Að flokka rusl er sparnaður fyrir budduna þína

Að flokka rusl er ein tegund umhverfisstjórnunar og á við bæði um heimili og fyrirtæki.  Í slíkri flokkun felst almennt sparnaður fyrir bæði ríki, sveitarfélög og þar með okkar eigin buddu.

Nú er almennt farið að flokka allt rusl í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og á flestum stöðum á landinu.  Þetta krefst að sjálfsögðu smávægilegra breytinga á heimilinu sér í lagi í ruslaskápnum sem oftar en ekki er of lítill fyrir margar fötur sérstaklega í eldri innréttingum.  Í stað þess að nota eina tunnu sem öllu er hent í, notum við nú alla jafna þrjár eða fleiri, allt eftir því hvað fólk vill flokka mikið og er duglegt við flokkun.  Persónulega nota ég þrjár þar sem fleiri tunnur komast ekki inn í skápinn hjá mér og telst ég eflaust heppin þar sem minn skápur er ágætlega breiður.  Ég fékk þessar fínu þrjár tunnur í Ikea sem ég nota en þær eru ílangar og mjóar og komast hlið við hlið.  Fara ágætlega í skápnum og svo nota ég umhverfisvæna poka í þær.  Ég hef eina tunnu fyrir pappa, aðra fyrir plast og þá þriðju fyrir almennt rusl en hún á að vera galtóm ef maður fer vel með og flokkar af kostgæfni.  Ég er reyndar ekki svo dugleg ennþá en er að vinna í því.  Margir telja það hins vegar draumsýn eina að almenna heimilissorptunnan verði tóm.  En ef maður setur sér það markmið að henda ekki mat og þar með versla ekki meira inn en maður notar án þess að það skemmist, þá ætti það alla vega að minnka verulega.  Ákveðið vandamál er með lífrænt sorp en sumir hafa komið sér upp svokölluðum safnkössum fyrir lífrænan úrgang en oft eru þeir vandamál í þéttbýli vegna lyktarmengunar og í þá sækja mikið af flugum.  Einhver sveitarfélög eru þó byrjuð að taka við slíku sorpi og nú síðast heyrast fréttir um slík áform héðan af höfuðborgarsvæðinu og forvitnilegt verður að sjá hvernig það þróast. Allar breytingar taka tíma og við smá lærum nýjar rútínur og venjur, viðmið og gilid.

Mjög gott er að skoða umbúðir þegar maður verslar inn og kaupa frekar vörur í endurnýtanlegum umbúðum því það minnkar til muna almenna ruslið okkar.  Spilliefni og perur sem alls ekki mega fara í almenna ruslið, þar sem hættuleg efni gætu komist í jarðveginn, geymi ég í sérstökum kassa í þvottahúsinu og fer með þegar ég á leið í Sorpu með eitthvað annað.  Mikilvægt er líka að nýta sér gáma frá Góða hirðinum í stað þess að henda nýtanlegum hlutum, þar sem þannig öðlast þeir framhaldslíf og aðrir fá að njóta.  Það sem einum finnst ónýtt eða gamalt vill annar gera upp og nota.  Eftir því sem minna rusl fer í almennu tunnuna er minna rusl að hreinsa frá húsinu og því minna fyrir sveitarfélagið að flytja og urða.  Urðun tekur bæði mikið og dýrmætt land og kostar peninga vegna nýtingu landsins, flutninga og urðunar.  Það er því þannig að hver sá sem heldur almennu rusli í lágmarki hjá sér er að spara sveitarfélaginu sínu fé sem aftur er sparnaður fyrir buddu íbúanna sjálfa.  Á sama tíma erum við að hugsa um umhverfið okkar og heilsu.

Grendargámar eru víða á höfuðborgarsvæðinu og má sjá kort af þeim hér.  Persónulega er ég svo heppin að grendargámar eru rétt hjá þar sem ég bý.  Ég fæ mér því göngu reglulega með pappa og endurnýtanlegt plast og losa í grendargámana.  Það sparar losun á ruslatunnunum í húsinu hjá mér. Allar plast og áldósir utan af drykkjarvörum fara auðvitað beint í Endurvinnsluna.  Smám saman nennir maður ekki öllum þessum umbúðum og vill helst bara halda á vörunni heim í lágmarksumbúðum eða innkaupapokum sem maður notar aftur og aftur.  Ég skal alveg viðurkenna að þegar ég fyrst byrjaði að flokka fannst mér þetta flókið.  Nú finnst mér þetta þægilegt enda yfirleitt engin vond lykt í ruslaskápnum og hann ávalt tiltölulega hreinn, enda öll ílát úr pappa og plasti skoluð áður en þau fara í tunnurnar.  Allt þetta getur auðvitað verið frekar flókið fyrir þá sem ekki búa svo vel að ferðast um á bíl eða geta gengið í grendargámana.  Það er vandamál sem sveitarfélög þurfa að leysa með einhverjum hætti og staðsetning grendargáma þarf að vera í göngufæri.  Með því að íbúar geta gengið er líka verið að spara eldsneyti og þá minni mengun vegna þess.  Það er hins vegar umhugsunarefni varðandi blaðaúrgang en fríblöðum er dreift inn um lúgur landsmanna án þess að um þau sé beðið.  Þetta kostar bæði mikinn úrgang og ferðir fyrir íbúa með pappírinn á Endurvinnslustöðvar eða í tunnur sem þarf að losa.  Hin hliðin er sú að allur þessi pappír sem margir líta ekki við og setja beint í tunnuna er efni sem unnið er úr auðlindum og því sóun á þeim þar sem blöðin eru ekki nýtt.  Ef blöð og pappír væri ekki borinn út nema umbeðinn mundi magn sem endurvinna þarf minnka til muna og spara þannig sveitarfélögum og okkur fé.  Einhverjir lesa þó ennþá blaðið með kaffinu sínu og það er hið besta mál og lítið mál að bera út blöð og pappír til þeirra sem það vilja.

Sú umhverfisvitund sem felst í því einfalda verki að flokka rusl á heimilinu er mikilvæg sér í lagi þegar horft er til þess að allt sem við kaupum kemur í umbúðum sem við þurfum síðan að henda.   Öll neysla okkar felur í sér rusl með einum eða öðrum hætti og er notkun á hinum ýmsu auðlindum hvort sem heldur er vegna umbúðanna, urðunar og ekki síst eyðing þeirra sem oft er mengandi þegar efni leysast úr læðingi.  Neysla sem felst í innfluttri vöru er líka notkun á gjaldeyri þjóðarbúsins svo ekki sé minnst á flutninginn yfir hafið í gegnum eldsneytisnotkun.  Allt sem við kaupum og borðum ekki, verður að rusli sem við borgum fyrir vegna förgunar og endurvinnslu.

Smá breytingar í nýtingu og notkun á efni sem notað er á heimilinu og í fyrirtækjum spara oft aura þegar saman er tekið.  Einfalt ráð er t.d. að prenta báðum megin á pappírinn og nota þannig helmingi minni prentpappír.  Það er þannig bæði ódýrara og umhverfisvænt í senn.  Ef pappír verður afgangs þá er tilvalið að rífa hann niður og setja í krukku og nota sem minnismiða.  Í dag eru hins vegar lang flestar tölvur, spjaldtölvur og símar með minnismiðum þar sem auðvelt er að skrifa niður innkaupalistann og minnislistann yfir verkefni dagsins í dagbókina.  Raftæki sem slökkva á sér þegar ekki er verið að nota þau spara líka rafmagn heimilisins svo eitthvað sé nefnt.  Það er þannig margt í okkar nánasta umhverfi sem við getum ýmist nýtt betur eða endurnýtt og með því bæði sparað okkur aurinn og hugsað um umhverfið í leiðinni.  Með því að hver og einn taki umhverfisstjórnun síns eigin heimilis til umhugsunar og auki þannig umhverfisvitund sína stígum við fljótt stór skref saman í umhverfismálum og sparnaði almennt.

Umhverfismál eru þegar upp er staðið ekkert annað en heilbrigðismál og efnahagsmál.  Ekki viljum við menguð matvæli sem valda skaða á heilsu okkar, sem aftur felur í sér dýran kostnað samfélagsins vegna reksturs heilbrigðiskerfisins og sorg vegna heilsutaps. Munum að allt sem við gerum hefur áhrif bæði á budduna og umhverfið og þannig má slá tvær ef ekki fleiri flugur í hverju höggi.

Gagnlegar upplýsingar um flokkun og staðsetningu grenndargáma má finna á heimasíðu Sorpu fyrir höfuðborgarsvæðið.

Hér má finna kort af staðsetningu grendargáma á höfuðborgarsvæðinu ásamt gagnlegum upplýsingum.

Vilborg frænka

Höfundur: Vilborg G Hansen, landfræðingur.

Hér getur þú fundið heimasíðu Umhverfisfrétta.

SHARE