6 leiðir til að vera hamingjusamur einhleypingur

Hver kannast ekki við pressuna á að finna sér maka? Mörg fjölskylduboðin virðast snúast um það hjá hverjum maður er að sofa eða ekki sofa, af hverju maður hefur nú ENN ekki fundið sér álitlegan lífsförunaut og mögulegar úrlausnir á þessum „vanda“ („En hefurðu prófað svona internetstefnumót? Hvað með að fara á boccianámskeið?“ Hvað með að troða þessu, Sigga frænka…?) Pressan virðist koma allstaðar frá og áhuginn á þessu málefni er hrikalega mikill. Má maður ekki bara single og kátur með það ástand?

Að vera í góðu sambandi er dásamlegt… en að vera hamingjusamur og einhleypur er líka dásamlegt!

 1. Notaðu frítímann í að betra sjálfa þig.

Þú ert engum bundin og tíminn er þinn. Þú getur notað hann til að sinna sjálfri þér, sinna áhugamálunum, finna ný áhugamál, sinna vinum og fjölskyldu af þeirri ást og alúð sem þau eiga skilið. Eitt af því góða við að vera einhleyp er akkúrat þetta – að nota tímann í sjálfa sig! Ef á ströndu þína skolar einhvers konar maki er sá hinn sami heppinn, því hann fær fínpússaða og sátta útgáfu af sjálfri þér!

2. Ekki vera öfundsjúk

Það getur verið erfitt að hemja öfundina þegar þú sérð alla vini þína og fjölskyldumeðlimi í ástríkum samböndum þegar þú ert ein. Manni getur liðið eins og einmaka, makalausu dýri um borð í Örkinni hans Nóa. Þú ert þó alls ekki ein! Ekki leyfa öfundsýkinni að ná tökum á þér – hún bætir líf þitt ekki á neinn hátt heldur rænir af þér tíma og tilfinningum og gerir lítið úr því góða sem þú átt í þínu lífi!

3. Frelsið er yndislegt…

Söng fræg sveit hér forðum. Langar þig í jógatíma kl 21 á mánudegi? Langar þig að skreppa á Esjuna í hádeginu á laugardegi? Langar þig að verja heilum degi í að sortera naglalökkin þín? Auðvitað er gaman að deila upplifun og reynslu með öðrum, en það er líka dásamlegt að gera NÁKVÆMLEGA það sem þú vilt og þegar þú vilt það.

4. Gerðu það sem þú vilt

Viltu prófa að vera rauðhærð/ljóshærð/dökkhærð? Snoða þig eða fara í hárlengingar? Viltu mála stofuna bleika eða veggfóðra með Spidermanblöðum? Leggja fyrir og borða gúrku í kvöldmat? Verandi einhleypur kallar ekki á þetta eðlilega tillit sem sýna þarf í sambandi.

5. Lærðu að meta lífið í núverandi mynd

Við eigum það til að gleyma að kunna að meta lífið eins og það er núna. Oft erum við að bíða eftir breytingum, bíða eftir stöðuhækkun, bíða eftir helginni, bíða eftir að missa 6 kíló… eins og að lífið og við sjálf verðum eitthvað ALLT öðruvísi um næstu helgi eða örlítið léttari. Lífið er núna, lærum að meta það.

6. Þolinmæði er dyggð

Það tekur tíma að finna einhvern, falla fyrir honum, rækta sambandið og gefa sér tíma til að koma nýjum aðila fyrir í lífinu. Vertu þolinmóð og mundu að grasið er ekki endilega grænna hinu megin. Það er grænna þar sem því er sinnt J

 

SHARE