Á framabraut hjá þýsku stórfyrirtæki

Katrín Edda var dugleg að rífa sjálfa sig niður og telja sér trú um að hún væri vitlaus. Í mastersnáminu sínu öðlaðist hún hins vegar sjálfstraust sem hefur gefið henni styrk til að takast á við krefjandi verkefni. Hún heldur úti vinsælu snapchati og er orðin ein helsta fyrirmynd ungra stúlkna á Íslandi í dag.

 

Katrín Edda Þorsteinsdóttir, orku- og vélaverkfræðingur hjá Bosch í Þýskalandi, hefur vakið mikla athygli á Snapchat síðasta árið, en hún er með um 15 þúsund fylgjendur. Hún er orðin ein helsta fyrirmynd íslenskra stúlkna á margan hátt, þá sérstaklega þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl og sjálfsstyrkjandi hugsunarhætti. Hún er nú stödd í fríi á Íslandi og hvar sem hún fer kemur einhver og biður um mynd af sér með henni – sem hún leyfir með glöðu geði.

En þó Katrín birtist fylgjendum sínum á snapchat sem sjálfsörugg ung kona í dag þá hefur hún svona sannarlega ekki alltaf verið í þeim sporum. Það eru ekki nema nokkur misseri síðan hún hætti að rífa sjálfa sig niður og sífellt hugsa hvað hún væri vitlaus. Hún er einmitt dugleg að miðla því hvernig henni tókst að losa sig við sjálfseyðandi hugsunarháttinn og fór að trúa á sjálfa sig.

Varð allt í einu fyrirmynd

Eins undarlegt og það kann að hljóma var það þó súkkulaðiát sem átti einna stærstan þátt í að gera hana svo vinsæla á snapchat. „Ég borða oft mikið af súkkulaði en er samt alltaf í góðu formi og í fyrra heyrði ég orðróm um að ég væri með búlimíu. Ég ákvað því að taka þetta fyrir á snapchat og sagði frá því að ég hefði verið með átröskun frá því ég var 13 til 16 ára sem ég náði tökum á. En væri nú meðvituð um hvað ég borðaði. Stundum borðaði ég mikið af súkkulaði, en ég gerði það ekki á hverjum degi. Þess á milli væri ég mjög dugleg að æfa og að borða hollan og hreinan mat. Ég sagði Íslendinga alltof mikið í því að gera lítið úr fólki í stað þess að hrósa.“ Eftir þessa ræðu Katrínar á snapchat varð sprenging í fjölda fylgjenda hennar. Það voru svo margir sem tengdu við það sem hún var að segja og langaði að vita meira um þessa skeleggu stúlku.

„Ég fékk svo mikið af skilaboðum með allskonar lífsreynslusögum og ég táraðist yfir þessum viðbrögðum og sögurnar tóku á mig. Þetta voru stelpur frá tíu ára aldri og mömmur sem voru að hafa samband við mig. Þarna sá ég að ég gæti verið fyrirmynd og fór að tala meira um hvernig ég væri og hvað ég hefði gert til að komast á þann stað sem ég er í dag,“ segir Katrín en hún reynir að svara flestum sem hafa samband við hana, sérstaklega ef viðkomandi líður illa eða er óánægður með sjálfan sig.

Gerði eins og aðrir sögðu

Katrín var nefnilega þannig sjálf. Hún átti líka erfitt með að taka ákvarðanir. Fannst einfaldast að elta aðra eða fylgja leiðbeiningum um hvað hún þyrfti að gera til ná árangri í lífinu. „Ein vinkona mín fór í Versló og ég ákvað að fara líka. Mig langaði eiginlega mest í MH því bróðir minn var þar, en svo var enginn sem ég þekkti að fara þangað. Fyrrverandi kærastan hans mælti einmitt með því að ég færi á náttúrufræðibraut því það væri svo góður grunnur. Þannig ég ákvað að gera það. Ég komst svo fljótlega að því að áhugi minn lá í raun þar. Ég hafði engan áhuga á hugvísindum. Ég fór líka í iðnaðarverkfræði eins og hún. Því mér var sagt að það væri gott að læra verkfræði.“ Þar kynntist hún fjórum stelpum sem í dag eru hennar bestu vinkonur. Þær lærðu alltaf saman í BS náminu og Katrín segir það alveg hafa bjargað sér, enda var hún líka að keppa í fitness á þessum tíma og starfaði á þremur vinnustöðum.

„Ég fékk að oft að heyra að ég væri ofvirk og að ég hlyti að vera mjög skipulögð. Ég er vissulega mjög ofvirk en ég er alls ekki skipulögð. Ég geri bara það sem til þarf til að ljúka við þau verkefni sem ég tek mér fyrir hendur. Ég var frekar glöð á þessum tíma, þó ég væri mjög upptekin. En ég get vakað frekar mikið og samt haldið athygli,“ útskýrir hún.

Hvetjandi leiðbeinadi

Sá hæfileiki kom sér einmitt líka vel síðari hluta meistaranámsins, þegar Katrín þurfti helst að vera á nokkrum stöðum í einu. „Þegar ég var hálfnuð með námið þá áttaði ég mig á því að ég þurfti að fara í starfsnám. Ég frétti að Bosch væri góður staður fyrir það og sendi umsóknir á allar deildir. Það sem ég vissi reyndar ekki var að venjulega tæki fólk sér frí frá náminu á meðan það væri í starfsnáminu, og námið væri því í raun tvö og hálft ár. Þannig ég tók þetta með náminu,“ segir hún hlæjandi.

Katrín komst í starfsnám í framleiðsludeild hjá Bosch, þrátt fyrir að það tengdist náminu hennar ekki beint. En hún fékk frábæran leiðbeinanda sem átti eftir að hafa mjög jákvæð áhrif á líf hennar. Þá þurfti hún líka að fara að taka sjálfstæðar ákvarðanir, sem henni fannst mjög erfitt í fyrstu.

„Ég var kannski beðin um að hækka hillu og ég hljóp til yfirmanns míns og sagðist ekki vita hversu mikið ég ætti að hækka, þó það skipti í raun ekki máli. Það voru alltaf koma upp svona ómerkilegar ákvarðanatökur sem skiptu engu máli, sem mér þóttu mjög erfiðar. Svo var ég alltaf að rífa mig niður, segja sjálfri mér að ég væri að gera þetta allt vitlaust. En yfirmaðurinn minn var mjög duglegur að „peppa“ mig, segja að ég væri mjög klár og ég gæti alveg gert þetta. Ég hefði alla burði til að ná mjög langt.“

Var hreinskilin í starfsviðtali

Hún fann það á þessum tíma að hugsunin hennar var að styrkjast. „Ég vissi vel að ég væri ekki heimsk. Smám saman fór ég að geta sagt sjálfri mér að ég gæti þetta alveg.“

Leiðbeinandinn bauð henni svo að vera verknemi í Bosch og mæta einu sinni í viku á meðan hún væri að gera mastersverkefnið sitt. „Þá var ég ennþá inni í fyrirtækinu og meiri líkur á því að ég gæti fengið vinnu innan Bosch í framtíðinni,“ útskýrir Katrín sem fékk svo framtíðarstarf hjá fyrirtækinu skömmu áður en hún lauk náminu.

Hún er mjög stolt af því hvernig hún tæklaði starfsviðtölin, enda fannst henni hún loksins vera tilbúin að takast á við krefjandi starf.
„Ég var svo vel undirbúin fyrir starfsviðtalið. Eftir að hafa talað við leiðbeinandann minn í verknáminu þá fannst mér ég geta allt. Í viðtalinu lýsti ég því nákvæmlega hvernig ég væri og laug engu. Það er týpískt að vera spurður út í galla í atvinnuviðtali og þegar sú spurning kom þá var ég bara hreinskilin. Ég reyndi ekki að segja að væri með of mikla fullkomnunaráráttu, sem er týpískt svar. Það er alls ekki ég. Ég geri allt vel, en er aldrei að dútla við síðustu slaufuna. Ég geri hlutina hratt og vel. Ég sagði að minn helsti galli væri að ég ætti það til að vera óákveðin, en ég væri búin að vinna virkilega mikið í því. Að taka ákvarðanir og vera óhrædd við að gera mistök. Ég sagðist hafa gert mörg mistök í gegnum ævina en samt væri ég komin á þennan stað. Svona viðtal snýst svo mikið um að kynna sjálfan sig rétt og það er mikilvægt að koma hreint fram.“

Einkunnir skipta ekki öllu

Katrín segist oft vera spurð að því hvort hún hafi ekki þurft að vera með rosa góðar einkunnir til að fá vinnu hjá Bosch, en hún segir það alls ekki málið. Hún hafi vissulega verið með ágætis einkunnir, en það hafi klárlega ekki haft úrslitaáhrif. „Þeir báðu um einkunnaspjaldið mitt en ég var örugglega með lægri einkunnir og verri mastersritgerð en margir aðrir umsækjendur, en samt fékk ég vinnuna. Samt er ég búin að fá stöðuhækkanir síðasta árið og endalaust hrós fyrir mín störf.“

Þegar hún var komin með starfið vissi hún reyndar ekkert hvað hún var að fara að gera. „Ég hélt að þau byggjust við því að ég vissi allt um bílvélar. Svo áttaði ég mig á því að þau voru að ekki að leita manneskju sem kynni allt sem þurfti að gera, heldur manneskju sem gæti lært það. Ég hef líka fengið mjög mikla hvatningu innan fyrirtækisins, sem er nýtt fyrir mér,“ segir Katrín sem er nú orðin mjög dugleg að taka af skarið í vinnunni og koma með hugmyndir. Eitthvað sem hún gat ekki fyrir nokkrum árum. Það hefur borgað sig því hún er nú farin að stýra verkefni sem teygir anga sína til Indlands og er hún einmitt að fara þangað í vinnuferð í ágúst.

Katrín á snapchat: katrinedda1

Mynd/Rut

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE