7 hlutir sem þú munt sjá eftir, eftir 7 ár

Auðvitað vill maður forðast að gera hluti sem maður veit að maður mun sjá eftir. Stundum áttar maður sig ekki endilega á mistökunum þegar þau eru að gerast og stundum áttar maður sig ekki á því hvað mistökin eru stór. Hér eru 7 hlutir sem þú munt sjá eftir eftir 7 ár.

1. Að nota ekki sólarvörn

Það er kannski vesen að nota sólarvörn. Tekur tíma að smyrja þessu á, hún getur verið feit og flókin og er þar að auki enn einn kostnaðarliðurinn. En að sleppa henni getur haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar á borð við húðkrabbamein. Og svo eru það hrukkurnar. Að nota ekki sólarvörn er eitthvað sem þú kemur til með að sjá eftir og mögulega hugsar þú tilbaka einn daginn, til þess tíma sem þú lást á sundlaugarbakkanum á Bodrum með glimmerolíu til þess að ná sem dýpstu tani. Mikil mistök.

2. Reykingar

Reykingar verða fljótt ljótur ávani. Fyrst um sinn hugsarðu eflaust: ‘Iss hvað gera nokkrar á djamminu? Skiptir engu máli!’. En þessi ljóti ávani verður fljótt ávanabindandi og innan skamms ertu þræll sígarettunnar. Heilsufarslegar áhættur reykinga ætti ekki að þurfa að útlista árið 2014, en það er með ólíkindum hvað ungt fólk virðist skella skollaeyrum við.

3. Að brenna allar brýr – í faglegum skilningi

Þegar maður er nýkominn á vinnumarkaðinn að loknu námi er mikilvægt að afla tengiliða og viðhalda góðu tengslaneti. Það er ekki gáfulegt að leyfa tilfinningunum að taka yfir ef þú hættir eða er sagt upp. Þú gætir þurft að fá meðmæli frá fyrrum vinnuveitanda eða samstarfsaðila. Þar að auki er þetta lítið land – marga sem þú hittir á leiðinni upp, gætir þú hitt á leiðinni niður.

 4. Of mikið djamm

Flestir, ef ekki allir, taka þátt í djamminu í einhvern tíma. Flestir minnka þó djammið með tímanum af því þeir sjá hversu innantómt það getur verið til lengdar. Áfengisdrykkja og/eða fíkniefnanotkun hefur neikvæð áhrif á útlit fólks og getur haft áhrif á persónuleg sambönd og vinnuna. Ef þú átt í erfiðleikum með að hætta að drekka eða nota fíkniefni skaltu leita þér aðstoðar.

5. Stefnuleysi

Það er auðvelt að festast í því fljóta stefnulaust í gegnum lífið. Að velta framtíðinni ekki fyrir sér eru mistök. Ef þú setur þér ekki markmið muntu aldrei ná þeim og líklega ekki ná langt yfir höfuð. Settu þér markmið fyrir einkalífið og vinnuna. Þú munt ekki sjá eftir því.

6. Óhollt mataræði

Það er freistandi að borða óhollt. Þú kemst þó ekki upp með það mjög lengi og þú munt sjá eftir því. Óhollt mataræði hefur margvísleg slæm áhrif á líkama þinn. Útgeislun minnkar og líklega spretta upp bólur hér og þar. Þú gætir átt í erfiðleikum með vigtina og það er enginn barnaleikur að koma sér aftur í form.

7. Að njóta ekki lífsins

Þetta er líklega stærsta eftirsjáin. Fólk er gjarnan svo upptekið við að koma sér í gegnum daginn, vikuna, mánuðinn, árið, að það gleymir að njóta lífsins. Lífið er uppfullt af frábærum augnablikum sem vert er að huga að. Fékkstu frábæran kaffibolla á kaffihúsi í morgun? Hrósaði afgreiðslukonan í búðinni þér fyrir fallegan fylgihlut? Stóðstu þig extra vel í vinnu og/eða skóla? Njóttu þess, lífið er núna!

 

Eftir hverju heldurðu að þú munir sjá eftir 7 ár?

 

 

SHARE