Að stíga út fyrir þægindaboxið

Ég skellti mér til Króatíu sem er í sjálfu sér ekki svo merkileg saga því það er jú svo lítið mál að ferðast um heiminn í dag.

Nema það að ég fór alveg út fyrir mitt þægindabox og það var stórkostlegt.

Þessi ferð var ákveðin fyrir margt löngu síðan og kom til vegna elsku minnar á olíunum mínum og áhuga á að læra Raindrop therapy sem er ákveðin aðferð sem varð til út frá aðferðum Tíbet munka og Indíána.

Regndropameðferðin skiptist í þrjá parta:

Kjarnolíumeðferð þar sem sérvaldar lífrænar kjarnaolíur eru notaðar.

Vitaflexmeðferð þar sem ákveðin tækni er notuð á vitaflexpunkta á iljunum. Tíbesk aðferð

Fjaðrastrokur á baksvæði en þessi tækni var gerð af indíánum og mikið notuð.

Ég hef sjálf upplifað þessa meðferð og fannst hún mögnuð svo mig langaði að öðlast færni í henni og geta veitt öðrum þessa mögnuðu meðferð.

Ég skráði mig í ferðina og lét mig hlakka til, ég þekkti svo sem ekki aðra sem voru að fara en kannaðist við eina frá fornu fari þó ég hafi aldrei hitt hana og út frá því ákváðum við að ferðast saman. Ég hafði hitt tvær aðrar einu sinni áður en að öðru leiti þekkti ég svo sem enga í þessari ferð. Var bara að fara fyrir mig og elta draum sem ég átti.

Áður en að ferðinni kom skall svo á okkur áfallið með krabbamein bóndans og ég veiktist illa af minni vefjagigt í kjölfarið. Ég íhugaði það að hætta við ferðina og spáði í það hvað ég væri að fara að þvælast ein til Króatíu, var það ekki bara brjálæði?

En við hjón komumst að þeirri niðurstöðu að það væri gott fyrir okkur að ég færi í ferðina og tæki aðeins frí frá veruleikanum um stund. Svo það varð úr að ég fór af stað í framandi land með ókunnugum konum. Eitthvað sem hefði ekki hvarflað að mér fyrir 5 árum síðan en vá hvað ég er þakklát fyrir að hafa farið og kynnst öllum þessum frábæru konum. Upplifa Raindrop therapy og alveg nýja ókannaða hlið á sjálfri mér.

Ég flaug með Lufthansa en millilenti í Frankfurt. Lufthansa fær toppeinkun hjá mér og ekki að ástæðulausu. Það er matur um borð og boðið upp á vín, bjór, vatn, djúsa og kaffi allt fríkeypis. Hef bara ekki lent í svona flugferð í áraraðir!

Flugvöllurinn í Frankfurt er í uppáhaldi eftir þessa ferð, mjög þægilegur og alger snilld að taka flugvallahótel ef gista þarf nótt.

Króatía tók vel á móti mér með sól og hita og hófst ferðin þar á klukkustunda rútuferð langt út í sveit þar sem keyrt var upp og niður fjallahlíðar á mjóum vegum og afar hægt.

Króatía er heillandi að mínu mati ákaflega falleg og sérstök, veðrið var æði 17 gráður og sól. Ég, Íslendingurinn léttklædd en Króatar í dúnúlpum þeim fannst kalt.

Eftir þessa ferð á ég heiðurinn af því að planta einni Hellicrysum plöntu í Króatíu sem einn daginn verður að dásamlegri kjarnaolíu.

Ég kom heim með örlítinn lit í kinnum og á bringu og stærra sjálf og fullt af kærleika í hjarta. Mæli klárlega með því að stíga út fyrir þægindaboxið og upplifa eitthvað alveg framandi eins og að ferðast ein með ókunnugu fólki til lands sem þú þekkir ekkert.

Króatía, ég vona að við hittumst aftur, hver veit nema ég skelli mér í Hellicrysumuppskeruna.

Ef einhver hefur áhuga á nánari upplýsingum þá er velkomið að senda mér mail á kristinsnorra@gmail.com

 

SHARE