Það er ekkert leyndarmál að „lingóið” á landsbyggðinni getur einskorðast við ákveðin byggðarlög, hljómar jafnvel kunnuglegt í eyrum heimamanna en óskiljanlega fyrir aðfluttum. 

Óvenjulegra er þó að sjá og rekast á athugasemdir bæjarbúa á opinberum miðlum, en Ástmar Sigurjónsson, íbúi á Sauðarkróki setti inn bráðfyndna auglýsingu í Sjónhornið fyrir skemmstu sem leit svona út og var ætluð til að vekja heimamenn til vitundar:

 

 

 

sauåkarkræokur

 

 

„Við hjónin erum bæði aðflutt, og höfum séð það að Sjónhornið er helsti miðillinn til að sjá hvað er í gangi í firðinum. En við höfum oft rekið okkur á eftirfarandi upplýsingar „á sama stað og í fyrra“, „á gamla góða staðnum“, „í Gúttó“, „Á flæðunum“ – segir Ástmar á Facebook síðu sinni, þar sem hann deilir myndinni og vísar þar til óskiljanlegra tilvísana heimamanna í þjónustu og aðstoð við bæjarbúa.

 

Hvar er eiginlega „gamla, góða staðinn” að finna?

„Við hjónin erum bæði aðflutt, og höfum séð það að Sjónhornið er helsti miðillinn til að sjá hvað er í gangi í firðinum. En við höfum oft rekið okkur á eftirfarandi upplýsingar „á sama stað og í fyrra“, „á gamla góða staðnum“, „í Gúttó“, „Á flæðunum“ heldur Ástmar áfram, en svo virðist sem hann hafi fengið sig fullsaddan af óbeinum skilaboðum, ruglingslegum tilvísunum og jafnvel úr sér gengnum staðarnöfnum sem einunigs eru kunnug eldri íbúum bæjarins.

 

„Við ókum því bara suður til að kaupa jólatré …..”

„Þeir sem ólust ekki upp hérna hafa ekki hugmynd um hvar þessir staðir eru, og oft er símanúmer ekki einusinni með til að maður geti aflað sér upplýsinga.” segir Ástmar einnig. „Fyrstu jólin okkar kom auglýsing í Sjónhorninu um jólatrjásölu, þar stóð: „Á sama stað og í fyrra“ og ekkert símanúmer, við áttum leið suður og keyptum því jólatréið okkar þar, því við höfðum ekki hugmynd um hvar við áttum að leita hér í firðinum.”

 

Rétt náðu í skottið á barnaleikriti sem var sýnt í „Litla skógi”

Ástmar lætur ekki þar við sitja heldur lætur gamminn geysa: „Fyrir skemmstu var auglýst barnaleikrit „í Litla skógi“ engar frekari upplýsingar um staðsetningu. Þetta örnefni höfðu hvorki ég né konan mín heyrt, hún notaði fésið til að komast að þessu og rétt náði leikritinu.

 

„… en það vissu bara allir af þessu?”

Þá lýsir Ástmar yfir réttmætum áhyggjum vegna óljósra vegvísa sem hann telur geti hamlað þjónustu innan bæjarmarka og segir ekki nema von að aðkomufólk eigi erfitt um vik: „Þegar upplýsingaflæði er lítið sem ekkert er afskaplega erfitt fyrir aðflutta að komast inní samfélagið, við höfum líka rekið okkur á að hlutir eru ekki auglýstir „það vissu bara allir af þessu“.

 

Vonar að bornir og barnfæddir vakni til vitundar um stöðu aðfluttra

Ástmar klykkir út með þeim orðum að staðan sem blasir við aðkomufólki geti verið ruglingsleg, ef ekki fráhrindandi á tíðum: „Það sem ég er semsagt að benda á með þessari auglýsingu er að upplýsingaflæði í auglýsingum hérna má stórbæta, nema Skagfirðingar vilji hreinlega ekki sjá aðflutt fólk hérna, ef það er staðan væri eitt upplýsingaskilti á þann veg á sýslumörkunum nóg.”

 

Við getum þá aðeins vonað að Sauðkrækingar taki vel í auglýsingu „Adda Sig” eins og hann skrifar undir Facebook tilkynningu sína, sem lesa má HÉR  og að opinbert orðfæri Skagfirðinga taki á sig skýrari mynd innan tíðar.

SHARE