Að eiga barn með öðrum en maka – „Þú ert svo góð að leyfa henni að vera svona mikið með pabba sínum“

Mig langar að koma smá á framfæri eftir að hafa lesið mjög margar foreldra greinar bæði frá mömmum og pöbbum. Ég og barnsfaðir minn vorum búin að vera saman í tæpt ár þegar að ég varð ólétt af eldri dóttur minni sem er 2ja ára og nokkurra mánaða í dag.

Við hættum saman þegar að ég var komin tæpa 3 mánuði á leið og ég byrjaði að tala við annan strák meðan að ég var ólétt komin þá um 5 mánuði og hann byrjaði að tala við aðra stelpu á sama tíma sem var þá líka bara nýbúin að pissa á prik liggur við.

Við vorum alveg fínir vinir og allt, og engin afbrýðisemi nema hann var alveg smá pirraður yfir því að ég var að tala við þennan strák því þetta var æskuvinur hans (ég reyndar vissi það eiginlega ekki því að hann hafði aldrei talað við hann á meðan að við vorum saman og ekki verið að hafa samband við hann eða hitta hann). Ég skil það svo sem, en samt sem áður vorum við alveg fínir vinir en hann hélt allan tímann þegar að ég var ólétt að ég vissi ekki að hann væri að tala við þessa stelpu en ég vissi betur. Hún mætti í skírnina hjá stelpunni sem „vinkona“ hans. Mér fannst þetta eiginlega bara fyndið því að hann sagði að vinur hans væri að bjóða henni með.

En allavega, stelpan byrjaði í pabbahelgum mjög snemma og allt gekk semí vel eða svona samt soldið brösuglega, oft verið að skipta um helgar eða ekki hægt að taka hana en samt sem áður voru, og eru, svo góð þegar að þau taka hana. Núna er búið að tala við sýslumann bara uppá öryggið og ég trúi ekki öðru en að þau taki hana á réttum tíma eins og oftar en ekki hefur verið gert. Þegar ég segi brösuglega þá höfum við alveg líka beðið um að skipta um helgi eða álíka.

Þegar að stelpur eru pirraðar úti barnsföður sinn og vilja að hann hitti aldrei barnið þá skil ég það svo vel þar sem mér hefur oft dottið í hug að sleppa öllum pabbahelgum og fá hana bara fyrir mig og engan annan, en hann er pabbi hennar og það er réttur barnsins að kynnast báðum foreldrum.

Þegar að ég var að byrja að tala við núverandi unnusta minn, fékk ég mjög svo leiðinleg skilaboð á Facebook að ég væri drulsa, miskunnarlaus, að ég væri að sofa hjá öðrum meðan að ég var ólétt eftir annan, sem var í rauninni ekki satt á þeim tímapunkti, og fullt af svona. Hinsvegar núna fæ ég:

-finnst þér ekki leiðinlegt að dóttir þín kallar hana mömmu?

-finnst þér ekki leiðinlegt að hann sé að ala upp annað barn með henni sem er ekki hans?

-finnst þér ekki leiðinlegt að þið séuð ekki saman sem fjölskylda?

Jú auðvitað var ekki ætlunin að ala barnið upp í sitthvoru lagi en við eigum bara alls ekki saman þannig ég er mjög ánægð með þetta einsog þetta er. Mér líður eiginlega bara betur með að dóttir mín kalli hana mömmu því að það merkir bara að hún sé það góð við hana að hún sé búin að vinna sér það inn að vera kölluð þessur stóra nafni. En auðvitað vil ég helst vera bara kölluð mamma en hún er búin að alast upp hjá mér og unnusta mínum sem hún kallar pabba og svo hjá pabba sinum og þessari stelpu sem auðvitað verður mamma hennar, mér finnst þetta alls ekkert erfitt. Frekar bara ánægð.

Hún á aðra systur hjá þeim sem hún gjörsamlega elskar alveg útaf lífinu alveg eins og hun elskar systur sína sem hún á hérna heima. Mér finnst yndislegt eins og núna um helgina fór hun til pabba síns og þau komu í húsdýra og fjölskyldugarðinn á sunnudeginum og hittu okkur og við röltum öll saman í gegn með allar 3 stelpurnar og það var æðislegt að stelpan okkar fengi að sjá að allir væru vinir og hún gæti kallað okkur báðar mömmur og þá báða pabba.

Og útí eitt annað.
Þegar hún var yngri og fór til pabba síns og ég kannski út með vinum eða eitthvað álíka þá fékk ég oft „bíddu hvar er stelpan þín?“. Ég svaraði bara með því að segja að hún væri með pabba sínum yfir helgina og þá kom oftar en ekki VÁ HVAÐ ÞÚ ERT GÓÐ AÐ LEYFA HONUM AÐ HAFA HANA YFIR HELGI!!!

Bíííídddu er þetta ekki pabbi hennar??? hann á alveg jafn mikinn rétt og ég að hitta barnið!

Það er alltaf verið að tala um sama rétt fyrir feður og mæður! Hvað er þá að því að senda barnið sitt snemma í pabbahelgar? Leyfa pabbanum að fá barnið yfir helgi,  hann þarf sín tengsl alveg eins og mamman og að leyfa pabbanum að taka einhvern lengri tíma yfir sumarið.

Mæli með því að þær mæður sem hafa fengið svipaðar spurningar eða annað að skrifa hérna undir.

SHARE