Líf að loknu brjóstnámi: Hver sagði að þú þyrftir að hafa tvö?

“Hrífandi, ögrandi og byltingarkennt” eru þau lýsingarorð sem koma í hugann þegar afrakstur samstarfsverkefnis nokkurra finnskra tískuhönnuða ber á góma, en tilefnið var að hanna allsérstæðan og vogandi sundfatnað fyrir konur sem hafa barist við brjóstakrabba og borið sigur úr býtum; uppskorið lífið að launum en glatað brjósti í baráttunni. 

Verkefnið, sem ber heitið Monokini 2.0, hefur töfrandi yfirbragð og er hugarsmíði finnska listafólksins  Tärähtäneet Ammät og Nutty Tarts, en hönnunin sjálf skorar á fagurleitan en ögrandi máta ríkjandi viðhorf um fegurð kvenna á hólm og varpar samtímis upp þeirri áleitnu spurningu “hvað þyki viðeigandi og sé talið fagurt”.

Það er rétt; Monokini 2.0 er sundfatalína fyrir konur á öllum aldri – verkefnið að vísu er enn á tilraunastigi og í raun skúlptúr meir en söluvara – en varan var engu að síður sett fram með sérstakan markhóp í huga. Konur sem hafa tekist á við krabbamein og misst annað eða jafnvel bæði brjóstin. Hér er á ferð heillandi tímamótahönnun sem er ögrandi, sterk og kvenleg allt í senn. Við látum myndirnar tala sínu máli.

MARJAANNA 
Hönnun: Sasu Kauppi

“Krabbameinið boraði holur í beinin á mér og svipti mig brjóstinu, en það er allt og sumt. Ég hleypi krabbanum ekki inn í huga minn og leyfi sjúkdómnum ekki að stela öllu því sem er dýrmætt innra með mér. Svo oft hefur fólk sagt mér að “ég sé svo hugrökk” en hér í þessari myndatöku þá fann ég og skynjaði það í fyrsta sinn. Mér fannst ég hugrökk. Til eilífðarinnar og endaloka heimsins.”

 Marjaana_monokini2

CAMILLA
Hönnun: Timo Rissanen

 “Þegar ég heyrði af þessu verkefni vissi ég að ég YRÐI AÐ taka þátt! Ég vissi að ég yrði að skora sjálfa mig á hólm með þessu móti, ég bara yrði að gera það. Við höfum verið að fylgjast með Top Model þættinum svo lengi og höfum horft á svo margar seríur, ég og börnin mín. Og það virðist svo einfalt að ná góðri mynd … svo þetta var ótrúlega skemmtilegt verkefni að prófa og í raun að læra hvað það er í raun og veru að sitja fyrir. Ég lærði strax að það eitt að sitja fyrir er ekki auðvelt, það var meira að segja erfitt að hagræða sér í einfaldri uppstillingu. Þetta snýst að leggja sál sína í verkefnið, annars verður myndin bara ekki góð. Bara alls ekki. En ég elskaði verkefnið! Teymið sjálft hjálpaði mér að slaka á og það var skemmtilegt að vinna með þeim. Takk fyrir að leyfa mér að taka þátt í verkefninu og vitið þið bara hvað, ég elska þessa ljósmynd af sjálfri mér!” 

 Camilla_monokini21

ELINA
Hönnun: Elina Halttunen

“Ég vil ekki fara í felur. Ég vil ekki hætta að fara í sund. Ég vil ekki undirgangast rándýrar og flóknar, áhættusamar lýtaaðgerðir og ég vil ekki beygja mig undir þann þrýsting að notast við gervibrjóst þegar ég baða mig á ströndinni. Ég vil vera jafn frjáls og atorkusöm og mér er unnt, rétt eins og mér leið áður en ég fékk krabbameinið og Monokini 2.0 er einmitt sú hönnun sem veitir mér hugrekki til að gera einmitt það.”

Elina 

 

VIRVE 
Hönnun: Tyra Therman

 

“Það var mögnuð lífsreynsla að öðlast tækifæri til að taka þátt í jafn mögnuðu verkefni. Ég vona að mín þáttaka eigi eftir að veita þeim kynsystrum mínum sem eru í sambærilegum sporum styrk og hugrekki. Að lifa með einu brjósti getur verið alveg æðisgengið!”

 

Virve_monokini2 

 MILSSE 
Hönnun: Tarahtaneet Ammat

“Þáttakan í verkefninu hefur gefið mér ómældan styrk og ég er ykkur þakklát fyrir það! Ég vona heitt og innilega að þessar myndir muni verða öðrum styrkur og innblástur; að aðrir muni finna í seríunni það hugrekki sem þarf til að staðfesta eigið ágæti. Allir eru nefnilega fullkomnir rétt eins og þeir eru!”

 

Milsse_monokini2

 

SIRPA 
Hönnun: Tarahtaneet Ammat

“Gegnum langa og á tíðum stranga baráttu mína við brjóstakrabbann, verður að segjast að Monokini 2.0 verkefnið skipti sköpum. Og þetta hefur verið ótrúlega mögnuð reynsla. Ég vona að ljósmyndin af mér muni veita öðrum konum sem hafa undirgengist brjóstnám styrk, aukna trú og hugrekki; kvenleiki snýst ekki bara um brjóst (eða skort á þeim). Ég vona að með tilkomu þessa verkefnis muni umræðan um þetta málefni opnast og verða auðveldari í umræðu, eðlilegri í nálgun.”

Sirpa_monokini2 

Á vefsíðu verkefnisins er að finna eftirfarandi kynningartexta þeirra sem að verkinu standa, en orðin ein hljóta að hreyfa sterkt við öllum þeim sem láta sig málið varða; hafa undirgengist brjóstnám eða hafa fylgt nákomnum ættingja / ástvini gegnum hið erfiða ferli sem fylgir því að greinast í upphafi með krabbamein í brjósti og leggjast að lokum undir hnífinn í þeim tilgangi að láta fjarlægja meinið og brjóstið um leið. Hér fer sá kynningartexti sem má finna á vefsíðunni:

“Við erum þeirrar skoðunar að sú viðurkennda hugmynd að kona þurfi og verði að undirgangast endurbyggingu brjósta að loknu brjóstnámi til að geta lifað fullu og óskertu lífi, sé í raun falshyggja og endurvarpi þráhyggjukenndri brjóstahyggju sem tengist þeirri ímynd sem umheimurinn hefur af konum. Við viljum með þessu verkefni kynda undir jákvæða sjálfsmynd kvenna sem hafa undirgengist brjóstnám með því að sýna að konan getur verið heilsteypt, falleg og kynþokkafull með eitt brjóst eða jafnvel með engin brjóst. Annað en engu ómerkilegra markmið okkar er að grafast fyrir um siðferðisleg boð og bönn um hvað er talið æskilegt og siðlegt – með því að afhjúpa eitthvað sem er ekki til staðar. Það eitt að sjá bert brjóst er talið merki um nekt – því er það þá svo að það að sýna ekkert brjóst er líka talin vera nekt? 

Til að skoða fleiri myndir og heimsækja sjálfa vefsíðuna. smellið HÉR

SHARE