ekki að deila leikföngunum með neinum og vita að allir pakkarnir undir jólatrénu eru handa þér og þér einni eru ekki bara ástæðurnar!

 

  • Einbirni eiga oft nánara og betra samband við foreldra sína en ella. Auðvitað er þetta persónubundið eins og allt annað, en einkabarn þarf ekki að slást um athyglina og á oft auðveldari aðgang að foreldrum sínum.
  • Sumir halda að einbirni séu alltaf agalega einmana, en það þarf nú alls ekki að vera. Frjótt ímyndunarafl og hvatning frá foreldrum til þess að auðga andann getur haldið flestum börnum uppteknum daginn út og daginn inn. Að gera virki úr sófanum eða myndskreyta eigin smásögur eru alltaf klassískir leikir.
  • Sjálfstæðið fær að blómstra, þar sem barnið lærir að treysta á sjálft sig og vera sjálfu sér nóg. Með því að innræta ábyrgð, t.d. að úthluta auðveldum verkefnum eða húsverkum sem barnið veit að það ber ábyrgð á lærir það fyrr á þessa hlið lífsins – ekkert er ókeypis!
  • Einbirni sleppa við systkinaríg. Fyrir einbirni getur sambandið á milli systkina eflaust litið undarlega út – eilíf samkeppni, mögulega undarlegar samskiptaleiðir og oft á tíðum afbrýðisemi í garð annarra er eitthvað sem einbirnið þekkir ekki. Svo þarf ekki að keppast um ást foreldranna.
  • Vinavalið verður stundum sterkara. Auðvitað getur verið gott að eiga systkini þótt rifist sé eins og hundur og köttur. Stundum er sagt að maður velji sér ekki fjölskyldu en einbirni vita að til þess að eiga leikfélaga þarf að leggja sig fram um það. Ef einhver vill leika eftir skóla þarf að sækja það verkefni af ákveðni, maður eignast jú ekki besta vin upp úr þurru á stofugólfinu heima.
  • Áhugamálin fá að blómstra. Áhugamál geta verið dýr og margir foreldrar þekkja það að hafa hreinlega ekki efni á að senda börn sín í allt sem þau vilja; hvort sem það eru skautar og dans og myndlist og fótbolti og karate – allt fyrir sama barnið. Einbirni hafa í flestum tilfellum frekari tækifæri á að leggja rækt við áhugamálin.

 

Pressan á foreldra að „koma nú bráðum með annað, þetta fyrra er svo vel heppnað!“ er gríðarleg. Það á engum að líða illa með það val og ákvörðun að eiga „bara“ eitt barn. Stundum er eitt bara alveg nóg!

 

SHARE