Að glíma við ferðanjálg á lokastigi

Ég er að fara í sumarfrí til Spánar. Keypti flugmiðana í fyrra, fór í skoðunarferð ytra um páskana og prúttaði niður mánaðarleigu á lítilli íbúð. Nelgdi pleisið. Sennilega verð ég á sandölum með gos í brúsa, glottandi á bak við kaffihús og eltandi þá nýorðinn sjö ára gamlan Rassa. Æðandi um, móðurleg á svip, með fartölvu undir hendinni. Alein með barn í útlöndum að venju.

Kannski brennum við. Alla vega. Fjórar vikur. Ég og Rassi. Svo kem ég til Íslands. En bara í nokkra daga. Við búum í útlandi, þurfum að fara heim áður en skólinn byrjar. Það fylgir sólpallur með litlu íbúðinni. Ég er farin að búa mig undir spænskar samlokur, feitar vatnsmelónur og niðurskurðar-innkaup (hvað sem það nú merkir). Það eru enda mörg ár síðan ég hætti að fara í fylleríisferðir til útlanda. Nú til dags tek ég meðferðis þykkar náttbuxur, ullarsokka og smá sólarkrem.

Beach at Alicante in Spain.Þessi mynd er blekking ein, strandlengjan er umsetin af túristum á sumrin …

Þið megið öfunda mig. Ég hafði mikið fyrir ferlinu. Frá upphafi til enda. Leigði bíl, pírði augun, ók um allan suður-Spán, tók strætó – prúttaði við breskan kaupsýslumann, tafsaði á spænsku og hljóp á eftir Rassa. Að venju. Allt mitt líf snýst um að hlaupa á eftir Rassa.

flat,1000x1000,075,fÞessar götur mun ég hlaupa lafmóð eftir Rassa í heilar fjórar vikur í júlí.

Fólk heldur að ég sé ægilega rík. Bara vegna þess að ég bý í Noregi og er alltaf að kaupa mér flugmiða. Þeir hinir sömu skilja ekki að ég spara og nurla. Er áskrifandi að tilboðsfargjöldum. Staðgreiði allt og á engin kreditkort. Skammta aura.  Lifi á 10 evrum á dag í sólarlöndum. Tek langa göngutúra með barnið til að spara strætófargjaldið. Við gerðum einmitt það um páskana. Tókum þriggja kortéra langan göngutúr í nærliggjandi verslunarmiðstöð. Til að spara strætófargjaldið. Og lærðum að telja upp að fimmtíu á meðan. Eitthvað verður maður við að hafa meðan á göngunni stendur.

Svo skírðum við húsin. Með vatn í brúsa. Lafmóð í hitanum. Brosandi út að eyrum.

Ég vil meina að flest (ekki allt þó) sé hægt ef einungis viljinn er fyrir hendi. Ef ég hef lært eitthvað á öllu útlandabrölti mínu (vinur minn vill meina að ég sé með ferðanjálg á lokastigi) þá er það að Mest & Best heimspekin er löngu úrelt. Stórasta ferðalag í heimi er ekki til. Besta hótelið er leiðinlegt. Lítið er gott og það er gaman að vera fátækur. Það er skemmtilegt að leigja litla íbúð á sólarströnd í mánuð, kaupa smátt inn og sleikja sólina í einfaldleikanum.

10313039_10153092349321413_7012186985245541130_nRassi var svo glaður í síðustu Spánarferð að hann rann úr fókus. 

Eyða morgninum með sódavatn í hönd, hlæja út í kvöldið þó engin sé barnapían og mamman því lifandis löngu hætt að láta sér detta til hugar að flandrast á barinn – það er allt í lagi að eyða bara 10 evrum á dag og það er töff að leyfa sér þann lúxus að kaupa íspinna á ströndinni. Bara einn. Því tíu evrur eru takmarkið þann daginn.

 Sjá einnig: „What happens in Vegas“

Það er smart að taka með sér matpakka og lúið kælibox á ströndina. Slitinn stólræfil og mölétið handklæði. Það er allt í lagi að fara í bikiníið síðan í fyrra. Því þegar öllu er á botninn hvolft, ef brosið vantar – þá skipta öll heimsins gæði ekki nokkru máli.

Þið skiljið mig væntanlega. Hláturinn og barnslegt bros Rassa. Kútur á ströndinni og svo örfáar öldur. Tásur í vatni og smá sódavatn í laumi. Tíu evrur í poka. Að heyra barnið mitt hlæja. Að ganga steinilagðar götur. Það er lífið.

SHARE