Að missa barn

Ég á þrjú börn. Eitt sem sefur núna í rimlarúminu sínu og knúsar bæði Bangsímon og Grísling, annað upp í rúmi að sparka í föður sinn en það þriðja fékk ekki að lifa en ég veit að hún er hjá mér. Sjáið til, barneignir enda ekki alltaf í hraustu barni með 10 fingur og 10 tær. Stundum, sem betur fer sjaldan, gerist það óhugsanlega og barnið deyr. Það getur gerst á meðgöngu eða það getur gerst í fæðingu eins og hjá mér og jafnvel seinna, eftir að barnið er fætt.

Meðganga er dásamlegur hlutur og sem betur fer upplifa flestar konur góða meðgöngu og eignast heilbrigt barn á meðan aðrar eignast kannski langveik börn og enn aðrar geta eignast andvanabörn. Hvað á samt að gera þegar barnið er ekki „fullkomið“? Hvað gerum við mæður sem eignumst langveik börn eða jafnvel andvana börn? Jú, við knúsum barnið okkar. Við elskum það. Alveg jafn mikið og kona sem eignast hraust barn. Við eigum engan kost. Þetta er barnið okkar, hvort sem það er heilbrigt eða ekki, lifandi eða dáið. Okkar barn, alltaf.

Þegar ég fékk litlu dóttur mína í fangið var hún ísköld, hún var pínulítil, ekki nema 26 sm og 313 grömm. Hún var samt fullkomin! Það eina sem vantaði var neistinn, þessi litli lífsneisti sem manni finnst að öll börn eigi að hafa. Það hinsvegar skipti ekki máli á þeirri stundu, því ég var móðir að syrgja barnið mitt. Ég gerði það sem allar mæður gerða. Ég tók litlu stelpuna mína í fangið, ég kyssti hana, ég knúsaði hana og ég sagði henni að ég elskaði hana. Ég segi henni oft að ég elskaði hana og ég grét. Ég grét litlu dóttur mína sem ekki fékk að lifa. Barnið mitt, fallega litla stelpan hennar mömmu sinnar.

Sjáið til. Þó að ég hafi ekki gengið fulla meðgöngu þá var ég samt mamma. Í huganum var ég löngu orðin mamma og þessi litli líkami sem ég hélt á var dóttir mín. Fyrsta barnið mitt.

Í dag er ég enn mamma hennar, ég tel hana til barnsinns míns og mun alltaf gera. Ég segi alltaf að ég eigi þrjú börn sé ég spurð og ég trúi því að það eigi ekki að fela dána barnið manns. Hvers vegna má maður ekki viðurkenna tilvist barns sem aldrei fékk að lifa? Eða börn sem deyja ung? Við foreldrar þessara litlu engla þurfum að finna stuðningin frá fólkinu í kringum okkur. Við þurfum að fá viðurkenningu á okkar sorg og missi. Sorgin hverfur ekki eftir hálft ár, ekki eftir heilt ár, ekki einu sinni eftir heilann áratug. Sorgin verður alltaf þarna, það eina sem gerist er að við lærum að lifa með henni en til þess að lifa með henni þurfum við að fá að tala um hana. Við þurfum að vita að það sé í lagi fyrir okkur að tala um látna barnið okkar. Það er enginn skömm að vera foreldri barns sem dó. Það er hinns vegar skömm að reyna að forðast umræður um látna barnið og neita að viðurkenna það.


Það eru nokkur ár síðan ég skrifaði þennan pistil og birti nafnlaust á öðrum netmiðli. Núna langar mig hinsvegar að minna á hann og hvetja alla sem vettling geta valdið til þess að styrkja Styrktarfélagið Gleymmérey en það berst fyrir aukinni fræðsli um missi og auknum stuðningi við foreldra án barna.

Einnig langar mig að benda á þessa fallegu skartgripi sem Gleymmérey er að selja en þeir eru tilvalin og falleg gjöf í jólapakkann.

SHARE