Að tala tæpitungulaust

munnur lips

Jæja, ég hef ekki haft tíma til að skrifa pistil í alllangan tíma, enda verið á kafi í vinnu og brúðkaupsundirbúningi. Það styttist nú heldur betur í það, næstu helgi er stóra stundin og ég hef einmitt verið á fullu við að skipuleggja, gera og græja, svona eins og gengur og gerist.

Hvað um það, ég skal segja þér meira frá því síðar. Í dag ætla ég að segja þér aðeins af henni mömmu. Hún er ekki alltaf eins og fólk er flest. Ekki misskilja mig, mér þykir afskaplega vænt um hana en hún á það til að vera, tja, óþægilega hreinskilin og oft á tíðum bara ansi dónaleg.

Fyrir nokkru fórum við í veislu, sem væri vart til frásögu færandi nema fyrir ótrúlega hegðun hennar þar. Við tilvonandi eiginkona mín sóttum hana á rigningareftirmiðdegi og ókum sem leið lá í einhvern sal á Álftanesi. Þar voru fjölmörg ættmenni mín og meðal þeirra var frænka mín ein. Þessi ágæta kona, sem er örfáum árum yngri en ég, hefur ekki verið við karlmann kennd nokkuð lengi. Hún lítur ljómandi vel út en eins og hjá svo mörgum Íslendingum þá eru tennur hennar ekki alveg jafnar og er ein tönn skekkri en hinar. Mamma gekk inn, leit í kringum en arkaði síðan sem leið lá að þessari frænku minni, sem við skulum bara kalla Höllu. Hún hlammaði sér í sæti við hlið hennar.

„Hvernig er það, Halla mín, átt þú ekki einhvern smá sjóð á bók?“ spurði mamma. Frænka mín hváði svo mamma endurtók spurninguna.

„Jú, eitthvað á ég, af hverju spyrðu?“ svaraði Halla, ekki lítið undrandi á þessari spurningu mömmu.

„Þú gætir kannski látið laga í þér tennurnar, það getur enginn karlmaður elskað konu með svona ljótt bros,“ sagði mamma í móðurlegum og afar vel meinandi tóni. Halla skellti upp úr og hló en hætti því snarlega þegar hún sá að mömmu var dauðans alvara.

„Ég hef enga þörf fyrir karlmann og lendi ég í ástarsambandi ætla ég rétt að vona að hann elski mig eins og ég er, en ekki eingöngu fyrir sakir útlits míns,“ svaraði Halla ákveðin. Mamma gerði sig líklega til að svara Höllu en ég steig inn í og dró athygli mömmu að hlaðborðinu.

Á leiðinni þangað hallaði mamma sér að mér og sagði:

„Heldurðu að það geti verið að Halla sé lesbísk?“

„Nei, það held ég ekki.“

„Hún ætti að drífa sig í blóðprufu og láta athuga það.“

„Ha! Hvað áttu við?“ spurði konan mín.

Mamma svaraði engu. Hún leit í kringum sig og kom auga á hvar Vigdís Finnbogadóttir sat við borð þar í einu horninu. Hún hnippti í mig.

„Nei, er þetta ekki hún Vigdís okkar?“ sagði hún stundarhátt.

Ég leit við.

„Jú, mér sýnist það.“

„Hún var alltaf svo glæsileg,“ bætti mamma við, enn jafn háróma og áður. „Mikið hefur hún elst, blessunin.“

Vigdís leit til okkar og virtist hafa heyrt í mömmu. Þá var konunni minni allri lokið, hún gekk á brott og fékk sér sæti hjá ættingjum mínum. Ég skil hana mjög vel. Mér hitnaði í framan og fann að ég svitnaði. Mér leið eins og ég hefði framið helgispjöll og allir í veislunni hefðu orðið vitni að því.

 

SHARE