Að hafa vit á því að þegja

Ég átti það til að stelast í kökuskrautið hennar mömmu þegar ég var 3-4 ára. Mér þótti það alveg sérstaklega gott og jafnvel þó að ég þyrfti að klifra upp á stól og teygja mig í efstu skápa þá lét ég það ekki stoppa mig í að komast í sætindin. Þetta fór ekki lítið í taugarnar á mömmu og einhvern daginn hélt hún langa ræðu um að það væri ljótt að stela. Seinna sama dag vorum við að versla og komin að kassanum, þar sem var nokkur röð af fólki. Mamma var í óða önn að raða vörum upp úr körfunni. Ég sneri mér að henni og sagði hátt og skýrt:

„Mamma, við þurfum ekkert að stela núna!“

Þekki ég mömmu rétt þá er næsta víst að hún hafi hugsað mér þegjandi þörfina.

Þannig mætti segja að ég eigi það til að tala fyrst og hugsa svo. Eða öllu heldur, tala fyrst og hugsa kannski einhvern tíma löngu síðar. Ég held að það sé kannski líklegri skýring á því hvernig þetta virkar. Mér hættir alltof oft til að láta eitthvað flakka án þess að gefa nokkurn gaum að aðstæðum eða hvort það sem ég er að segja kunni að vera móðgandi eða særandi fyrir einhvern. Ætli þetta sé ekki þessi óstjórnlega þörf fyrir að vera hnyttinn eða fyndinn?

Um daginn var stelpan okkar eitthvað pirruð við matarborðið. Hún kvartaði einhvern veginn yfir öllu og allt var ómögulegt. Hún vildi ekki borða og sama hvað henni var boðið þá var það ekki nógu gott. Mamma hennar reyndi að semja við hana en allt kom fyrir ekki. Að lokum gafst hún upp og sagði:

„Veistu, ég veit ekki hvað fer svona í taugarnar á þér, en nú hættir þú þessu nöldri. Ég hlusta ekki á þetta í þér. Þú tuðar bara og tuðar og gildir einu hvað ert gert fyrir þig, þú ert ekki ánægð með neitt.“

„Mikið eru þið mægður líkar,“ sagði ég algjörlega án þess að hugsa. Konan mín sneri sér að mér og það hefði verið hægt að rétta skeifur á andliti hennar, svo hart var augnaráðið sem hún sendi mér. Ég reyndi að brosa og bera í bætiflákann en allt kom fyrir ekki.

Það sem er kannski verst við þennan galla minn er að strákurinn minn er engu skárri. Það virðast engar hömlur halda honum, hann segir bara nákvæmlega það sem hann er að hugsa hverju sinni. Við buðum vinafólki okkar í heimsókn kvöldið sem lokakeppni Eurovision var. Sonur minn hafði nú ekki mikinn áhuga á keppninni sjálfri en þeim mun ákafari var hann í að raða gúmmíböngsum upp í sig og máttum við foreldrar hans hafa okkur alla við að halda honum frá nammiskálinni. Jæja, loks líður að lokum keppninnar og var sigurvegarinn kallaður á svið. Þá leit minn maður upp og rak í rogastans.

„Ha, ha, þessi kona er með skegg!“ hrópaði hann og skellihló.

„Nei, þetta er ekki kona,“ svaraði ég, „þetta er karl.“

„Er þetta karl? Í kjól?“ spurði hann.

„Já,“ svaraði ég.

„Af hverju er hann í kjól?“

„Af því bara,“ svaraði ég og vissi hreinlega ekki hvernig ég ætti að svara drengnum þannig að hann skildi mig. „Kannski vill hann bara vera stelpa.“

„Stelpa með skegg?“

„Já, ætli það ekki?“

„Af hverju?“

„Ég veit það ekki, vinur.“

„Vill hann í alvöru vera stelpa?“

„Já, karlinn minn.“

„Skrítið.“

„Já, það er margt sem kemur okkur spánskt fyrir sjónir og við ekki skiljum, vinur,“ sagði ég og fannst ég hafa náð að tækla þetta bara nokkuð vel. Að minnsta kosti betur en þarna við matarborðið fyrir nokkru.

Sonur minn leit á mig og brosti, svona eins og hann skildi mig fullkomlega.

Mánudaginn eftir ók ég honum í leikskólann og fylgdi honum inn. Við vorum varla stignir inn um dyrnar á deildinni hans þegar hann galar svo allir viðstaddir heyrðu:

„Pabbi minn er með skegg eins og stelpustrákurinn í Eurovision!“

Leikskólakennararnir litu allir sem einn á mig og eitthvað við vandlætinguna í svipum þeirra sagði mér að þetta væri ekki það síðasta sem ég heyrði af þessu máli.

„Pabba mínum fannst hann skrítinn, stelpur eiga ekki að vera spánskar fyrir sjómenn,“ bætti hann síðan við. Þá veifaði hann til mín og fór að leika sér. Ég forðaði mér hið snarasta út af leikskólanum og sagði við konuna mína, sem beið í bílnum, að hún fengi að sækja strákinn næstu daga.

 

SHARE