9 ára stúlka kærir foreldra sína fyrir hassreykingar

Níu ára gömul stúlka setti fótinn í gólfið fyrir skömmu, stormaði einsömul inn á nærliggjandi lögreglustöð í Barnesville, Minnesota og lagði fram sláandi kæru á hendur foreldrum sínum.

Efnisatriðin: Foreldrar stúlkunnar reyktu, ræktuðu og seldu kannabis í svo miklum mæli að stúlkunni var nóg boðið. Stundum, samkvæmt barninu, blésu foreldrar hennar reyk upp í munn heimilishundsins og það sagði stúlkan lögreglunni að gæti hreint út sagt verið stórhættulegt.

Enginn vafi leikur á því að litla stúlkan, sem virðist búa yfir ómældu hugrekki, þurfti að taka allhressilega á honum stóra sínum áður en inn á lögreglustöðina var komið en samkvæmt upplýsingafulltrúa lögreglunnar virtist stúlkan vita hvaða afleiðingar gjörðir hennar gætu haft en að henni þætti sem nóg væri komið og að það væri hennar skylda að tilkynna athæfi foreldra sinna áður en verr færi.  

Nafni stúlkunnar er eðli málsins samkvæmt haldið leyndu, en samkvæmt talsmanni var stúlkan fullorðinsleg í fasi og var einnig vel kunnug útliti kannabis plöntunnar og þeirra hluta plöntunnar sem valda vímu. Eftir stuttlega yfirheyrslu var farið að heimili stúlkunnar þar sem áhöld og efni til neyslu fundust eftir stuttlega leit og þar á meðal mannhæðarháar plöntur sem ætlaðar voru til neyslu.  

Litla stúlkan dvelur á heimili sínu sem stendur, en málsmeðferð stendur yfir og er óvíst á þessu stigi máls, hvort henni verður komið í fóstur eða hvort foreldrar hennar halda forræðinu.  

Erfitt er að ímynda sér hvað fékk litlu stúlkuna til að banka upp á hjá lögreglunni en foreldar hennar hafa lofað bót og betrum svo fjölskyldunni verið ekki stíað í sundur og litlu stúlkunni, sem ljóstraði upp um óábyrgt athæfi uppalenda sinna, verði ekki komið fyrir hjá vandalausum.    

Good Morning America – Yahoo News

SHARE